Erla Ásmundsdóttir fæddist í Reykjavík 28. maí 1931. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 29. júlí 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Stefánsson, f. 1899, d. 1984, og Dagmar Einarsdóttir, f. 1907, d. 1942.

Eiginmaður Erlu var Agnar Ólafsson stýrimaður og fasteignasali, f. 1930, d. 2014. Börn þeirra eru fjögur: Ingvi Theódór, f. 1950, d. 19. október 2021, Dagmar, f. 1952, Kristín Agnes, f. 1955, og Agnar, f. 1961. Afkomendur Erlu og Agnars eru nú á fjórða tuginn.

Útför hennar var gerð í kyrrþey 10. ágúst 2022.

Það var vitað í alllangan tíma hvert stefndi með hana elskulegu mömmu mína – en höggið var engu að síður þungt. Fráfall hennar skilur mann eftir í tómarúmi og söknuði; það er erfitt að hugsa sér að hún sé horfin í eitt skipti fyrir öll. Og þó – eftir sitja minningarnar og merkin um hana á heimilum okkar sem eftir lifa. Það er helst að maður geti huggað sig við að í draumalandinu hittir hún aftur pabba og Ingva bróður og allt eins líklegt að dansinn verði stiginn fram á rauðanætur – þótt næturnar handan við séu sjálfsagt gylltar.

Mamma var hlýleg og falleg kona og vildi öllum hið besta. Hún var handlagin og listræn – dugleg við að sauma út, rennibrautir, veggteppi, flosmyndir og klæddi rókókóstóla. Á síðari árum fór hún að mála, mest með akríllitum, og sýndi sum verka sinna, m.a. í Ráðhúsi Reykjavíkur og á Hrafnistu. Þá var hún feimnisleg – það hentaði henni ekki að vera í sviðsljósinu eða njóta athygli umfram aðra. Það hentaði henni betur að hlúa að sínu fólki, börnum og barnabörnum, og hún átti til að dúkka upp á vinnustöðum okkar dætra sinna þegar við vorum einar á vaktinni og gekk þá hiklaust í þau verk sem þurfti að vinna.

Hjónaband foreldra minna var langt og gifturíkt. Aldrei varð þeim sundurorða, á milli þeirra ríkti eilíf samstaða og samvinna. Þau fengu sömu veiðidelluna, sömu hestadelluna og áttu sína sumarbústaði þar sem allir voru velkomnir, því oftar og lengur því betra. Alltaf var eindregin samheldni í fjölskyldunni, hvort heldur það var með jóla- og áramótaveislum í Fýlshólunum eða í sumarbústöðum fjölskyldunnar. Þar var stunduð hestamennska af miklu kappi og áður höfðu þau fengið útrás fyrir alvarlega veiðidellu í ám og vötnum víða um land, mest í félagi við Eygló systur mömmu og Daða mann hennar, sem bæði eru látin. Oftar en ekki vorum við börnin með í þessum ferðum til að veiða silung eða lax og var þá öll hersingin í tjöldum. Það gat verið þröng á þingi – en gleði og hamingja skein úr hverju andliti. Þannig var okkar barnæska, allir glaðir og reifir í samverunni.

Hún var elskurík amma ekki síður en mamma. Barnabörnin – þau sem náð hafa aldri til – sakna hennar djúpt og með þakklæti fyrir að hafa átt svo hlýja og umhyggjusama ömmu og vinkonu. Það er ekki síst Elli sonur minn, elsta barnabarnið, sem saknar ömmu sinnar og afa sem hann átti langar stundir hjá í barnæsku.

Vertu sæl, elsku besta mamma mín, og takk fyrir allt.

Dagmar Agnarsdóttir.

Ég var fyrsta barnabarn ömmu minnar og afa og varði löngum stundum með þeim, var hjá þeim í Fýlshólum ófáar helgarnar. Og það verður að viðurkennast að það var dekrað við mig enda engin samkeppni við systkini mín eða frændsystkin – ég var þegar kominn!

Þau tóku mig með sér hvert sem þau fóru, hvort sem það voru hestaferðir út frá Laugarvatni eða alla leið til Ameríku. Þessar minningar eru mér ljúfar og dýrmætar og ég get huggað mig við þær þegar þau eru bæði farin yfir móðuna miklu.

Þegar afi féll frá 2014 höfðu þau verið hamingjusamlega gift í nærri hálfa öld. Þegar ég hugsa til baka sýnist mér að þá hafi amma byrjað að deyja. Heilsu hennar fór að hraka og hún gat ekki lengur keyrt bílinn sinn sem hún hafði gert óhrædd og ákveðin fram á níræðisaldurinn. Hún saknaði afa óumræðilega.

Elsku amma mín, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Erlingur H. Valdimarsson.