Mjólkurbikar Valskonur fögnuðu með viðeigandi hætti þegar þær urðu bikarmeistarar í fótbolta á Laugardalsvelli.
Mjólkurbikar Valskonur fögnuðu með viðeigandi hætti þegar þær urðu bikarmeistarar í fótbolta á Laugardalsvelli. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Bikarúrslit Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Valur varð á laugardag bikarmeistari kvenna í fótbolta, í fyrsta skipti frá árinu 2011, er liðið vann 2:1-sigur á Breiðabliki á Laugardalsvelli.

Bikarúrslit

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Valur varð á laugardag bikarmeistari kvenna í fótbolta, í fyrsta skipti frá árinu 2011, er liðið vann 2:1-sigur á Breiðabliki á Laugardalsvelli. Með sigrinum varð Valsliðið það sigursælasta í sögu bikarsins með 14 bikarsigra, en Breiðablik jafnaði Valsliðið með 13 sigra á síðustu leiktíð.

Breiðablik var með 1:0-forskot í hálfleik eftir vel útfærðan fyrri hálfleik. Valsliðið komst lítið áleiðis gegn skipulögðu liði Breiðabliks á meðan skyndisóknir Kópavogsliðsins voru stórhættulegar. Eftir eina slíka skoraði Birta Georgsdóttir fyrsta markið.

Allt annað Valslið mætti til leiks í seinni hálfleik og réð Breiðablik illa við hættulegar sóknir Hlíðarendaliðsins. Það skilaði sér að lokum í jöfnunarmarki frá Cyeru Hintzen. Stórsókn Vals hélt áfram og Ásdís Karen Halldórsdóttir, nýjasta landsliðskona Íslands og einn besti leikmaður Íslandsmótsins, skoraði sigurmarkið rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Hvergi veikan blett að finna

Valur hefur verið besta lið Íslands á árinu og sigurinn var verðskuldaður. Það verður þrautin þyngri fyrir Breiðablik að hindra Val í að ná í tvennuna, þar sem Valsliðið er með fjögurra stiga forskot á toppnum þegar liðin eiga fimm leiki eftir og virðist hvergi veikan blett að finna á Valsliðinu. Það er einstaklega vel sett saman.

Sandra Sigurðardóttir er besti markvörður Íslands í dag, öll varnarlínan eins og hún leggur sig er mögnuð. Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Lára Kristín Pedersen vinna skítverkin ótrúlega vel á miðjunni og Ásdís Karen verður bara betri og betri í frjálsu hlutverki þar fyrir framan. Þá ná Sólveig Larsen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Cyera Hintzen einstaklega vel saman í sóknarleiknum. Þær hafa aldrei spilað eins vel, enda þarf Elín Metta Jensen að sætta sig við bekkjarsetu þessa stundina.

Þrátt fyrir að Valur hafi verið í allra fremstu röð í íslenskum fótbolta í kvennaflokki síðasta áratuginn hefur liðinu gengið bölvanlega að komast í bikarúrslit, eftir þrjá sigra í röð frá 2009 til 2011 og tap í úrslitum árið 2012. Leikurinn á laugardag er fyrsti úrslitaleikur Valskvenna í áratug.

Valur hefur í tvígang unnið tvöfalt, árin 2009 og 2010, en það er sjaldgæft að lið hér á landi vinni tvennuna. Þrátt fyrir fjölmarga Íslandsmeistaratitla hefur Breiðablik aðeins fjórum sinnum unnið tvöfalt og Valur tvisvar, eins og KR. Valskonur ætla sér að bæta þriðju tvennunni við.