Ég fékk sendan góðan póst: „Magnús Halldórsson í Hvolsvelli orti í orðastað Guðna Ágústssonar sem sendi Rangæingum mikla ádrepu nýlega í Dagskránni á Selfossi og taldi að þeir sýndu Njálssögu lítinn sóma og brenndu svínarif og steiktu hamborgara í...

Ég fékk sendan góðan póst: „Magnús Halldórsson í Hvolsvelli orti í orðastað Guðna Ágústssonar sem sendi Rangæingum mikla ádrepu nýlega í Dagskránni á Selfossi og taldi að þeir sýndu Njálssögu lítinn sóma og brenndu svínarif og steiktu hamborgara í Sögusetrinu svo mönnum sortnaði í augum. Magnús segir „Ástsæll, fyrrum leiðtogi samvinnu-manna á norðurhveli og yrkir“:

Ó hve núna allt er breytt,

ekkert líf í glóðum

Og að frétta aldrei neitt,

er af Njáluslóðum.“

Nú rifjaðist auðvitað upp fyrir mér ljóð Hannesar Péturssonar „HÖFUNDUR NJÁLU. Brot úr niðurstöðu rannsóknar“ sem birtist í ljóðabók hans, Rímblöðum:

...Staðreyndir ýmsar stangast á

stórum meir en vér héldum.

Ekki t.d. var Ingjaldur þá

orðinn bóndi á Keldum.

Áður hef ég áherslu lagt

á örlög Hámundarsona.

Ég hygg því rétt, eins og hér var sagt

að höfundur Njálu sé kona.

Jón Jens Kristjánsson yrkir á Boðnarmiði um meirihlutann í RVK.:

Flokkar örlítið vinstra megin og miðjan

munu nú bjóða handverkið til sölu

því afkastamesta axarskaftasmiðjan

er hér rekin á þeirra kennitölu.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir Þembulimru:

Úr réttunum Tóti með rembinginn

kom rekandi margan tvílembinginn

í ausandi dembu

með iðraþembu

af því að ríða kembinginn

Og hér er limran Hryggbrot eftir Guðmund:

Er vertinn hann Vilmundur sveri

bað Veru hún upp á sig sneri

og hryggbraut þann

heiðursmann

og hryggurinn illa greri.

Davíð Hjálmar Haraldsson um vanda lögreglunnar.

Löggan vill rafmagnsvopn eiga

(hún á ekki)

því ósjaldan kylfuhögg geiga

(sem má ekki).

Menn vilja bófana feiga (en fá ekki).

Er fjármögnuð rafmagnsstólsleiga?

(Þeir skrá ekki).

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is