Ólafur Andrés Ingimundarson fæddist 22. nóvember 1933. Hann lést 17. júlí 2022.

Útför Ólafs fór fram 12. ágúst 2022.

„Á að sofa í allan dag?“ sagði hann hátt og hvellt þegar hann mætti í tjaldbúðir Harðarmanna snemma morguns árið 1965. Hafði þá verið í heyskap langt fram eftir nóttu og síðan riðið á Skógarhóla. Hestamannafélagið Hörður hafði skipulagt sinn fyrsta tveggja daga félagstúr þetta ár. Daginn áður, þegar riðið var hjá Hrísbrú, var Ólafur í heyskap og hafði mikið undir. Glampandi sól og mikill þurrkur og mikilvægt að nýta þann tíma. Ólafur sagði við félaga sína að hann myndi koma þegar hann væri búinn með heyskapinn, hvað hann og gerði. Það var til þess tekið að Ólafur á Hrísbrú var mikill heyskaparmaður, eljan ótrúleg. Þar var ekkert gefið eftir og klukkustundirnar í sólarhringnum of fáar.

Ólafur var einn stofnenda Harðar, þá aðeins sextán ára, sem sýnir mikinn hestaáhuga. Hann og faðir hans, Ingimundur, voru miklir áhugamenn um hestamennsku. Man ég eftir þeim sem krakki á útreiðum; Ingimundur fyrstur, gjarnan með sígarettu í öðru munnvikinu, og Ólafur á eftir. Að sjá Óla á hestbaki var sérstök sjón. Það var eins og hann kæmi ekki við hnakkinn. Hann var svo laus í hnakknum og reiðmennskan frjáls. Þótt hann væri svona léttríðandi held ég að hann hafi sjaldan dottið af baki. Hann sat flesta hrekkjahunda eins og honum væri það eðlislægt, enda tamdi hann margan hrekkjahundinn á sinni ævi. Þá voru þeir margir erfiðu hestarnir sem hann fékk í hestkaupum um ævina.

Þegar Ólafur var 26 ára eða árið 1960 stofnaði hann ásamt föður sínum fyrstu hestaleiguna hér á höfuðborgarsvæðinu. Boðið var upp á hestaferðir á Tröllafoss og voru ferðirnar um helgar og á miðvikudögum en þá voru áætlunarferðir í Mosfellsdalinn. Seinna urðu ferðirnar fleiri þegar boðið var upp á að sækja ferðalangana. Eitt sinn um páska fóru þeir feðgar með marga hesta til Reykjavíkur og buðu upp á ferðir á Geitháls. Ólafur var í samstarfi við ferðaskrifstofurnar á þessum árum. Það sýnir framsýni Óla að hann reisti móttökuskála fyrir ferðamennina á hlaðinu á Hrísbrú.

Ólafur var með þessa starfsemi í tæpan áratug þegar hann sneri sér alfarið að búskapnum. Undirritaður kom oft til Óla á þessum búskaparárum sem dýralæknir Á tímabili kom upp bráðadauði í kúnum að sumarlagi. Duttu þær niður dauðar hvar sem þær voru og var orsökin engan veginn þekkt. Mér er sérstaklega í minni það æðruleysi sem einkenndi Ólaf á þessum tíma. Hann sýndi mikla stillingu, sem ég dáðist að.

Ólafur átti alla tíð góða hesta og tók á tímabili þátt í hestamótum hjá Herði. Þar fóru fremstir í flokki þeir Smári og Neisti sem unnu til verðlauna. En besta hest sinn fór Ólafur aldrei með á keppnisbrautina en sá hestur var stólpagæðingur. Það sást langar leiðir og hefði sá hestur staðið efstur á keppnisbrautinni ef Ólafur hefði viljað það. Hesturinn Blakkur, eða Brúnn eins og hann var kallaður, kom sem leynifarþegi í hryssu að Hrísbrú og eftir nokkrar vendingar eignaðist Ólafur hestinn sem varð hans augasteinn og hann mat mikils. Nú er ég viss um að þeir félagar hafa sameinast á ný og hægt að ímynda sér þá á góðgangi þar efra.

Helgi Sigurðsson.