Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segir að tillögunum sem borgarráð lagði fram á dögunum miði vel áfram.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, segir að tillögunum sem borgarráð lagði fram á dögunum miði vel áfram. Allt bendi til þess að Ævintýraborg á Nauthólsvegi verði opnuð í fyrri hluta september, eins og áætlanir gera ráð fyrir. Að hennar sögn er aðaláskorunin að manna leikskólann.

„Nauthólsvegurinn var til dæmis ekki mannaður en í síðustu viku bættust við að minnsta kosti tveir til þrír starfsmenn. Við erum bjartsýn á að það náist að manna þann leikskóla sem allra fyrst. Fyrirstaðan í öllu kerfinu er manneklan. Þótt húsnæðið sé fullgert, þá þurfum við alltaf að hafa fólk til þess að taka móti börnunum,“ segir Árelía í samtali við Morgunblaðið.

Árelía segir aðspurð ekki geta svarað því, hversu mörgum börnum hefur verið boðið leikskólapláss frá því að tillögurnar voru kynntar, en biðlistarnir eru farnir að styttast.

Spurð, hvort stytting á námi leikskólakennara gæti hjálpað til við að leysa mönnunarvandann, svarar hún því neitandi.

Umsækjendum fjölgar

Það sé mikilvægt að bera virðingu fyrir leikskólakennurum sem fagmenntaðri stétt. Hún nefnir sem dæmi að umsækjendum í leikskólakennaranám hafi fjölgað milli ára en umsóknum í flestar aðrar greinar við Háskóla Íslands hafi fækkað.

Árelía telur mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Hún nefnir til dæmis möguleikann á því að hreyfa við fæðingarorlofskerfinu, líkt og formaður félags leikskólakennara hefur lagt til. Borgin þurfi einnig að styðja við dagmæðrakerfið og atvinnulífið þurfi að verða sveigjanlegra og koma til móts við foreldra. logis@mbl.is