Hjörtur Sævar Steinason
Hjörtur Sævar Steinason
Eftir Hjört Sævar Steinason: "Í raun má segja að við notum rafmagn sem aðalaflgjafa!"

Hvað er strandveiðibátur annað en hybrid?

Nú á tímum orku-þessa og orku-hins er rétt að vekja athygli á því að strandveiðibátar hafa alla tíð verið tvíorkuskip eða hybrid eins og það heitir í dag.

Löngu fyrir okkar tíma – er menn ekki einu sinni hugsuðu um hybrid, það bara var ekki til – voru strandveiðibátar orðnir hybrid því við strandveiðisjómenn erum umhverfisvænir, okkur er annt um jörðina og það sem á henni þrífst. Fólk var varla byrjað að hugsa um þessa hluti þá. Þá vildu menn allt til þess vinna að þeir gætu drepið á vélum meðan fiskað væri. Síðar komu rafmagnsvindur og svo smám saman tölvuvæddust vindurnar. Og þá þurfti töluvert rafmagn til að þær gætu unnið þann tíma sem á veiðum stóð. Svo ekki þyrfti að vera með vélar bátanna í gangi og losna við aukamengun á meðan fiskað var voru settir tveir auka mjög öflugir og stórir rafgeymar fyrir vindurnar. Og þannig er það enn þann dag í dag; allt til að minnka umhverfis- og kolefnissporið, svo við tölum nú ekki um gróðurhúsalofttegundir!

„Svo ætlar ráðherra sjávar að verðlauna þá smábáta eða fiskiskip sem knúin eru rafmagni sem aðalaflgjafa og sækja um að landa 750 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð á strandveiðum á fiskveiðiárinu 2022/2023 í stað 650 kg.“

Í raun má segja að við notum rafmagn sem aðalaflgjafa, því við eyðum töluvert miklu meiri tíma í veiðarnar en siglingu bátsins!

Það er ekki hægt að tala um vélina sem knýr bátinn sem aðalaflgjafa þegar við notum vindurnar við veiðar megnið af dagsprógramminu. Megnið af deginum erum við við veiðar.

Svo góðir hálsar: Við strandveiðisjómenn erum svo sannarlega á hybrid-bátum!

Höfundur er sjómaður. hjortur@jakinn.is