Aðhald Hærra eldsneytis- og matvælaverð hefur haft áhrif á neytendur.
Aðhald Hærra eldsneytis- og matvælaverð hefur haft áhrif á neytendur. — AFP / Angela Weiss
Margar bandarískar verslanakeðjur standa frammi fyrir því að þurfa að selja mikið magn af varningi á niðursettu verði til að rýma fyrir jólavörum.

Margar bandarískar verslanakeðjur standa frammi fyrir því að þurfa að selja mikið magn af varningi á niðursettu verði til að rýma fyrir jólavörum. Dregið hefur úr kaupgleði neytenda vestanhafs og virðist markaðurinn mettaður af ýmsum vöruflokkum sem ruku út í kórónuveirufaraldrinum, svo að seljendur sitja uppi með meiri birgðir en venjulega.

Wall Street Journal greinir frá því að sumar stærstu verslanakeðjur landsins hafi þegar þurft að lækka hagnaðarspár sínar en botninn hefur einkum dottið úr sölu á fatnaði og húsbúnaði. Greindu stjórnendur raftækjaverslanakeðjunnar Best Buy nýverið frá því að sala á nýjum sjónvörpum hefði dregist saman og kenndu þeir hækkuðu bensín- og matvælaverði um þróunina. Hjá lúxusvöruverslunum Macy's hefur dregið úr neyslu viðskiptavina í öllum tekjuþrepum en hjá lágvöruverslunum Dollar General er þróunin sú að neytendur færa sig yfir í ódýrari vörur og greiða í auknum mæli með kreditkortum.

Ný könnun PricewaterhouseCoopers bendir til að bandarísk heimili komi til með að eyða ögn minna fyrir þessi jólin en í fyrra. Þau svör sem fengust í könnuninni sýna að fólk ætli sér að eyða lægri fjárhæðum í gjafir en meiru verði varið í veislumat og mannfagnaði. ai@mbl.is