Anna Margrét Pálsdóttir fæddist í Berufirði í Reykhólasveit 17. maí 1929. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum 6. ágúst 2022.

Foreldrar hennar voru Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 27.1. 1899, d. 28.8. 1978, og Páll Finnbogi Gíslason, f. 7.8. 1884, d. 13.7. 1971. Systkini hennar voru Ingibjörg (samfeðra), f. 1907, d. 1973, Jón Óskar (samfeðra), f. 1909, d. 1989, Gísli Kristinn, f. 1924, d. 2011, Ingólfur Marinó, f. 1928, d. 1998, og Halldór, f. 1941.

Hinn 21.11. 1948 giftist Anna Aðalsteini Eyjólfi Aðalsteinssyni, f. 5.8. 1923. Þeirra börn eru: 1) Hafliði Már, f. 1949, maki Jófríður Benediktsdóttir, f. 1952. Börn þeirra eru Hugrún Björk, f. 1972, og Benedikta Steinunn, f. 1973. Barnabörnin eru tvö. 2) Elín Ágústa, f. 1950, maki Ásbjörn Jóhannesson, f. 1949, barn; Jóhannes, f. 1979. Barnabörnin eru þrjú. 3) Jón Valdimar, f. 1953, maki Sigrún Davíðsdóttir, f. 1958. Börn þeirra eru Júlíus, f. 1979 (sonur hennar), Ágústa Sigríður, f. 1988, og Jóhanna Sesselja, f. 1990. Fyrri maki Svanhildur Benediktsdóttir, f. 1954. Börn þeirra: Anna Margrét, f. 1971, Agnes, f. 1976, og Silvía, f. 1979. Barnabörnin eru fjórtán og barnabarnabörnin þrjú. 4) Páll Finnbogi, f. 1954, maki Anna Reynisdóttir, f. 1972, börn Halldóra Margrét, f. 2003, og Bjarni Þormar, f. 2005. Fyrri maki Sigrún Kristinsdóttir, f. 1954, börn Kristinn Már, f. 1976, Birkir, f. 1979, og Anna Margrét, f. 1988. Barnabörnin eru þrjú. 5) Skúli, f. 1956, maki Guðrún Brynjarsdóttir, f. 1963. Börn þeirra eru Svala, f. 1981, Skúli, f. 1984, Sæunn, f. 1989, og Snorri, f. 1995. Barnabörnin eru fimm. 6) Drengur, f. 1959, d. 1959. 7) Jóhanna Björg, f. 1961, maki Eiríkur Kr. Jóhannsson, f. 1956. Börn þeirra eru Sverrir Vídalín, f. 1989, Arnfríður Björg, Aðalsteinn Eyjólfur og Jóhann, f. 1993, d. 1993. Jóhann Aðalsteinn, fæddur andvana, 1997. 8) Aðalsteinn, f. 1964, maki Þórunn Bjarney Garðarsdóttir, f. 1972, börn Harpa Dögg, f. 1983 (dóttir hans), Garðar, f. 1997, og Ágústa, f. 2000 (börn hennar). Fyrrverandi maki Sigríður Sturludóttir, f. 1965. Börn: Hrafntinna, f. 1988 (dóttir hennar), Aðalsteinn Emil, f. 1994, og Adam Freyr, f. 2001. Barnabörnin eru þrjú. 9) Guðbjörg, f. 1966, maki Gísli Jón Bjarnason, f. 1961, börn Elín Anna, f. 1988, og Íris Eva, f. 1992. Barnabörnin eru fjögur.

Anna fæddist í Berufirði í Reykhólasveit, flutti fimm ára að Skerðingsstöðum í sömu sveit og þaðan að Reykhólum. Skólaganga hennar var ekki löng, farskóli eins og þá tíðkaðist. Hún giftist Aðalsteini, þau stofnuðu heimili í Hvallátrum og bjuggu þar í 28 ár og ólu börnin sín upp þar að mestu. Starfsævin fólst að mestu í að sinna stóru heimili og börnum. Hún vann ýmis önnur störf um ævina; í vist í Reykjavík, við vegagerð yfir Þorskafjarðarheiði, dagmóðir, á saumastofu, hjá SS og á Hafnarbúðum.

Anna hafði yndi af hannyrðum, sem hún náði meira að sinna á efri árum, bókalestri og ljóðum. Í janúar 2020 flutti Anna að hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ og þar hélt hún áfram að sauma út og prjóna fram að andláti.

Útför Önnu fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 29. ágúst 2022, kl. 13.

Mamma.

Hversu stórt orð og merkingarþrungið í mínum huga. Ég var mjög heppin með mömmu. Mamma hefur verið mér fyrirmynd fyrir hlýju, umhyggjusemi og þrautseigju. Hún var alltaf til staðar og hafði svo góða nærveru. Hún faðmaði og þurrkaði tárin. Hlýjaði köldum fingrum og huggaði sorgmætt hjarta. Og þolinmæðin endalaus. Það hlýtur að hafa oft reynt mikið á hana að vera með okkur systkinin átta sífellt að koma inn blaut og eða skítug eftir leikina í fjörunni, í móunum, í fjósi eða fjárhúsi. Og hún hélt áfram að hjálpa og styðja okkur þó við yrðum fullorðin. Hún lifði fyrir fjölskylduna og elskaði að fá okkur í heimsókn, börn, tengdabörn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. Fólkið sitt.

Hversu dýrmæt „þriðjudagskvöldin“ voru, þar sem við systurnar komum til mömmu og gerðum handavinnu saman eftir að pabbi fór á hjúkrunarheimili. Svo fóru bræðurnir að mæta á þessi kvöld, þó engin væri handavinnan hjá þeim og stundum næsta kynslóð líka. Þá var oft kátt á hjalla, rætt um menn og málefni og jafnvel skoðaðar gamlar myndir. Þessi kvöld gáfu okkur ekki minna en henni. Fljótlega eftir að hún fór á hjúkrunarheimili þá brast covid á og öllu var skellt í lás og engar reglulegar heimsókni nema að glugganum hennar. Hún bar sig vel þegar við töluðum við hana í símann við gluggann en þessi lokun hafði meiri neikvæð áhrif á hana en hún gerði sér grein fyrir. Hún átti erfitt með að þekkja margt af fólkinu sínu sem lengst af mátti ekki heimsækja hana. En alltaf var hún róleg og lét vel af sér.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera henni samferða svona lengi. Minning hennar mun ylja mér um ókomna tíð.

Hvíl í friði elsku mamma.

Þín dóttir

Guðbjörg.

Yndisleg tengdamóðir okkar Anna Margrét Pálsdóttir er fallin frá.

Anna var gift Aðalsteini Aðalsteinssyni bátasmið sem andaðist 8. júní 2014 og bjuggu þau lengst af í Hvallátrum á Breiðafirði og síðar í Reykjavík. Þau áttu saman níu börn og átta þeirra kveðja nú mömmu sína. Við vorum svo heppnir að kynnast dætrum Önnu sem aldar voru upp í Hvallátrum, þar sem lífið var ekki alltaf dans á rósum og því harla ólíkt því sem við þéttbýlisdrengirnir áttum að venjast. Anna var góð og sérlega glaðleg kona sem kom sínu fram með þolinmæði og yfirvegun, það voru aldrei nein læti í kringum hana. Hún tók okkur strákunum vel og við urðum strax viðbót við stóra hópinn hennar sem henni þótti svo vænt um. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til Önnu sem stjanaði við okkur. Hún var einnig einstaklega barngóð kona sem börnin okkar og barnabörn fengu að kynnast.

Við kveðjum nú tengdamömmu sem er sárt saknað, megi hún hvíla í friði og minning hennar lifa.

Ásbjörn, Eiríkur og Gísli.

Elsku amma er farin. Við systurnar minnumst ömmu með hlýhug, þakklæti og gleði. Hún tók alltaf vel á móti okkur og þótti vænt um fólkið sitt. Þegar við vorum litlar var fastur liður í tilverunni að fara til ömmu og afa á Háaleitisbrautina í jólaboð með frænkum og frændum. Þar var líf og fjör innan um uppstoppuðu fuglana og alla myndarammana í borðstofunni. Vanilluhringirnir og jarðarberjatertan voru í miklu uppáhaldi. Þegar við vorum í heimsókn hjá ömmu var hún fljót að draga upp spilastokk til að spila við okkur, leyfði okkur að drasla til og fara í ævintýralegar gönguferðir um nágrennið. Það var mjög spennandi ef hún átti erindi inn í bæ því þá fórum við saman í leigubíl eða í strætó. Okkur systrunum þótti það undarlegt að amma hafði ekki hug á að taka bílpróf eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur úr Hvallátrum en svona var amma. Hún uni sér vel við sitt og hafði gaman af bókum og hannyrðum. Við vorum saman í saumaklúbb til fjölda margra ára þar sem hún lét sig ekki vanta lengi vel. Hafði mjög gaman af því að sauma í, hlusta og taka þátt í að rekja ættir hinna og þessara sem minnst var á. Hver bjó hvar í sveitinni hér áður fyrr. Það voru dýrmætar samverustundir á okkar fullorðinsárum. Hennar styrkleikar fólust í þeim friði sem einkenndi hana, ró og yfirvegun. Þægileg nærvera og umvefjandi umhyggja fyrir öðru fólki.

Elsku amma, takk fyrir öll árin. Guð blessi þig.

Hugrún og Benedikta.