Bambus Um er að ræða þrjá starfsmenn frá Filippseyjum.
Bambus Um er að ræða þrjá starfsmenn frá Filippseyjum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Fagfélögin ætla að funda með eigendum veitingastaðanna Flame og Bambus í dag vegna ásakana á hendur stöðunum tveimur um stórfelldan launaþjófnað.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Fagfélögin ætla að funda með eigendum veitingastaðanna Flame og Bambus í dag vegna ásakana á hendur stöðunum tveimur um stórfelldan launaþjófnað. Um er að ræða þrjá starfsmenn sem komu hingað til lands frá Filippseyjum á vegum vinnuveitanda. Talið er að þeir hafi unnið allt að sextán tíma á lágmarkslaunum sex daga í viku. Hvorki hafi verið greitt vaktaálag, yfirvinna né orlof.

„Við munum funda með honum á morgun. Fara yfir þetta. Þá sjáum við stærðargráðuna á kröfunni. Þá verður búið að reikna út hvað hún er há,“ segir Benóný Harðarson, forstöðumaður kjarasviðs Fagfélaganna. Hefur Benóný áður sagt að hann telji að um sé að ræða umtalsverðar upphæðir.

„Það kemur meira í ljós eftir fundinn,“ segir Benóný, en bætti við að starfsmennirnir þrír væru á góðum stað. „Þau eru öll komin með nýja vinnu og við erum að leita á fullu að húsnæði fyrir þau,“ segir hann. Starfsmennirnir búa nú í húsnæði á vegum stéttarfélagsins. Áður bjuggu þau í íbúð á vegum vinnuveitanda síns.

Davíð Fei Wang, eigandi veitingastaðanna tveggja, sagði þegar málið komst upp að það væri „byggt á misskilningi“ og búið væri að leysa það. Benóný er þó ekki sömu skoðunar. Hann segir að nýrra upplýsinga megi vænta eftir klukkan þrjú í dag, að loknum fundi.