Börn Flóðin eru þau mannskæðustu til þessa. Yfir 1.000 manns hafa látist.
Börn Flóðin eru þau mannskæðustu til þessa. Yfir 1.000 manns hafa látist. — AFP/Fida Hussain
Stjórnvöld í Pakistan biðla til alþjóðasamfélagsins um aðstoð í glímu sinni við gríðarleg flóð í landinu. Í gær höfðu 119 manns bæst í tölu látinna sólarhringinn áður. Stóð fjöldinn í 1.

Stjórnvöld í Pakistan biðla til alþjóðasamfélagsins um aðstoð í glímu sinni við gríðarleg flóð í landinu.

Í gær höfðu 119 manns bæst í tölu látinna sólarhringinn áður. Stóð fjöldinn í 1.033 við samantekt í gær hjá alþjóðlegum samtökum sem meta skaða af völdum náttúruhamfara ( National Disaster Management Authority ).

Flóðin, sem eru af völdum monsún-regns á svæðinu, eru þau verstu í manna minnum.

Bandaríkin, Bretland og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa þegar lagt til fjármuni vegna hamfaranna en stjórnvöld í Pakistan segja þörf á frekari framlögum.

Talsmaður innviðaráðuneytis Pakistan, Salman Sufi, sagði í samtali við fréttastofu BBC í gær að þjóðin væri örvæntingarfull og þyrfti nauðsynlega á alþjóðlegum stuðningi að halda.

„Pakistan hefur verið að glíma við miklar efnahagsþrengingar og nú, rétt þegar við virtumst vera að ná tökum á þeim, skella á okkur monsúnhamfarir,“ segir hann.

Hann segir að öllum mögulegum fjármunum hins opinbera, í hinum ýmsu verkefnum, hafi verið beint að svæðunum þar sem monsúnflóðin hafa valdið tjóni.

Samkvæmt indverskum miðlum hefur Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, tilkynnt að hver fjölskylda sem orðið hefur fyrir flóðunum í Khyber Pakhtunkhwa- héraði í norðausturhluta landsins, muni hljóta styrk upp á 25 þúsund rúpíur, sem samsvarar um 16 þúsund krónum. Styrkur þessi verður greiddur út á næstu dögum.

Alls nema þessi framlög hins opinbera um tíu milljörðum rúpía, sem jafngildir um 6,4 milljörðum króna.

Þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Khyber Pakhtunkhwa- héraði og þá hefur Sindh-hérað einnig farið illa út úr flóðunum.

Enn eiga heildaráhrif flóðsins eftir að koma í ljós en talið er að um 33 milljónir manna hafi orðið fyrir áhrifum flóðanna, um fimmtán prósent þjóðarinnar.

Þarfir þeirra sem lifað hafa flóðin af eru mismunandi; í sumum þorpum vantar nauðsynlega matvæli af öllu tagi. Í öðrum er til korn en lítið annað matarkyns.