Söngvari Hlynur Snær Theódórsson er ánægður með nafnbótina nýju.
Söngvari Hlynur Snær Theódórsson er ánægður með nafnbótina nýju.
„Tónlistin hefur verið, síðan ég var strákur, stór hluti af lífinu. Mér finnst því afar vænt um þennan heiður sem mér er sýndur,“ segir Hlynur Snær Theódórsson trúbadorsöngvari og nýr sveitarlistamaður Rangárþings eystra.

„Tónlistin hefur verið, síðan ég var strákur, stór hluti af lífinu. Mér finnst því afar vænt um þennan heiður sem mér er sýndur,“ segir Hlynur Snær Theódórsson trúbadorsöngvari og nýr sveitarlistamaður Rangárþings eystra. Þar var um helgina haldin bæjargleðin Kjötsúpuhátíðin, en þá kom fólk saman á Hvolsvelli þar sem efnt var til ýmissa menningarviðburða. Hefð er fyrir því að listamaður svæðisins sé útnefndur á hátíðinni. Í tímans rás hefur mörgu hæfileikafólki verið sá sómi sýndur.

„Ég spila og kem fram við ýmis tilefni. Flestar helgar fara í tónlistina og landið er undir,“ segir sveitarlistamaðurinn. Í sumar hafa Hlynur Snær og dætur hans tvær, Sæbjörg Eva og Brynja Sif, átt tónlistaratriði í þættinum Sumarlandinn á RÚV. Sá flutningur hefur fallið í góðan jarðveg. „Svo er ég, stundum með dætrunum, að spila í einkasamkvæmum, á böllum, hestamannamótum og fleiru slíku. Í haust vonast ég svo til að komast í hljóðver til að taka upp nokkur af þeim lögum sem ég hef samið á síðustu árum. Einnig er ég í Karlakór Rangæinga og sönghópnum Öðlingum sem kemur fram við ýmis góð tilefni,“ segir Hlynur.

Síðastliðinn aldarfjórðung hafa Hlynur Snær og Guðlaug Björk Guðlaugsdóttir, eiginkona hans, átt heimili að Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum og rekið þar stórt kúabú. Jörð, hús, búpening og annað seldu þau í sumar og eru nú flutt á mölina, það er Hvolsvöll. „Ég vonast til að með þessu skapist meiri tími til að sinna tónlistinni og fleiru,“ segir sveitarlistamaður Rangárþings eystra. sbs@mbl.is