Sprenging Björgunarmaður úr teymi Óskars við gíg eftir hríðina þar sem einn týndi lífi og annar slasaðist alvarlega.
Sprenging Björgunarmaður úr teymi Óskars við gíg eftir hríðina þar sem einn týndi lífi og annar slasaðist alvarlega. — Morgunblaðið/Óskar Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Óskar Hallgrímsson, íslenskur ljósmyndari sem búsettur er í Úkraínu, varð í gær vitni að björgunarleiðangri þar sem 16 úkraínskum borgurum var komið í skjól frá Rússlandsher.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Óskar Hallgrímsson, íslenskur ljósmyndari sem búsettur er í Úkraínu, varð í gær vitni að björgunarleiðangri þar sem 16 úkraínskum borgurum var komið í skjól frá Rússlandsher. Um er að ræða hóp sjálfboðaliða hvaðanæva að úr heiminum, sem á hverjum degi fer í slíkan leiðangur. Var Óskar með í för til þess að fylgjast með og safna heimildum. Haldið var til Soledar í austurhluta Úkraínu, næsta bæ við höfuðborg Donetsk-héraðs. Orrustan um Soledar er með þeim hörðustu um þessar mundir, og hefur hún staðið yfir í tæpan mánuð. Rúmlega tíu þúsund manns búa í bænum. Er hann enn sem komið á yfirráðasvæði Úkraínumanna en Óskar álítur að hann falli fljótt í hendur Rússa.

„Við vorum undir stórskotahríð í allan dag. Þetta er búið að vera ansi klikkaður dagur, örugglega sá klikkaðasti sem ég hef upplifað í stríðinu,“ segir Óskar, en hann var nýkominn af stríðshrjáðu svæði borgarinnar þegar Morgunblaðið náði á hann í gær. Var Óskar þá á leið með einn særðan einstakling af þeim 16 sem bjargað var á sjúkrahús. Viðkomandi komst lífs af með móður sinni en hann mun líklegast missa handlegg og auga eftir hríðina sem tók líf besta vinar hans.

Varð næstum fyrir efnavopni

„Við þurftum að fara verulega varlega, við vorum með mjög reynda menn með okkur í hóp.“ Drónar hafi kannað svæðið áður og aldrei hafi verið stoppað lengur en í 20 mínútur á hverjum stað, enda hríð allt í kring.

Óskar nefnir ógnvænlegt atvik, þar sem hópurinn sá skyndilega dróna fljúga yfir sér. Hópurinn sneri strax við og forðaði sér en í kjölfar drónans fylgdi fosfórsprengja, ólöglegt efnavopn sent af Rússum.

„Þetta er ekki bara efnavopn heldur er sprengjan svo heit að hún brennir í gegn um byggingar,“ segir Óskar og fullyrðir að allt þetta sé gert í þeim tilgangi að myrða almenna borgara.