Aðstaða Willum segir ánægjulegt að taka þátt í opnun svo góðrar aðstöðu.
Aðstaða Willum segir ánægjulegt að taka þátt í opnun svo góðrar aðstöðu. — Ljósmynd/ Heilbrigðisráðuneytið
Opnað hefur verið nýtt liðskiptasetur á Akranesi. „Þetta framtak mun gera okkur kleift að fjölga liðskiptaaðgerðum á landinu og hjálpa okkur að mæta vaxandi þörf fyrir slíkar aðgerðir,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Opnað hefur verið nýtt liðskiptasetur á Akranesi. „Þetta framtak mun gera okkur kleift að fjölga liðskiptaaðgerðum á landinu og hjálpa okkur að mæta vaxandi þörf fyrir slíkar aðgerðir,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Biðtími eftir liðskiptaaðgerðum á Íslandi hefur farið úr hófi fram undanfarin ár. Hafa einstaklingar þurft að sækja þjónustuna til annarra landa innan EES-svæðisins en sjúklingar öðlast rétt til slíks þegar beðið hefur verið eftir þjónustunni á stofnun hér á landi lengur en 90 daga.

Bindur vonir við gæðaskýrslu

Willum kveðst binda miklar vonir við vinnu hóps sem falið verður að meta og innleiða tillögur sem fram komu í skýrslu starfshóps um gæðamál tengdum liðskiptaaðgerðum. Er sá hópur meðal annars skipaður fulltrúum frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Klíníkinni. Er þeim ætlað að innleiða gæðaverklag og útfæra framtíðarfyrirkomulag liðskiptaaðgerða. „Fyrirkomulag sem dregur úr bið, minnkar sjúkdómsbyrði, tryggir jafnt aðgengi og jafnræði í greiðslufyrirkomulagi óháð því hvar aðgerðin verður framkvæmd innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Willum.

Draga úr þörf og bæta árangur

Samhliða þeirri vinnu er mikilvægt, að mati Willums, að horft verði á heildarmyndina. Hvernig forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum sé best háttað, ásamt fræðslu, forhæfingu og endurhæfingu. Bæði til að draga úr þörf fyrir liðskiptaaðgerðir og bæta árangur af þeim.