Sigurbjörg Þorleifsdóttir fæddist 14. maí 1959 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 15. ágúst 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Þorleifur Hallbertsson, f. 27.4. 1931, d. 27.10. 2010, og Sigríður Kristjánsdóttir, f. 27.11. 1928, d. 29.8. 2018. Systkini Sigurbjargar eru: Kristján Hallbert, f. 19.2. 1952, Ingunn Margrét, f. 4.7. 1957, Sigþór, f. 6.7. 1967. Einnig átti Þorleifur dótturina Hrafnhildi, f. 22.4. 1955.

Sigurbjörg eignaðist dótturina Oddbjörgu Kristjánsdóttur, f. 31.8. 1980, maki hennar er Ægir Örn Símonarson, f. 26.9. 1976. Synir hans eru: Hróar Þór, f. 3.11. 1993, d. 28.1.1994, Stefán Kári, f. 25.5. 2000, og börn þeirra saman eru Sigurbjörg Ósk, f. 29.1. 2011, og Guðmundur Örn, f. 2.4. 2012.

Árið 1995 kynntist Sigurbjörg Sölva Bragasyni og hófu þau búskap saman. Fyrir á Sölvi dótturina Rannveigu Ósk, f. 6.9. 1982. Sigurbjörg og Sölvi giftu sig þann 16.5. 2009.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 29. ágúst 2022, klukkan 13.

Í dag kveð ég elsku mömmu mína og mína bestu vinkonu. Ég veit að í sumarlandinu hefur verið vel tekið á móti henni, Tara hefur dillað skottinu þegið klapp og knús á meðan amma og afi hafa beðið með faðminn opinn.

Alltaf hefur mér fundist ég einstaklega heppin með móður sem hefur ætíð sett mig og fjölskylduna í fyrsta sæti. Alla tíð hefur það verið þannig að ef eitthvað hefur komið upp á hef ég getað leitað til mömmu og alltaf var hún tilbúin að hlusta og veita ráð. Þó ég væri komin á fullorðinsár þá hætti hún aldrei að passa upp á mig og mína. Í hvert sinn sem ég hef farið út fyrir höfuðborgina hef ég fengið símtal sem endar á „láttu mig svo vita þegar þú ert komin.“ Eins gat ég alltaf stólað á að ef veðurspáin var ekki góð fyrir næsta dag þá kom símtal frá mömmu til að athuga með það hvernig „gullin hennar“ komist heim úr skólanum daginn eftir.

Þegar Sigurbjörg Ósk og Guðmundur Örn fæddust tók mamma ömmuhlutverkið mjög alvarlega og hefur frá því þau fæddust tekið mikinn þátt í uppeldinu og fannst krökkunum sérstaklega gott að fara í „ömmu og afa dekur“. Mamma hafði einstaklega gaman af því að fylgjast með því sem barnabörnin hennar tóku sér fyrir hendur og mætti til dæmis á alla fótboltaleiki sem hún komst á og þegar hún var lögð inn á Landspítalann í júní sl. var það alltaf markmið að vera komin út fyrir 8. júlí því þá hæfist Símamótið og þau afi búin að mæta á öll þau mót síðan Sigurbjörg Ósk byrjaði í fótboltanum og það átti ekki að verða nein breyting þar á. Því miður tókst það ekki í þetta sinn en var mótið engu að síður unnið fyrir ömmu. Mömmu þótti einstaklega vænt um börn og var hún alltaf fljót að vinna sér inn traust þeirra og vináttu með einstakri hlýju og áhuga. Þau eru allnokkur börnin í kringum hana sem líta á hana sem ömmu þó enginn sé skyldleikinn.

Ég er svo einstaklega þakklát fyrir það hversu dugleg við höfum verið að leggja inn í minningabankann okkar. Höfum farið á hverju sumri í sveitina okkar í Veiðileysu þar sem við höfum átt saman yndislegar stundir og notið samverunnar extra vel þar sem hvorki er símasamband né sjónvarp og svo Flórídaferðin okkar árið 2019 þar sem við héldum upp á 60 ára afmæli mömmu og Sölva.

Mikil er sorgin hjá okkur sem eftir sitjum. Sorgin yfir öllu því sem við áttum eftir að gera saman en á sama tíma erum við svo þakklát fyrir þessa einstöku mömmu og ömmu sem var svo stór partur af okkar fjölskyldu og mun alltaf taka stórt pláss í hjörtum okkar.

Ó, mamma mín, nú leiðir skilja að sinni,

og sorgartárin falla mér á kinn,

en hlýjan mild af heitri ástúð þinni,

hún mýkir harm og sefar söknuðinn.

Í mínum huga mynd þín skærast ljómar,

og minningin í sálu fegurst ómar.

Þú móðir kær þér aldrei skal ég gleyma,

þinn andi fylgi mér á lífsins strönd.

Ég vil í hjarta heilræðin þín geyma

og halda fast í Drottins styrku hönd.

Með huga klökkum kveð ég góða móður.

Ó, mamma mín, þú lífs míns stærsti sjóður.

(Árni Gunnlaugsson)

Elsku mamma mín, ég veit að þú heldur áfram að passa upp á okkur. Þú ferð ekkert að hætta því núna.

Oddbjörg Kristjánsdóttir.

Ólíkt flestum eignaðist ég mömmu mína þegar ég var tólf ára gömul. Og þótt að ég hafi ekki verið alveg sátt við breytingarnar sem komu í kjölfar þess að pabbi og Systa fóru að vera saman, þá hef ég oft sagt að hún hafi komið inn í lífið mitt á hárréttum tíma.

Við pabbi fluttum mjög fljótlega inn á þær mæðgur og úr varð fjölskylda mín. Sambandið milli okkar tveggja var oft erfitt, svona sérstaklega til að byrja með og fyrstu árin voru stundum erfið. En eins og máltakið segir „góðir hlutir gerast hægt“ og þannig var það hjá okkur líka. Systa mátta aldrei neitt aumt sjá og kannski var það einmitt þannig með mig og pabba. Við pabbi vorum ágæt, en Systa gerði okkur enn betri.

Systa hafði svo stórt hjarta, gerði hún þar engan mannamun hvort það var fjölskyldan, vinir eða dýr, allir voru velkomnir. Hún var mikil prjónakona og síðustu árin var hún alltaf með eitthvað á prjónunum. Var það helst á barnabörnin og ef hún vissi að barn var á leiðinni í fjölskyldunni eða í kringum hana var mín mætt í búðina að kaupa garn til að prjóna peysu eða eitthvað fallegt á barnið. Eitt árið prjónaði hún húfu fyrir okkur stelpurnar og hún ók um allan bæ að leita að gervidúsk á mína húfu því ég vildi ekki ekta. Svona var hún, allt gerði hún fyrir fólkið sitt. Systa var líka rosalega góður kokkur og henni fannst gaman að prufa nýjar uppskriftir þar sem við vorum gjarnan notuð sem tilraunardýr til að smakka, en ekki man ég eftir neinu skipti þar sem matreiðslan misheppnaðist.

Veiðileysa átti stóran part í hjarta hennar og var það hennar uppáhalds staður. Enda fóru þau pabbi þangað á hverju sumri. En því miður komst hún ekki þangað þetta sumar út af hennar veikindum. Síðustu sumur fór ég með þeim norður og áttum við góðar stundir þar saman og sú minning mun lifa með mér áfram.

Mömmu kallaði ég Systu aldrei, en foreldri mitt var hún alltaf.

Elsku Systa mín, hvað gerum við nú? Þú varst alltaf með svörin við öllu, alveg sama hvort ég vildi heyra þau eða ekki.

Elsku Systa mín, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, takk fyrir að taka við mér, takk fyrir að vera þú og takk fyrir að vera mamman sem ég átti aldrei.

Ég mun alltaf elska þig og ávallt sakna þín. Þín dóttir

Rannveig Ósk.

Minningar um ömmu:

Í Veiðileysu þegar amma kenndi okkur að prjóna. Þegar við komum í skriftarskóla ömmu. Þegar amma kenndi mér að búa til jólafrómasinn og áramótaísinn eftir skötuboðin á Þorláksmessu. Þegar amma mætti eins og skot með bros á vör þegar við læstum okkur úti eða misstum af strætó til að fara á æfingu. Þegar amma svaraði spurningunum mínum. Þegar hún hlustaði á okkur lesa og hjálpaði okkur með heimanámið svo við gætum átt frí um helgar með mömmu og pabba.

Allar fallegu minningarnar okkar úr Veiðileysu með ömmu og afa. Skemmtilega Flórídaferðin okkar með ömmu og afa. Allir fótboltaleikirnir sem hún mætti á til að horfa á okkur spila. Öll skiptin sem amma gerði kakósúpu og grjónagraut. Allar flíkurnar sem amma prjónaði fyrir okkur.

Elsku amma, það er svo margt sem þú átt eftir að kenna okkur. Við kveðjum þig með sár í hjarta, takk fyrir að hugsa alltaf svona vel um okkur, við elskum þig og pössum afa.

Þín,

Sigurbjörg Ósk 11 ára og Guðmundur Örn 10 ára.

Fréttin um fráfall Systu vinkonu okkar vakti hjá okkur djúpa sorg. Hún var ein af okkur og ekkert hefði getað undirbúið okkur undir slíka frétt þrátt fyrir undangengin veikindi. Minningarnar leita á hugann.

Saga okkar hefst árið 1974 á Hérðasskólanum að Núpi í Dýrafirði þar sem Systa og Tedda voru herbergisfélagar. Í minningunni hljómar innilegur hláturinn. Systa var þar sú sem tók að sér hlutverk þeirrar fullorðnu og ábyrgu í hópnum og sá til þess að við hegðuðum okkur eins og manneskjur, en alltaf var stutt í glensið. Hún sá til þess að vekja okkur í skólann á morgnana og stjórnaði þrifum. Þessi kynni leiddu síðan til þess að Inga og Bogga tóku áskorun Teddu um sumarvinnu á Súganda sumarið 1976 á heimaslóðum Systu, sem útvegaði okkur vinnu í Fiskiðjunni Freyju og verbúðarherbergi á Pallinum. Gunnhildur og Magga bættust í hópinn og grunnur var lagður að ævilangri vináttu.

Vinátta Systu gaf okkur tengsl við fjölskyldu hennar og aðra heimamenn sem tóku okkur opnum örmum, hún var tengill okkar við samfélagið frá fyrsta degi, sem var okkur ómetanlegt. Við vorum mismikið viðloðandi fiskvinnsluna næstu árin og eigum góðar minningar frá þeim tíma, Súgandi á alltaf pláss í hjörtum okkar síðan. Það má segja að þættirnir Verbúðin hafi rifjað upp margar góðar minningar, böllin í Hnífsdal voru einstök og bíóferðir í félagsheimilið fastur liður. Við verbúðarvinkonur nutum nýfengins frelsis og Systa styrkti sig í ábyrgðarhlutverkinu, var í gæðaeftirliti í fiskvinnslunni og oft í eftirliti á böllum. Þar komu snemma fram eiginleikar sem einkenndu hana, ábyrgð, dugnaður og hjálpsemi. Seinna unnu Systa og Gunnhildur saman í Landsbankanum um árabil og þar var Systu enn lýst sem hörkuduglegri og ábyrgðarfullri. Hún átti þó lengi við heilsuleysi að stríða, sem hún tókst á við af æðruleysi.

Systa var mikill Vestfirðingur, ekki bara Súgfirðingur heldur átti hún líka sterkar rætur á Ströndum, en þaðan var faðir hennar. Stórfjölskyldan eignaðist æskuheimili hans, í Veiðileysu, og hafði Systa mikla unun af að dvelja þar með fjölskyldunni. Bogga heimsótti Systu og Sölva í Veiðileysu sumarið 2021. Það var gaman að sjá hana í því umhverfi og hvernig hún naut þess að segja frá endurbyggingu hússins og sögur af föðurfólkinu langt aftur í tímann, hún geislaði af stolti og væntumþykju. Fjölskyldan var henni mikilvæg og var hún stöðugt vakandi yfir líðan hennar. Hún gerðist stuðningsforeldri þegar þörf var á, barnabörnin voru hennar mesta yndi.

Við vinkonurnar höfum haldið hópinn eftir árin á Súganda, vináttan hefur styrkst og ekki skiptir máli þó langt líði milli þess að við hittumst. Systa var tengillinn við lífið fyrir vestan, þótt hún hafi flutt ung suður. Hún miðlaði fréttum af fólki og viðburðum og við erum fljótar að að draga fram skemmtilegar minningar frá þessum löngu liðna tíma.

Við kveðjum Systu með þakklæti fyrir vináttuna og sendum Sölva og fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Ásgerður Theodóra,

Borghildur, Gunnhildur, Ingibjörg og Magnfríður.

Kær vinkona er látin.

Á fallegum síðsumars degi hneig sól Systu eftir erfið veikindi. Okkur er orða vant, sitjum hnípnar, komið er að óvæntri kveðjustund. En við eigum og munum varðveita margar góðar og fallegar minningar.

Systa var hrein og bein í samskiptum og sagði sína skoðun umbúðalaust. Hún var mikill fagurkeri og lagði sig ávallt fram um að vera vel til höfð. Allt lék í höndunum á henni og þrátt fyrir langvinn veikindi lét hún það ekki aftra sér frá því að vera virkur þátttakandi í lífinu og sýndi sínum nánustu mikla natni og ræktarsemi.

Fjölskyldan, Sölvi, dæturnar og barnabörnin, voru henni allt.

Elsku Systa, fráfall þitt var óvænt. Söknuðurinn er sár, en minning þín mun ávallt lifa hjá okkur.

Fjölskyldu hennar óskum við styrks og stuðnings á sorgar- og saknaðarstundum. Það er sárt að missa, en dýrmætt að hafa átt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Kveðja frá saumaklúbbnum,

Dúa, Arnheiður, Dagmar, Guðrún, Hrönn og Linda.