Hátíðarstund Gísli Gunnarsson og Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir eftir vígslu á Hólahátíð á dögunum.
Hátíðarstund Gísli Gunnarsson og Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir eftir vígslu á Hólahátíð á dögunum. — Ljósmynd/Sigurveig Anna Gunnardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Mikilvægt er að kirkjan starfi í aðstæðum hvers tíma, í samfélagi þar sem hugsunarháttur fólksins breytist hratt.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mikilvægt er að kirkjan starfi í aðstæðum hvers tíma, í samfélagi þar sem hugsunarháttur fólksins breytist hratt. Þó má ekki hvika frá þeim grunni sem allt byggist á, sem er boðskapur Jesú Krists,“ segir sr. Gísli Gunnarsson, sóknarprestur í Glaumbæ í Skagafirði og nýr vígslubiskip á Hólum í Hjaltadal. Hann var kjörinn í embættið snemma sumars og var á Hólahátíð þann 14. ágúst sl. Hann tekur við embætti nú 1. september. Þau Gísli og Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir, eiginkona hans, flytja að Hólum í Hjaltadal á haustdögum, enda fylgja starfinu margvíslegar skyldur á staðnum.

Fækkun skýrist af mörgu

Starf vígslubiskups er meðal annars að vera leiðandi á ýmsa lund um starf kirkjunnar í Hólastifti, sem spannar svæðið frá Ströndum og austur að Álftafirði. Þá mynda vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti – með biskupi Íslands – yfirstjórn Þjóðkirkjunnar – sem um 60% þjóðarinnar tilheyra.

„Ýmsar ástæður eru fyrir fækkun fólks innan Þjóðkirkjunnar á síðustu árum. Þar má nefna breytingar á trúfélagaskráningu þannig að barn fylgir ekki lengur sjálfkrafa trúfélagi móður eins og áður tíðkaðist. Við skírn skráist barn ekki sjálfkrafa inn í kirkjuna. Því þurfa prestar að fylgja skráningum betur eftir. Einnig fjölgar fólki sem flytur hingað erlendis frá og er í öðrum trúfélögum. Slíkt lækkar hlutfall þjóðkirkjufólks,“ segir Gísli og áfram:

„Ýmis mál sem komu upp fyrr á árum réðu því líka að margir sögðu sig úr þjóðkirkjunni. Í fæstum tilvikum held ég þó að fólk hafi verið að mótmæla neinu innan síns safnaðar og heimakirkju, þangað sem sóknargjöld viðkomandi þó renna. “

Glaumbær er gott brauð

Gísli Gunnarsson er fæddur árið 1957, sonur sr. Gunnars Gíslasonar prófasts og alþingismanns í Glaumbæ og Ragnheiðar Margrétar Ólafsdóttur, konu hans. Eftir stúdentspróf innritaðist Gísli til náms við guðfræðideild Háskóla Íslands sem hann segir þó ekki hafa verið ætlun sína frá æsku. Hann hafi ákveðið að prófa guðfræðinámið, hvar hann fann sig fljótt og ákvað að leggja fyrir sig prestskap. Um líkt leyti og Gísli lauk námi sínu lét faðir hans af prestskap í Glaumbæ og embættið losnaði. Það sótti Gísli um, var eini umsækjandinn og í almennum kosningum fékk hann öll greidd atkvæði. Varð 100 prósent prestur!

Barnastarf, messur, skírnir, fermingar, giftingar, útfarir, sálgæsla og samtöl. Verkefnin sem prestur þarf að sinna eru fjölbreytt, rétt eins og litbrigði mannlífsins eru með ýmsu móti.

„Góð kosning í preststarfið var mikil hvatning sem mér fannst vænt um. Glaumbær, sem varð prestsetur árið 1550, er líka gott brauð eins og sést á þeirri sögu að hér hafa prestar jafnan setið lengi. Úti í dreifbýlinu hefur kirkjan líka annað og ef til stærra hlutverk en í þéttbýlinu. Í fámennari sóknum starfar oft stór hluti safnaðarins við kirkjuna, svo sem í sóknarnefnd, kirkjukór og fleira.“

Bóndi í sveitarstjórn

Gísli hefur víða komið að málum heima í héraði. Hann var forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar 1998-2006 auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum sem því fylgdu. Hann hefur sömuleiðis sinnt ýmsum félagslegum störfum á vettvangi kirkjunnar, svo sem setið á Kirkjuþingi, í kirkjuráði og í stjórn Prestafélags Íslands. Þá hafa þau Gísli og Þuríður kona hans lengi rekið fjárbú í Glaumbæ; erjað jörðina og búið vel að sínu.

„Í kringum sauðfjárbúskap er margt sem kallar á samvinnu milli bænda, svo sem við sauðburð, göngur, réttir, fjárrag fyrir slátrun og fleira. Þetta samstarf smitar út frá sér til annarra verkefna sem leysa þarf með samvinnu.“

Kirkja, réttarríki og velferð

Á Kirkjuþingi í október verður væntanlega lögð fram tillaga um að Skagafjörður verði eitt prestakall með þremur prestum, sem sitja nú á Sauðárkróki, Hofsósi og Miklabæ í Blönduhlíð. Þetta er hluti af þeirri uppstokkun sem nú á sér stað innan þjóðkirkjunnar, þar sem svonefnd einmenningsprestaköll eru lögð af og í þeirra stað skapaðar stærri einingar. Með slíku þykir álag dreifast betur auk þess sem hver prestur getur þá sinnt helst verkefnum samkvæmt því hvar styrkleikar viðkomandi liggja.

„Áhrif kirkjunnar eru víða í íslensku samfélagi. Í mínum huga er engin tilviljun að á Norðurlöndunum, þar sem þjóðkirkjufyrirkomulagið er nokkuð fast í sessi, eru líka sterk réttarríki og velferð fólks höfð að leiðarljósi. Því finnst mér miður ef undirstaða þessa er rofin, eins og gerðist að nokkru til dæmis þegar hætt var að kenna biblíusögur og kristinfræði í grunnskólum. Nú er ekki lengur hægt að reikna með því í fermingarfræðslunni að börnin þekki biblíusögurnar sem þau kunnu hér áður fyrr og hægt var að vitna í. Kirkjan þarf að koma boðskap sínum á framfæri með nýrri tækni og miðlun,“ segir sr. Gísli að síðustu.

Sálgæsla presta er fyrir alla

Séra Gísli Gunnarsson og Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir, kona hans, eru farin að undirbúa flutninga í Hjaltadal. Heim að Hólum, eins og gjarnan er sagt í Skagafirði, með upphefð fyrir þessu merka biskups- og skólasetri og aldalangri sögu þess.

„Kannski var aldrei ætlunin að vera fjörutíu ár hér í Glaumbæ. Hins vegar hefur okkur hjónunum liðið einstaklega vel hér og fórum því hvergi. Vonandi get ég komið góðu til leiðar sem vígslubiskup – jafnhliða þjónustu á Hólum þar sem eru messur alla sunnudaga á sumrin, tónleikar, fyrirlestrar og fleira,“ tiltekur Gísli og segir jafnframt:

„Annað mikilvægt á vettvangi kirkjunnar, sem þarf að efla, er sálgæsla. Á því sviði hafa margir prestar sérmenntun og veita þjónustuna óháð því hverjar trúarskoðanir þeirra eru sem njóta. Þegar voveiflegir atburðir gerast, eins og við höfum orðið vitni að nýlega, koma gjarnan áfallateymi á vettvang og eru til staðar fyrst á eftir og veita hjálp. Slíkt er mjög gott og þakkarvert en oftast þarf meira til. Gott nærsamfélag getur veitt fólki mikla og mikilvæga aðstoð en kirkjan og hennar fólk eru líka til staðar fyrir alla, alltaf og alstaðar,“ segir sr. Gísli Gunnarsson, nýr vígslubiskup í Hólastifti.