Garðar Þorgrímsson, vélstjóri frá Selnesi á Breiðdalsvík, lést á hjúkrunarheimilinu Uppsölum 4. ágúst 2022. Hann fæddist 9. október 1932, sonur hjónanna Þorgríms Guðmundssonar, f. 1. ágúst 1883, d. 11. janúar 1956, og Oddnýjar Þórunnar Erlendsdóttur, f. 16. desember, d. 29. mars 1987.

Systkini Garðars: Guðrún Helga, f. 1916 (látin), Guðmundur Bjarnason, f. 1917 (látinn), Helgi, f. 1918 (látinn), Sigríður, f. 1919 (látin), Sigfús, f. 1921 (látinn), Erlingur, f. 1923 (látinn), Valborg, f. 1925 (látin), Eiríkur Kristján, f. 1926 (látinn), Sverrir, f. 1928 (látinn), Þórður, f. 1930, Kristín Guðríður, f. 1931 (látin), Geirlaug, f. 1937, og Þröstur, f. 1939.

Garðar giftist 10. júní 1960 Maríu Karólínu Gunnþórsdóttur, f. 20. janúar 1937, d. 10. janúar 2008. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnþór Eiríksson, f. 22. ágúst 1912, d. 9. janúar 1986, og Hildur Halldórsdóttir, f. 5. apríl 1914, d. 3. febrúar 1966, frá Borgarfirði eystra.

Börn Garðars og Maríu: 1) Oddný Þorgerður, f. 14. febrúar 1956. Maki: Yngvi Sigurður Sigurgeirsson, f. 6. desember 1955. Barn hennar: Garðar Þorsteinsson, f. 28. mars 1975. Maki: Rannveig Sigurðardóttir, f. 21. apríl 1972. Barn þeirra: Birta María, f. 23. júní 2013. Börn þeirra: Sigurbjörg, f. 12. des 1980. Maki: Jón Gunnar Erlingsson, f. 28. febrúar 1975. Barn hennar: Yngvi Þór Freysson, f. 26. október 2009. Börn þeirra: Oddný Dís, f. 3. mars 2013, og Anna Sól, f. 29. desember 2014. Kári, f. 23. maí 1987. Maki: Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 12. júlí 1989. Barn þeirra: Díana, f. 8. febrúar 2022. Erlingur Geir, f. 23. júlí 1994, d. 26. febrúar 2000.

2) Hilmar Gunnþór, f. 21. febrúar 1957. Maki: Arnhildur Arnaldsdóttir, f. 11. júní 1961. Börn þeirra: Dagur, f. 11. febrúar 1989. Sambýliskona: Anna Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 28. mars 1996. Hugi, f. 14. janúar 1994. 3) Óskírð, f. 28. febrúar 1958, d. 28. febrúar 1958. 4) Björk Sigríður, f. 27. október 1960. Maki: Hafsteinn Sveinsson, f. 6. september 1959. Börn þeirra: Garðar Marvin, f. 8. febrúar 1983. Börn hans: Björk Sigríður, f. 21. apríl 2014, og Daníel Helgi, f. 1. janúar 2018. Eiður Ísak, f. 4. ágúst 1987. Maki: Sólveig Hulda Árnadóttir, f. 4. ágúst 1989. Börn þeirra: Sóley Irma, f. 18. desember 2013, og Heiðmar Nói, f. 23. apríl 2019. Oddný Karólína, f. 20. janúar 1996. Maki: Valur Hólm Sigurðarson, f. 27. janúar 1996. 5) Kári Haukur, f. 30. júlí 1962, d. 30. september 1964. 6) Erlingur Kristinn, f. 12. september 1963, d. 25. október 1992. Barn hans: Hreinn Aldar, f. 30. desember 1984. 7) Hlynur, f. 28. nóvember 1965. Maki: Svanhildur Freysteinsdóttir, f. 28. október 1967.

Börn þeirra: Hekla Diljá, f. 29. september 1994. Guðlaug Erla, f. 9. september 2001. Kærasti: Daníel Guðbjarni Smárason, f. 8. maí 2001. 8) Vignir, f. 26. september 1967. Barn hans: Sveinn Húni, f. 21. maí 1997. Maki: Svava Rún Arnarsdóttir, f. 7. apríl 1997. Barn þeirra: Birnir Páll, f. 21. desember 2021. 9) Ríkarður, f. 19. apríl 1970. Sambýliskona: Aðalbjörg Baldursdóttir, f. 25. mars 1971. Barn hans: María Björk, f. 7. ágúst 1992.

10) Hilda Karen, f. 28. apríl 1976. Maki: Hilmar Guðmannsson, f. 10. júlí 1980. Barn hennar: Maríanna Sól Hauksdóttir, f. 6. mars 2001. Barn þeirra: Kolbeinn, f. 13. október 2014.

Garðar lærði vélstjórn og stundaði sjómennsku allan sinn starfsaldur. Hann bjó á Breiðdalsvík alla sína búskapartíð og réri þaðan. Garðar var á flestum stærri fiskiskipum sem gerð voru út frá Breiðdalsvík og má segja að sjómannsævi hans hafi verið samofin sögu útgerðar stærri skipa frá Breiðdalsvík á árunum 1946 til 1982. Frá 1982 og þar til hann hætti til sjós ráku hann og María kona hans litla og farsæla útgerð. Síðustu árin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði.

Útför Garðars fór fram frá Heydalakirkju í Breiðdal 13. ágúst 2022.

Elsku afi. Þú lagðir hönd þína á öxlina á mér við dánarbeð ömmu og sagðir: „Nú er hún búin að fá hvíldina vina mín.“ Þú sem hafðir misst lífsförunaut þinn. Nú ertu kominn í faðm hennar.

Þegar ég horfi til baka fyllist ég þakklæti. Ég hugsa til þess að hafa fengið að dvelja hjá ykkur ömmu á Selnesi heilu og hálfu sumrin sem barn, þar sem var svo gott að vera. Andrúmsloftið þannig að maður skynjaði velvild og hlýju, öllu tekið með ró og gleðin við völd þrátt fyrir að stígurinn á lífsins leið hafi stundum verið þröngur.

Það er ekki hægt að hugsa til þín án þess að þrautseigja, dugnaður og manngæska komi upp í hugann. Þú varst mér góð fyrirmynd, hafðir fólkið þitt í forgangi, samband þitt við ömmu og afkomendur fallegt, heimilið staður sem var þannig að dvöl þar var gefandi og er enn.

Það er erfitt að útskýra tilfinninguna sem kemur yfir mig þegar ég kem austur á heimilið sem þið amma bjugguð ykkur. Þar er gott að vera, þar koma svo margar góðar minningar upp í hugann. Svo margt skemmtilegt sem er liðið, alls konar leikir en alltaf stendur upp úr að fá unga sem aldna með í „yfir skúrinn“. Endalaus hlátur, alls konar uppátæki, margir svangir munnar mettaðir og allt virtist svo áreynslulaust. Þar er jarðtenging og hlýja, minningar um svo margar gleðistundir en líka stíginn þrönga.

Það var ómetanleg samvera á Selnesi á nýliðnu ættarmóti, gott að hitta þig. Þú hafðir svo gaman af því að hitta yngstu kynslóðina og ég er þakklát fyrir samveruna. Faðmlagið á tröppunum á Selnesi um daginn var það síðasta í þessum heimi. Takk fyrir allt.

Elsku afi, minningarnar ylja, hvíldu í friði á himnum hjá ömmu og ástvinum sem farnir voru á undan þér.

Þín dótturdóttir,

Sigurbjörg Yngvadóttir.