Glíman við verðbólguna getur verið stutt og árangursrík eða langdregin og kostnaðarsöm

Verðbólgan, sá draugur sem landsmenn hafa sjálfsagt talið að þeir væru búnir að kveða í kútinn eftir að hafa um áratugaskeið haft nokkuð góð tök á verðlaginu, er nú farinn að gera vart við sig á ný. Lengi vel máttu Íslendingar fylgjast með verðbólgunni hækka stig af stigi, frá mánuði til mánaðar, og þá fyrst og fremst í boði borgaryfirvalda sem hafa haldið niðri framboði á lóðum í höfuðborginni með þeim afleiðingum að fasteignamarkaðurinn hefur rokið upp úr öllu valdi. Í Peningamálum Seðlabankans segir að ekkert „lát virðist á hækkun húsnæðisverðs þrátt fyrir að vextir hafi hækkað og hert hafi verið á lánþegaskilyrðum. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 25,5% milli ára í júlí sl. sem er mesta hækkun sem mælst hefur milli ára frá því í desember 2005.“

Seðlabankinn telur þó vonir um að úr þessu muni draga á komandi misserum, meðal annars vegna útlits um aukið framboð nýrra eigna. Þar er jákvæð vísbending en vandinn er þó sá að þar er að stórum hluta um að ræða húsnæði á svokölluðum þéttingarreitum, sem sagt dýrara húsnæði en ef borgin gerði alvöru í því að brjóta nýtt land undir byggð.

Verðbólga er afar skaðleg fyrir þróun efnahagslífsins og hag heimilanna. Verðskyn almennings brenglast og kjörin versna með hækkandi vöruverði, en nú er farið að bera á hækkunum víðar en á húsnæðismarkaði. Hækkandi kostnaður með aukinni verðbólgu kallar svo fram ýmsa gamla drauga úr umræðu liðinna áratuga þar sem menn vilja reyna að glíma við verðbólguna með því að yfirspila hana á atvinnumarkaði eða að banna hana á húsnæðismarkaði. Hvort tveggja er glapræði og eykur aðeins vandann.

Umræður um verðhækkanir á húsnæðismarkaði einskorðast ekki við Ísland, enda verðbólgu að finna víðar en hér um þessar mundir og þó að aðrir búi ekki við skipulagsstefnu meirihlutans í Reykjavík þá er víða þröngt um byggingarland af náttúrulegum ástæðum, ólíkt því sem hér er. Þess vegna finnst víðar fyrir hækkun húsnæðisverðs, einkum leiguverðs, sem hér á landi hefur raunar alls ekki hækkað í takti við fasteignaverð að undanförnu.

Engu að síður hafa orðið nokkrar umræðu um meinta nauðsyn þess að setja á leiguþak hér á landi, sem sagt að banna hækkun húsaleigu eða setja henni verulegar skorður. Þessi umræða hefur einnig farið fram víða erlendis, vegna verðbólgunnar sem þar geisar, og þar eru líka víða þekktar afleiðingarnar af slíkum reglum sem ætti að duga til að fólk láti slíkar hugmyndir eiga sig.

Það sem gerist þegar sett er á einhvers konar hámarksleiga eða bann við hækkunum á leigu er að hvatinn til að byggja nýtt húsnæði minnkar verulega. Og þó hér á landi vilji sósíalistar í ýmsum flokkum fara þá leið að auka í staðinn umsvif „óhagnaðardrifinna“ fasteignafélaga, sem með einum eða öðrum hætti eru rekin á ábyrgð hins opinbera, þá er það tæpast lausnin á mistökum borgaryfirvalda að gera stóran hluta landsmanna að leiguliðum hins opinbera. Það getur ekki talist heppilegt að leysa þær skekkjur sem opinber aðili hefur valdið á þessum markaði með því að auka umsvif opinberra aðila og valda þannig nýjum skekkjum þar til vandinn er orðinn óyfirstíganlegur. Nær er að leysa strax þann vanda sem blasir við, jafnvel með sérstakri lagasetningu ef borgaryfirvöld ráða ekki við verkefnið.

En það er ekki aðeins að hvatinn til að byggja nýtt húsnæði minnki við leiguþak, hvatinn og getan til að halda húsnæði við minnkar einnig. Afleiðingin er þekkt víða erlendis þar sem blómleg hverfi grotna niður þegar viðhaldi er ábótavant og leigjendur sitja fastir í ódýru en ónýtu húsnæði í niðurníddum og varasömum hverfum. Það getur ekki talist áhugaverð lausn á húsnæðisvandanum hér á landi.

Hitt „ráðið“ sem nefnt var hér að ofan til að glíma við verðbólguna er að yfirspila hana á atvinnumarkaði, sem sagt að hækka laun þeim mun meira sem verðbólgan er meiri. Sé verðbólgan 10% er gerð krafa um hækkun launa vel umfram þá hlutfallstölu. Sé orðið við því er augljóst hvað gerist, verðbólgan hækkar enn meira, vandinn vex, kröfur um aukin laun vegna aukinnar verðbólgu endurtaka sig og fljótlega verður ekki við neitt ráðið.

Verðbólgan verður ekki kveðin í kútinn með slíkum ráðum. Hana þarf að sigra með því að auka framboð þar sem framboð skortir og aukning er möguleg og svo þarf að stíga á bremsuna á öðrum sviðum. Seðlabankinn hefur réttilega gert það með hækkun vaxta en aðrir verða að gera það einnig, bæði þeir sem stýra opinberum útgjöldum og þeir sem semja um kaup og kjör á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Með sameiginlegu átaki af þessu tagi er hægt að tryggja að verðbólguskeiðið verði stutt og skerði kaupmátt almennings lítið og jafnvel ekki. Verði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að hella olíu á eldinn eða skekkja markaðsstarfsemina enn frekar en verðbólgan hefur gert, þá er tryggt að glíman verður löng og endar með ósköpum.