[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Karlotta Líf Sumarliðadóttir karlottalif@mbl.is Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur með höndum að koma upp aðstöðu fyrir þjónustu ríkisins við borgarana.

Fréttaskýring

Karlotta Líf Sumarliðadóttir

karlottalif@mbl.is

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur með höndum að koma upp aðstöðu fyrir þjónustu ríkisins við borgarana. Meðal verkefna FSRE er endurgerð húsnæðisins við Skúlagötu 4, sem er um 60 ára gömul bygging. Byggingunni er ætlað að verða framtíðarhúsnæði ráðuneyta og er hönnuð sérstaklega fyrir þau not. Fyrirséð er að að minnsta kosti fimm ráðuneyti, jafnvel sex, komist þar fyrir.

Skúlagata 4 var upphaflega byggð fyrir fiskirannsóknir Háskóla Íslands, auk þess sem Ríkisútvarpið hafði efstu hæðirnar til umráða í vel á fjórða áratug. Lengst af hýsti byggingin Hafrannsóknastofnun.

Verkefnið við Skúlagötu hófst um sama leyti og Hafrannsóknastofnun var flutt í Hafnarfjörð. Þá stóð til að gera upp tvær af sex hæðum hússins. Í kjölfar breytinga á ráðuneytaskipan um síðustu áramót var ákveðið að endurgera allar hæðirnar með starfsemi ráðuneyta í huga.

Breytingar á ráðuneytaskipan um síðustu áramót sýna hversu mikilvægt er að húsnæði ráðuneyta geti tekið breytingum með starfseminni sem þeim er ætlað að hafa með höndum.

Við hönnun húsnæðisins verður lögð áhersla á að aðstaðan verði bæði nútímaleg og sveigjanleg. Húsið við Skúlagötu 4 var reist árið 1961, eftir teikningu Halldórs H. Jónssonar.

Hvorugu tilboðinu verið tekið

Áætlaður framkvæmdakostnaður við endurgerð Skúlagötubyggingarinnar er rúmlega einn og hálfur milljarður. Verkið var boðið út fyrr í sumar og voru tilboð opnuð í júlí. Aðeins tvö tilboð bárust en hvorugu þeirra hefur enn verið tekið. Annars vegar barst tilboð frá fyrirtækinu Sérverki og hins vegar frá Íslenskum aðalverktökum.

Húsið við Skúlagötu 4 er sex hæða. Verkið felst í endurbótum á 400 fermetrum á 1. hæð, 1.000 fermetrum á 2., 3. og 4. hæð og um 700 fermetrum á 5. og 6. hæð. Alls verða því um 4.800 fermetrar endurgerðir sem nútímaleg skrifstofuaðstaða.

Ekki liggur endanlega fyrir til hvaða ráðuneyta Skúlagötu 4 verður ráðstafað samkvæmt upplýsingum frá FSRE.

Í tímabundnu leiguhúsnæði

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið eru nú til húsa í Síðumúla 24. Þar er um að ræða tímabundið leiguhúsnæði. Flutningur ráðuneytanna kom til vegna rakaskemmda og myglu í húsnæði þeirra í Skógarhlíð 6. Þar höfðu ráðuneytin tvö deilt húsnæði frá því í febrúar 2017. Húsnæðið við Síðumúla er 3.100 fermetrar að stærð.

Önnur ráðuneyti, sem nú eru einnig í leiguhúsnæði, eru matvælaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Deila þau húsnæði í Borgartúni 26.

Ráðuneyti
» Fjármálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafa aðsetur í Arnarhvoli við Lindargötu.
» Innviðaráðuneytið og menningar- og viðskiptaráðuneytið eru til húsa við Sölvhólsgötu 7.
» Matvælaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið deila húsnæði í Borgartúni 26.
» Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið eru til húsa í Síðumúla 24.
» Mennta- og barnamálaráðuneytið er við Sölvhólsgötu 4.
» Utanríkisráðuneytið er staðsett á Rauðarárstíg 25.
» Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið er við Skuggasund 1.
» Forsætisráðuneyti hefur aðsetur í Stjórnarráðshúsinu auk fjögurra bygginga í Kvosinni.