Jurtasýn Dorothea O. Halldórsdóttir hjá i8 sýnir gestum verk eftir Eggert Pétursson en tvö stór málverka hans, með norrænum jurtum, voru sýnd.
Jurtasýn Dorothea O. Halldórsdóttir hjá i8 sýnir gestum verk eftir Eggert Pétursson en tvö stór málverka hans, með norrænum jurtum, voru sýnd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

CHART er alltaf eins og skemmtileg hátíð hér í bæ,“ sagði Kristína Aðalsteinsdóttir hjá galleríinu BERGI Contemporary, þar sem hún sýndi áhugasömum myndlistarunnendum á norrænu myndlistarkaupstefnunni CHART í hinum sögufrægu sölum Charlottenborgar í Kaupmannahöfn fyrir helgi verk eftir valda listamenn sem galleríið vinnur með. „Við sýnum núna verk eftir þrjá vídeólistamenn ólíkra kynslóða; Vasulka-hjónin, Steinu og Woody, og svo Sigurð Guðjónsson sem nú er fulltrúi okkar Íslendinga á Feneyjatvíæringnum. Við sýnum eftir þau prent en líka myndbandsverk sem eru í dagskrá myndbandsverka hér á CHART.“

Því var fagnað nú að tíu ár eru síðan CHART-listkaupstefnan var fyrst haldin. Stofnað var til hennar af nokkrum virtustu myndlistargalleríum Danmerkur. Markmiðið var að stefna saman helstu galleríum Norðurlanda sem myndu setja upp og sýna listunnendum á svæðinu, og jafnframt alþjóðlegum söfnurum og safnafólki, margt það besta sem væri á döfinni í myndlistarsköpun á Norðurlöndum.

Að þessu sinni settu 38 norræn gallerí upp sýningar í sölum Charlottenborgar en framsetningin þar er sérstök, miðað við aðrar kaupstefnur, hvað það varðar að í mörgum sölunum er framlagi gallería stillt fram hlið við hlið en ekki hvert með sérstakan bás. Nálægðin er því mikil og myndast ætíð góð og áhugaverð stemning, sem til að mynda má merkja á því að listamenn kjósa oft að fylgja verkum sínum á staðinn sem er alls ekki alltaf raunin með listkaupstefnur.

Samhliða sýningum galleríanna var haldin fjölskrúðug sýning á útgáfu bókverka og hvers kyns fjölfelda. Boðið var upp á fjölda fyrirlestra, gjörninga og samtöl við listamenn. Þá var einnig sett upp í fyrsta skipti, í tilefni af tíu ára afmælinu, sýning á verkum 15 samtímalistamanna í Tívolí. Þar á meðal eru verk eftir þrjá Íslendinga, þau Þórdísi Erlu Zoëga, Kristin E. Hrafnsson og Hrafnkel Sigurðsson.

Alltaf reynt að ögra okkur

„Fjöldi listkaupstefna eru settar upp víða um lönd en við ætluðum okkur aldrei að vera enn ein slík,“ sagði Nanna Hjortenberg, sem stýrt hefur CHART sköruglega undanfarin fimm ár en tekur senn við stjórnartaumum hins gamalgróna sýningarsalar Gl. Strand í Kaupmannahöfn.

„Við höfum alltaf reynt að ögra sjálfum okkur og myndlistarsamfélaginu sem við erum hluti af. Til dæmis voru aðeins sýnd hér verk eftir konur fyrir tveimur árum, til að beina kastljósinu að því kynjamisrétti sem hefur ríkt á listmarkaðinum. Í ár erum við stolt af því að geta tilkynnt að jafnvægi hefur verið náð í framsetningu kynjanna hér,“ sagði Hjortenberg og að það sýndi að þegar allir í myndlistarsamfélaginu tækju höndum saman mætti breyta því sem verið hefði viðvarandi ástand.

Sérstakt og alltaf ánægjulegt

„Við vildum koma hingað nú með ný verk, sem ekki hafa verið sýnd áður, og líka verk eftir listamenn sem við höfum ekki farið mjög reglulega með á listamessur,“ sagði Börkur Arnarson, galleristi í i8. Hann hefur tekið þátt í CHART frá upphafi. Nú setti hann upp verk eftir Hildigunni Birgisdóttur, Þór Vigfússon og Eggert Pétursson. „Við sýnum til dæmis tvö talsvert stór málverk eftir Eggert,“ bætti hann við.

„CHART er ólík öllum öðrum listamessum. Þetta snýst mikið um að vera saman og hittast, bæði galleristar og listafólk, og safnarar og áhugafólk um myndlist hangir hér saman í þrjá daga. Það er mjög sérstakt og alltaf ánægjulegt.“

Í næsta sal við i8 var Sigríður L. Gunnarsdóttir, galleristi í Hverfisgalleríi, að útskýra fyrir hópi safnara verk eftir Guðný Rósu Ingimarsdóttur, sem hún hafði sett upp litla einkasýningu á. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég sýni verk eftir aðeins einn listamann hér á CHART,“ sagði Sigríður að því loknu. „Áður hef ég sýnt verk eftir þrjá eða fjóra listamenn, þar sem oft hefur verið nokkur litagleði, verk sem grípa augaðhratt. Nú sýni ég þessi hljóðlátu en heillandi verk Guðnýjar Rósu en margir sáu stóru yfirlitssýninguna hennar á Kjarvalsstöðum í fyrra. Mér fannst vera í kjölfarið tilvalið að sýna verk hennar hér. Þetta er allt öðruvísi bás en allir hinir núna. Það er mjög mikið sýnt af málverkum á CHART í ár, það er mikil litadýrð, en hér þarf fólk að staldra við og það er mjög gaman að sýna þessi marglaga og fallegu verk.“

Skal vi snakke sammen?

„Við eru hér með samtíning af ýmsu sem við höfum verið að bardúsa við síðustu ár. Svo höfum við bætt við nokkrum verkum sem við þýddum á dönsku og prentuðum sérstaklega fyrir CHART,“ sagði Leifur Ýmir Eyjólfsson, annar forsprakka Prent & vinir, sem skapar ýmiss konar prentverk og fjölfeldi. Þetta var í fyrsta skipti sem Prent & vinir taka þátt í þeim hluta CHART þar sem sýnd eru listræn bók-, prent- og upplagsverk, með þátttöku ýmissa útgáfna á Norðurlöndum. Aðstandendur Prents & vina fjölmenntu á staðinn, voru þar sex saman. Bak við Leif var meðal annars nýtt verk eftir hann sem á stóð „Skal við snakke sammen“.

„Og verkið þarna,“ sagði hann og benti, „gerði Sigurður Atli Sigurðsson og það sýnir sætaskipan hér í salnum. Þetta eru því nokkuð staðbundin verk fyrir þessa bókamessu og Danmörku.“

Þegar spurt var hvers vegna Prent & vinir tækju þátt í bóka- og prentmessu CHART svaraði Leifur Ýmir því til að það væri mikið til í því skyni að sýna sig og sjá aðra. „Það er gaman að sjá hvað er að gerast á þessu sviði á Norðurlöndum. Margir eru að gera einfaldar litlar útgáfur í höndunum og breiddin er mikil.

Hugmyndin með fjölfeldinu er að hafa verkin ódýr, svo allir geti eignast verk, og við reynum að leggja okkar af mörkum við að gera listræn bókverk aðgengileg,“ sagði hann en Prent & vinir dreifðu líka á staðnum stefnuskrá sem þýdd hafði verið á dönsku.

Fyrir innan bókverkasýninguna var kynnt annað upplagsverk, æði mikið um sig, sem vakti skiljanlega athygli. Á CHART í fyrra var mikið rætt um einstakan, mjög stóran sófa frá hinu virta danska hönnunarhúsi Hay sem myndlistarmaðurinn Loji Höskuldsson hafði saumað myndir út í. Samstarf Loja við Hay hefur haldið áfram því nú var kynnt þar upplagsverk, 50 tölusettir sófar sem gerðir hafa verið eftir útsaumsfyrirmynd hans, þar sem listamaðurinn skapar í myndum á sófana ummerki um garðveislu, með blómum, matarleifum, sælgæti og fleiru.