Síðsumar Vel viðraði til útiveru víða á landinu í gær. Nærri Geithálsi ofan við Reykjavík voru þessir bresku hjólreiðastrákar á ferðinni og nutu mildrar veðráttunnar í botn eins og væntanlega mun haldast næstu daga.
Síðsumar Vel viðraði til útiveru víða á landinu í gær. Nærri Geithálsi ofan við Reykjavík voru þessir bresku hjólreiðastrákar á ferðinni og nutu mildrar veðráttunnar í botn eins og væntanlega mun haldast næstu daga. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Eftir kuldatíð síðustu vikur er nú loksins útlit fyrir hlýnandi veður, jafnvel þótt september sé handan við hornið. Rakt, hlýtt loft úr suðvestri kemur nú að landinu og ryður á brott þrálátu köldu háloftadragi sem legið hefur við landið að undanförnu. Þetta eru lýsingar Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á stöðu mála og framvindunni.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Eftir kuldatíð síðustu vikur er nú loksins útlit fyrir hlýnandi veður, jafnvel þótt september sé handan við hornið. Rakt, hlýtt loft úr suðvestri kemur nú að landinu og ryður á brott þrálátu köldu háloftadragi sem legið hefur við landið að undanförnu. Þetta eru lýsingar Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á stöðu mála og framvindunni.

Vænta má að í Reykjavík verði í dag hlýtt og gott veður, skýjað en allt að 14°hiti. Á Akureyri verður hitastig svipað, en léttskýjað og sól. Svipað verður upp á teningnum austur á landi.

Rigning vestanlands en góðviðri nyrðra

Í sunnan- og suðaustanátt rignir talsvert sunnan- og vestanlands á þriðjudag og miðvikudag. Eins og gjarnan vill verða fylgir því góðviðri á Norðurlandi. Þar verður hnjúkaþeyr og á Akureyri gæti hitinn á morgun farið í 22 til 23°.

Í lok vikunnar verður svalt um tíma og jafnvel norðanátt á föstudaginn, fyrsta degi septembermánaðar. „Slíkt mun þó standa stutt, sé að marka langtímaspár, því hlýrra loft nær fljótt aftur yfirhöndinni með háþrýstisvæði. Gengi þetta eftir gæti byrjun september borið keim af sumri og alls ekki útilokað að fá þá eina bestu daga sumarsins. Líklega verða þeir sólríkir og með hæglætisveðri. Sólin er hins vegar tekin að lækka á lofti og meira þarf til en um mitt sumar að fá mjög hlýja daga,“ segir Einar um stöðu mála og framvinduna.

Meira en raunvísindi

Um veðráttuna nú gildir annað og meira en raunvísindi veðurfræðinnar. Í dag er höfuðdagurinn 29. ágúst, dagurinn sem Jóhannes skírari var hálshöggvinn skv. frásögn Biblíunnar, og af því er heitið sprottið. Sú þjóðtrú hefur lifað á Íslandi, segir í bókinni Sögu daganna eftir Árna Björnsson þjóðháttafræðing, að um höfuðdag breytist veður og haldist svipað frá þeim degi næstu þrjár vikurnar hið minnsta. Vinna bænda og sjómanna fyrr á tíð tók til dæmis alltaf nokkurt mið af höfuðdegi. Fræðin taka raunar undir þjóðtrúna um höfuðdag því nú í ágústlok fer gangurinn í veðrakerfum háloftanna á norðurhveli jarðar að breytast, rétt eins og Einar Sveinbjörnsson lýsir.