Troðsla Kristófer Acox, sem var mjög sterkur fyrir íslenska liðið, treður með tilþrifum gegn Úkraínumönnum í Ólafssalnum á laugardag.
Troðsla Kristófer Acox, sem var mjög sterkur fyrir íslenska liðið, treður með tilþrifum gegn Úkraínumönnum í Ólafssalnum á laugardag. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Undankeppni HM Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Ísland á áfram fína möguleika á að komast í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta eftir magnaðan 91:88-sigur á Úkraínu í framlengdum spennutrylli í Ólafssal á Ásvöllum á laugardagskvöld.

Undankeppni HM

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is Ísland á áfram fína möguleika á að komast í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta eftir magnaðan 91:88-sigur á Úkraínu í framlengdum spennutrylli í Ólafssal á Ásvöllum á laugardagskvöld. Salurinn hefur reynst íslenska liðinu afar vel, en leikir Íslands á þessum heimavelli Hauka hafa ekki verið fyrir hjartveika.

Í þremur leikjum frá því í febrúar hefur Ísland unnið Ítalíu, 107:105, í tvíframlengdum leik, Holland 67:66 eftir magnaða endurkomu og æsispennu og svo leikinn á laugardag. Hvað eftir annað slær íslenska liðið í spennutrylli og hvað eftir annað sýna íslensku leikmennirnir magnaðan styrk með því að standa uppi sem sigurvegarar í slíkum leikjum. Á meðan áhorfendur á pöllunum halda niðri í sér andanum og titra úr spennu, þrífast íslensku leikmennirnir á því að spila í spennuþrungnum aðstæðum. Liðið er orðið gríðarlega erfitt heim að sækja í gryfjunni sem Ólafssalurinn er.

Þegar Ísland dettur í gang halda liðinu engin bönd. Sprengikrafturinn í bakvörðum íslenska liðsins gera stórum og stæðilegum leikmönnum andstæðinganna erfitt fyrir. Þá er Ísland með ólíkindatól í leikmönnum eins og Sigtryggi Arnari Björnssyni og Elvari Má Friðrikssyni, sem verður bara betri og betri. Hann hefur tekið við keflinu af Martin Hermannssyni á meðan Martin er fjarverandi vegna meiðsla. Elvar skoraði 27 stig í leiknum. Kristófer Acox var næstur með 14 og Sigtryggur 13.

Með sigrinum fór Ísland upp í þriðja sæti L-riðilsins, en þrjú efstu sætin gefa þátttökurétt á lokamótinu í Filippseyjum, Japan og Indónesíu. Spánn og Ítalía eru líkleg til að hafna í tveimur efstu sætunum en Ísland og Georgía berjast um þriðja sætið. Úkraína er nánast úr leik eftir tapið á laugardag og Holland á enga möguleika á að fara á lokamótið.

Stórir leikir í nóvember

Næstu leikir í undankeppninni eru í nóvember en Ísland mætir Georgíu á heimavelli 11. nóvember og Úkraínu á útivelli 14. nóvember. Með hagstæðum úrslitum í nóvember getur íslenska liðið farið ansi langt með að tryggja sér sæti á fyrsta heimsmeistaramótinu, sem yrði stórkostlegt afrek.