Grímsey Óvissuástand ríkir í eynni á heimskautsbaugnum.
Grímsey Óvissuástand ríkir í eynni á heimskautsbaugnum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jarðskjálftahrinan við Grímsey, sem hófst aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku, 8. september, virðist heldur vera í rénun. Þar mældust þó í gær mörg hundruð skjálftar, en aðeins sex yfir 3 að styrk.

Jarðskjálftahrinan við Grímsey, sem hófst aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku, 8. september, virðist heldur vera í rénun. Þar mældust þó í gær mörg hundruð skjálftar, en aðeins sex yfir 3 að styrk. Vel á sjötta þúsund skjálftar hafa komið fram á mælum síðan yfirstandandi hrina hófst, en snarpasti kippurinn var í upphafi hennar. Sá skjálfti var 4,9 að stærð.

„Við höldum alveg ró okkar þrátt fyrir jarðskjálftana,“ sagði Ragnhildur Hjaltadóttir í Grímsey í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Í sumum húsum hér finnast skjálftarnir en sjálf hef ég aðeins stöku sinnum heyrt drunurnar sem hræringum þessum fylgja. Sjálf hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu, því hér hefur áður komið svona órói, ástand sem síðan bara fjarar út hægt og rólega. Einmitt slíkt held ég að sé að gerast nú. En allur er varinn góður vissulega, mér þykir auðvitað ósköp vænt um að varðskip liggi hér fyrir utan eyna meðan þetta ástand varir, þótt þetta trufli mig afar lítið.“

Spennulosun á flekaskilum

Skjálftarnir við Grímsey nú verða vegna spennulosunar á flekaskilum jarðskorpunnar og eru engin merki um gosóróa, skv. frásögn Kristínar Elísu Guðmundsdóttur náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. „Það getur alveg gosið þarna og við fylgjumst með, en það er ekkert sem bendir til slíks,“ nefnir Kristín. Hún segir að síðast hafi komið eldgos á þessum slóðum á 19. öld, sem á tímakvarða jarðfræðinnar er næsta skammur tími.

sbs@mbl.is/veronika@mbl.is