Brotin Líney Sigurðardóttir heima á Þórshöfn í gær með barnabarnið í fanginu og tvíbrotinn fótlegg.
Brotin Líney Sigurðardóttir heima á Þórshöfn í gær með barnabarnið í fanginu og tvíbrotinn fótlegg.
Ísak Gabríel Regal isak@mbl.is Líney Sigurðardóttir er ósátt við þá meðferð og þjónustu sem hún fékk á Sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina. Hún er búsett á Þórshöfn ásamt eiginmanni sínum og lenti í heilmiklum hrakförum í fyrradag. Hún var þá nýkomin úr réttum með fjögurra ára gamlan sonarson sinn, en þegar hún var að setja drenginn inn í bíl á leiðinni heim skrikaði henni fótur og hún rann niður grýttan kant og lenti í mýrarbleytu. „Ég heyrði smellinn og var strax viss um að ég hefði brotnað,“ segir Líney í samtali við Morgunblaðið. Líney hringdi þá í vinkonu sína sem tók af skarið og hringdi á sjúkrabíl en fólk í grenndinni sat með Líneyju þangað til hann kom.

Ísak Gabríel Regal

isak@mbl.is

Líney Sigurðardóttir er ósátt við þá meðferð og þjónustu sem hún fékk á Sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina. Hún er búsett á Þórshöfn ásamt eiginmanni sínum og lenti í heilmiklum hrakförum í fyrradag. Hún var þá nýkomin úr réttum með fjögurra ára gamlan sonarson sinn, en þegar hún var að setja drenginn inn í bíl á leiðinni heim skrikaði henni fótur og hún rann niður grýttan kant og lenti í mýrarbleytu. „Ég heyrði smellinn og var strax viss um að ég hefði brotnað,“ segir Líney í samtali við Morgunblaðið. Líney hringdi þá í vinkonu sína sem tók af skarið og hringdi á sjúkrabíl en fólk í grenndinni sat með Líneyju þangað til hann kom.

Líneyju var gefið morfín í sjúkrabílnum sem flutti hana á Kópasker þar sem læknir vísaði þeim áfram til Akureyrar. Líney varð mjög veik á leiðinni og kastaði ítrekað upp í bílnum. Hún segist hafa verið útæld og illa á sig komin þegar hún mætti á spítalann á Akureyri en þar byrjar hrakfallasagan fyrir alvöru.

„Ég kem inn á Sjúkrahúsið á Akureyri klukkan sjö um kvöld, fer þá í röntgenmyndatöku og klukkan ellefu er úrskurður kominn um að um beinbrot sé að ræða. Mér er þá sagt að ég megi bara fara heim í ljósi þess að ekki þurfi að skera eða gera neitt við,“ segir Líney en þá runnu á hana tvær grímur. „Ég spurði starfsfólk spítalans hvort það vissi að ég ætti heima á Þórshöfn, sem er í þriggja tíma akstursfjarlægð, og útskýrði fyrir þeim að maðurinn minn væri einn heima með barnabarnið okkar og kæmist ekkert frá. Þau sögðu mér að hringja á leigubíl og fara á hótel og bættu svo strax við að ég gæti ekki farið á sjúkrahótelið því þar væri ekkert starfsfólk og að ég þyrfti á þjónustu að halda.“

Líney kom því ekki heim og saman að hún þyrfti að fá þjónustu en ætti samt að koma sér heim á eigin vegum. „Þá var mér sagt að ég gæti í það minnsta fengið að borða á hótelinu en mér var ekki boðinn matur á spítalanum. Ég átti sem sagt að fara þaðan um hálftólf um kvöld, hringja á leigubíl sem ég hefði ekki komist hjálparlaust út í og reyna að finna mér eitthvert hótel á milli ælukastanna, yfirkomin af ógleði.“

Hún segir að sér hafi verið fullkomlega ofboðið. „Mín mannlega reisn fauk út í veður og vind. Mér var ekið fram í biðstofuna í hjólastól og ég átti bara að sjá um framhaldið sjálf.“ Líney segist hafa setið í almennu biðstofunni í sundurklipptum buxum og berfætt, ælandi í poka. „Þau höfðu þó fyrir því að segja mér að ég fengi reikning í heimabanka, líklega einhverja tugi þúsunda eftir röntgenmyndirnar og bráðakomu og svo sjúkrabíl,“ bætir Líney við.

Líney bað um að fá að liggja einhvers staðar frammi á gangi á spítalanum en henni var tjáð að vinnureglurnar væru á þann veg að þegar sjúklingur þyrfti ekki á aðgerð að halda væri hann útskrifaður og sendur heim. Líney var þá send heim með fjórar paratabs og tvær bólgueyðandi töflur í farteskinu eftir að hafa verið sett í teygjusokk því að brotið lá rétt, að sögn lækna, en erfitt var að sjá það almennilega því það var svo mikið blóð í kringum áverkana.

„Sálræn skyndihjálp og mannleg hlýja fyrirfannst ekki þarna. Ég var bara eitthvert mál sem þurfti að afgreiða og vinnureglurnar sendu mig burt.“

Líneyju tókst loks að ná í ættingja sína á Akureyri sem voru fyrir tilviljun á leiðinni til Þórshafnar daginn eftir og fékk hún að gista hjá þeim um nóttina. Segir hún það hafa verið erfitt fyrir þau og hana sjálfa að koma henni inn í bíl og inn í húsið þeirra, sem er á þremur pöllum. Þegar þau voru svo komin tvo þriðju af leiðinni aftur til Þórshafnar um morguninn fékk Líney símtal frá Akureyri þar sem henni var tjáð að hún þyrfti að mæta aftur upp á spítala í sneiðmyndatöku vegna þess að læknarnir hefðu komið auga á annað brot.

Þegar Morgunblaðið náði tali af Líneyju í gærkvöldi hafði hún verið að íhuga hvort hún ætti hreinlega að leita sér læknisaðstoðar í Reykjavík í staðinn. Hún ákvað þó að lokum að fara til Akureyrar um kvöldið og var komin með gistingu hjá ættingjum sínum þar. Áætlað var að hún færi í sneiðmyndatöku í dag, mánudag. Hún kveðst hafa áhyggjur af stöðunni og finnst óvissan verst, þá hvað gerist í framhaldi af sneiðmyndatökunni, en það verður að koma betur í ljós.