Stefán Ingi Hermannson (Bói) rafvirkjameistari fæddist í Reykjavík 8. ágúst 1954. Hann lést 5. september 2022 á blóðlækningadeild Landspítala.
Foreldrar hans voru Oddný Ragnheiður Þórarinsdóttir, f. 1917, og Hermann Guðbrandsson, f. 1913. Bói átti eina systur, Sigríði, f. 1952, líffræðing, sem lést 2016.
Eftirlifandi eiginkona Bóa er Hrafnhildur Björg Gunnarsdóttir (Habbý) líffræðingur, f. 1953, synir þeirra eru: Hlynur rafeindavirki, f. 1987, og Sindri svæfinga- og gjörgæslulæknir, f. 1989, giftur Sigrúnu Ben.
Stefán Ingi var fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann bjó hjá foreldrum sínum í Njörvasundi og gekk í Vogaskóla. Þaðan lá leiðin í Iðnskólann í Reykjavík þar sem Stefán lagði fyrir sig rafvirkjun og tók síðar sveinspróf og meistarapróf í sömu iðn.
Stefán kynntist Hrafnhildi 1975 og hófu þau sinn búskap saman þegar þau fluttu til Svíþjóðar árið 1979. Þar bjuggu þau í tvö ár áður en þau fluttu aftur til Reykjavíkur. Þau giftu sig svo 22. nóvember 1988 þegar þau áttu von á seinni syni sínum.
Þau hjón voru meðal fyrstu íbúa í Laufengi í Grafarvogi þar sem þau bjuggu saman þar til Stefán féll frá.
Stefán var menntaður rafvirkjameistari en hann lagði fyrir sig ýmis önnur störf um ævina, allt frá verslunarstörfum og siglingum á fraktskipum um heim allan til viðgerða á flestum raftækjum. Síðustu árin sem hann hafði heilsu til vann hann í Noregi við rafiðnaðarstörf. Stefán var fullgildur meðlimur Hjálparsveitar skáta í Reykjavík frá árinu 2012 og hafði unun af útivist og gönguferðum. Stefán sótti sundlaugar borgarinnar frá því fyrir aldamót og átti sinn félagahóp í Grafarvogslaug. Á síðari árum tók Stefán síðan upp á því sér til heilsubótar að gerast meðlimur í skokkhópi sem hittist og hljóp eða gekk saman í Grafarholtinu.
Útför Stefáns fer fram í dag, 12. september 2022, kl. 13.
Kæri vinur. Þegar við ræddum saman í síma þann 8. ágúst síðastliðinn, á afmælisdeginum þínum, hvarflaði ekki að mér að það yrði okkar síðasta samtal. Þrátt fyrir baráttu við erfiðan sjúkdóm og önnur veikindi í ofanálag var á þeirri stundu engan bilbug á þér að finna. Við ræddum um að stefna á bíltúr saman fljótlega eins og við höfum stundum gert í gegnum tíðina.
Ég vil minnast þín, kæri vinur, með örfáum orðum.
Við kynntumst fyrst 5-6 ára gamlir smápattar og höfum haldið sambandi með hléum æ síðan, þau rúm 60 ár sem liðin eru. Það var margt brallað saman í Vogahverfinu í Reykjavík í þá gömlu góðu daga. Þú rifjaðir gjarnan upp að við hefðum fyrst kynnst almennilega þegar við slógumst og hentum grjóti hvor í annan. Friður hefur ríkt æ síðan í okkar samskiptum. En þessi árekstur okkar á unga aldri varð líka til þess að foreldrar okkar kynntust og tóku upp áralangan vinskap þar sem skipst var á heimsóknum og spilað brids og hlustað á góða tónlist. Pabbi þinn og mamma mín voru einmitt sérstakir unnendur klassískrar tónlistar og léku bæði á píanó. Sigga systir þín heitin, tveimur árum eldri en við, var líka í sama bekk og Leo bróðir minn.
Það er margs að minnast frá ungdómsárunum. Ég nefni aðeins eina af þeim myndum í fersku minni sem koma upp í hugann á þessum sorglegu tímamótum. Við vorum báðir miklir flugáhugamenn. Sumarið 1967 fórum við, 12 ára strákar, með strætó niður á Reykjavíkurflugvöll með myndavélarnar okkar til að taka á móti Gullfaxa Flugfélags Íslands, Boeing 727-vél, sem var fyrsta þotan sem tekin var í notkun hér á landi.
Í gegnum barnaskólaárin vorum við samferða og sátum saman í skólabekknum. Síðan skildi leiðir að þessu leyti en sambandið hélt áfram. Leiðir okkar lágu síðar aftur saman sem stálpaðir unglingar þegar við unnum saman við húsaviðgerðir í skólafríum. Seinna meir unnum við svo saman um nokkurra ára skeið hjá Þýsk-íslenska, þú í þjónustu við rafverkfæri og blöndunartæki en ég aðallega í erlendum innkaupum.
Síðustu árin höfum við hist af og til og farið í bíltúra eða göngutúra og spjallað um allt milli himins og jarðar. Mér er sérstaklega minnisstæð úr þeim samtölum öll sú bjartsýni og jákvæðni sem alltaf var í forgrunni hjá þér, ekki síst eftir að hin erfiðu veikindi og læknismeðferðir komu til skjalanna.
Ég votta Hrafnhildi, sonum ykkar og tengdadóttur innilega samúð mína og óska þeim styrks á þessari erfiðu stundu.
Kær kveðja.
Þinn gamli vinur,
Ingi Karl Ingason.