Útlit var fyrir að hægriblokkin bæri sigur úr býtum í þingkosningum í Svíþjóð. Eftir að 92 prósent atkvæða höfðu verið talin seint í gærkvöldi munaði þremur þingsætum á hægri- og vinstriblokkinni, þeim fyrrnefndu í vil.

Útlit var fyrir að hægriblokkin bæri sigur úr býtum í þingkosningum í Svíþjóð. Eftir að 92 prósent atkvæða höfðu verið talin seint í gærkvöldi munaði þremur þingsætum á hægri- og vinstriblokkinni, þeim fyrrnefndu í vil. Ljóst var af skoðanakönnunum að mjótt yrði á munum milli ríkisstjórnarmöguleikanna, og því í raun ógerningur að spá um úrslitin. Hin svokallaða vinstriblokk, undir stjórn Magdalenu Andersson, samanstendur af Jafnaðarmannaflokknum, Græningjum og Vinstri flokknum.

Hægriblokkin er sá ríkisstjórnarmöguleiki sem væri undir stjórn Ulfs Kristerssons, og samanstæði af Moderatarna-flokknum, Kristilegum demókrötum, Frjálslynda flokknum og Svíþjóðardemókrötum, sem eru nú orðnir annar stærsti flokkurinn á eftir Jafnaðarmannaflokknum.

Útgönguspá sænska ríkisútvarpsins gaf til kynna að vinstriblokkin fengi 176 sæti en sú hægri 173 í sinn hlut. Voru fyrstu tölur í ágætis samræmi við þá spá, en þegar rúmlega helmingur atkvæða hafði verið talinn snerust leikar og hægriblokkin náði yfirhöndinni. Munaði einungis einu sæti þar til 90 prósent atkvæða höfðu verið talin, en þá hafði hægriblokkin náð að sölsa undir sig 176 sæti. thorab@mbl.is

Þingkosningar í Svíþjóð
» Jafnaðarmannaflokkurinn 30,5%
» Svíþjóðardemókratar 20,7%
» Moderatarna 19%
» Miðflokkurinn 6,7%
» Vinstriflokkurinn 6,6%