Isíum Selenskí þegar úkraínski fáninn var dreginn að húni í Isíum í gær.
Isíum Selenskí þegar úkraínski fáninn var dreginn að húni í Isíum í gær. — AFP/Ukranian Press-service
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu heimsótti í gær borgina Isíum í austurhluta landsins, en hún er ein stærsta borgin sem Úkraínuher hefur frelsað frá Rússum í leiftursókn sinni síðustu daga.

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu heimsótti í gær borgina Isíum í austurhluta landsins, en hún er ein stærsta borgin sem Úkraínuher hefur frelsað frá Rússum í leiftursókn sinni síðustu daga. Hátíðleg stund var þegar fáni Úkraínu var dreginn að húni í viðurvist forsetans og herliðsins sem frelsaði borgina.

Selenskí hét því að sigur myndi vinnast í styrjöldinni. „Við göngum fram á við til sigurs.“ Þá sagði Selenskí að yfirtaka Rússa á Krímskaga 2014 væri sorgleg og fullyrti að Úkraínuher myndi á endanum ná að frelsa hann frá Rússum. Hann bætti um betur á samskiptamiðlinum Telegram þar sem hann sagði í gær: „Blái og guli fáninn okkar blaktir í frelsaðri Isíum, og það sama munum við sjá í öllum úkraínskum borgum og þorpum.“

Gagnsóknir Úkraínu í austri og suðri hafa dregið úr þeim áætlunum Rússa að ná yfirtöku á öllu Donbass-svæðinu. Einnig hefur leiftursókn úkraínska hersins dregið fram ákveðna veikleika rússneska hersins, sem er sagður orðinn langþreyttur á stríðinu og búa við stirðbusaleg samskipti frá herforingjum til óbreyttra. Þá er rússneski herinn mjög háður lestarsamgöngum um öll aðföng. Á sama tíma eru úkraínsku herdeildirnar smærri, fljótari til aðgerða og sveigjanlegri.

Upplýsingar frá Kænugarði segja að herlið þeirra hafi endurheimt hundruð þorpa, bæja og borga sem voru á valdi Rússa. Í einu þorpanna, Bogoródítsjne, sagði hinn 58 ára Mykola AFP-fréttaveitunni að hann hefði naumlega lifað af hertöku Rússa í þorpinu og að bróðir hans hefði verið myrtur. „Hvernig er hægt að lýsa þessu með orðum? Þetta var mjög erfitt og ég var hræddur,“ sagði hann. Móðir hans Nína sagðist gráta á hverjum degi. „Þeir drápu son minn.“

Á sama tíma hafa yfirvöld í Kreml lítið sagt um gagnsókn Úkraínu en hafa þó heitið því að áfram verði barist þar til markmiðum þeirra er náð, því Úkraína sé enn ógn við Rússland.

Talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, Dmitrí Peskov, sagði við blaðamenn í gær að Pútín yrði að gera það sem gera þyrfti til að eyða því sem gæti verið ógn við Rússland.

Hershöfðinginn Eberhard Zorn, yfirmaður þýska landhersins, sagði í gær að hann vildi ekki tala um gagnsókn Úkraínu heldur staðbundnar gagnárásir. Engu að síður væru þær mesta bakslag Rússa frá upphafi innrásarinnar. Hann segir þó að Úkraínumönnum gæti reynst erfitt að halda svæðunum og varar við að her þeirra dreifi sér of víða.