Kasakstan Kassym-Jomart Tokayev og Xi Jinping á fundi í gær.
Kasakstan Kassym-Jomart Tokayev og Xi Jinping á fundi í gær. — AFP/Forsetaskrifstofa Kasakstans
Forseti Kína, Xi Jinping, lenti í Kasakstan í gær og hitti forseta landsins, Kassym-Jomart Tokayev, en heimsóknin er fyrsta utanlandsferð forsetans frá Kína frá upphafi heimsfaraldursins.

Forseti Kína, Xi Jinping, lenti í Kasakstan í gær og hitti forseta landsins, Kassym-Jomart Tokayev, en heimsóknin er fyrsta utanlandsferð forsetans frá Kína frá upphafi heimsfaraldursins. Forsetinn var á leiðinni til Úsbekistans þar sem fundur Sjanghæ-sambandsins verður haldinn í dag og á morgun.

Rauður dregill var þegar Kínaforseti lenti í Kasakstan í gær og athygli vakti að allir báru grímu. Fyrir heimsóknina hafði Jinping sagt að vilji væri fyrir samstarfi við Kasakstan og mikilvægt væri að styrkja tengsl þjóðanna í löggæslu og varnar- og öryggismálum.

Kína sterkur bakhjarl

Á fundi sambandsins í dag munu Pútín Rússlandsforseti og Xi Kínaforseti hittast í fyrsta skipti frá innrás Rússa í Úkraínu. Kínastjórn hefur staðið þétt við bak Rússa frá upphafi innrásarinnar, án þess þó að fara á svig við refsiaðgerðir Bandaríkjanna. Þá hafa ríkin tvö boðað sífellt nánara samstarf í ýmsum málum, þar á meðal varnar- og öryggismálum. Utanríkisráðherra Rússa, Júrí Ushakóv, sagði nýverið að Sjanghæ-sambandið stæði fyrir „réttlátri skipan í heiminum“.

Á sama tíma eru samskipti Kína að stirðna við Bandaríkin, ekki síst eftir heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til Taívans í ágúst, en Kínverjar telja sig eiga sögulegt tilkall til eyjunnar. Samband Rússa og Bandaríkjanna hefur ekki verið jafn stirt frá tímum kalda stríðsins, og þykir fundur Sjanghæ-sambandsins ekki líklegur til að bæta þar úr.