Sjóðir Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti lífeyrissjóður launþega á almenna markaðnum.
Sjóðir Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti lífeyrissjóður launþega á almenna markaðnum. — Morgunblaðið/Eggert
Eignir íslenskra lífeyrissjóða jukust um 236,7 milljarða króna í júlímánuði og snerist þá við þróun þriggja fyrri mánaða þar sem eignir þeirra rýrnuðu samanlagt um 269 milljarða.
Eignir íslenskra lífeyrissjóða jukust um 236,7 milljarða króna í júlímánuði og snerist þá við þróun þriggja fyrri mánaða þar sem eignir þeirra rýrnuðu samanlagt um 269 milljarða. Mest munaði um að hlutabréfaeign sjóðanna erlendis jókst um 157 milljarða milli mánaða. Hafa erlendar eignir sjóðanna aldrei verið meiri en nú í júlí í krónum talið eða 2.229,7 milljarðar króna. Þá jukust innlendar eignir um 78 milljarða en hafa ekki náð sama styrk og frá því í mars og apríl þegar þær voru um 30 milljörðum hærri en nú. Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga námu 2,9 milljörðum í júlí og hækkuðu um 1,9 milljarða frá fyrri mánuði. Það sem af er ári hafa sjóðirnir veitt ný útlán, að teknu tilliti til upp- og umframgreiðslna, sem nemur 23,3 milljörðum króna. Í júlí héldu óverðtryggð útlán áfram að sækja í sig veðrið og námu 5,6 milljörðum en verðtryggð lán voru greidd upp um 2,7 milljarða umfram nýtekin. Það sem af er ári hafa ný óverðtryggð útlán, umfram upp- og umframgreiðslur, numið 41,9 milljörðum króna en verðtryggðu útlánin dregist saman um 18,6 milljarða króna.