Helga Þráinsdóttir fæddist á Selfossi 14. júlí 1989. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 6. september 2022.

Foreldrar hennar eru Þórdís Lilja Gísladóttir, deildarforseti deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands, f. 5. mars 1961, og Þráinn Hafsteinsson, íþróttafræðingur og verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg, f. 6. september 1957.

Systir Helgu er Hanna Þráinsdóttir, meistaranemi við New York University, f. 23. september 1997.

Eiginmaður Helgu er Guðmundur Magnús Sigurbjörnsson, meistaranemi í verkfræði, f. 29. apríl 1989. Dóttir þeirra er Iðunn Lilja, f. 21. júlí 2020.

Helga ólst upp á Laugarvatni til þriggja ára aldurs og bjó eitt ár í Svíþjóð með foreldrum sínum áður en þau settust að í Hafnarfirði. Helga gekk í Öldutúnsskóla og varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2008. Hún stundaði fiðlunám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og æfði og keppti um árabil í frjálsíþróttum með ÍR. Helga stundaði nám við lýðháskólann í Hillerød í Danmörku vorið 2009 og lauk námi frá Hússtjórnarskólanum í Reykjavík 2018. Helga hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands haustið 2009 og á námsárunum starfaði hún m.a. tímabundið á sjúkrahúsum í Perú og Úganda. Hún útskrifaðist með cand. med.-próf í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2015 og meistaragráðu í læknisfræði 2019. Frá 2015 starfaði hún sem læknir á Landspítalanum.

Útför Helgu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 15. september 2022, kl. 11.

Elsku stúlkan okkar, þú hefur fyrirvaralaust verið tekin frá okkur í blóma lífsins. Í hjörtum okkar ríkir óbærileg sorg yfir að missa þig. Þú og Hanna hafið alla tíð verið ljósið og lífið okkar og bestu systur sem við gátum hugsað okkur. Að hafa ykkur ekki báðar virkar eins og taktleysi.

Við fengum að hafa þig, elsku Helga, í 33 ár og þú varst alltaf eins og hugur manns. Við hugsuðum oft þegar þú varst lítil hvílík gæfa það væri að fá að eiga þig. Með aldrinum bættist bara stöðugt við mannkosti þína. Þú varst alltaf brosandi, hafðir lag á að gera öll verkefni skemmtileg, með einstakt lundarfar og hlý í viðmóti. Aldrei hreyktir þú þér af þínum afrekum þó af nógu væri að taka. Þú stundaðir allt sem þú tókst þér fyrir hendur af festu til árangurs. Þú elskaðir fagsviðið þitt, læknisfræðina, og vinnuna á Landspítalanum. Framhaldsnámið var framundan í Svíþjóð og mikið hlökkuðum við til að fá að fylgjast með þér í því. Við syrgjum það sem ekki verður. En þú skilur eftir hjá okkur von, það er litla stúlkan ykkar Gumma, hún Iðunn Lilja. Þú varst einstök móðir og unun að fylgjast með þér blómstra í því hlutverki, Iðunn Lilja var þér allt. Við lofum þér, elsku Helga okkar, að gæta hennar eins og sjáaldurs augna okkar. Við munum aðstoða Gumma við að ala hana upp eftir þínum uppeldisaðferðum sem við þekkjum svo vel og í þínum anda og góðmennsku. Við munum leyfa henni að finna nærveru þína alla daga í gegnum okkur og halda minningu þinni á lofti með henni.

Hvíl þú í friði, fallega, brosmilda og góða stúlkan okkar.

Mamma og pabbi.

Elsku systir mín, mikið sakna ég þín. Það er erfitt að hugsa sér lífið án þín. Allar mínar minningar eru með þér á einn eða annan hátt, allir mínir draumar og hugmyndir um framtíðina líka. Það verður eilífðarverkefni að lifa lífinu án þín og finna taktinn í Helgulausri veröld. Þú varst mín stærsta fyrirmynd, besta vinkona, helsti leiðarvísir og ljósið í myrkrinu. Við áttum okkar eigið tungumál, endalaust af bröndurum sem enginn annar skildi, endalausar sögur um ómerkilega hluti sem aðeins við mundum, hefðir, venjur, og stundir sem við áttum bara tvær, á milli okkar órjúfanlegar taugar, styrktar með eilífum kærleik. Nú er ég ráðvillt og tómarúmið nístir inn að beini. En ég veit að þú heldur áfram að vísa mér leið að ofan, stýrir mér á réttar brautir og gefur mér ráð á nýjan hátt. Nú verður þú verndarengillinn minn, þú sem varst engill í lifanda lífi. Allir sem nutu þeirra forréttinda að kynnast þér, jafnvel bara hitta þig á förnum vegi, búa að því það sem eftir er. Fallega brosið þitt og hlýlega nærveran þín situr fast í minningum svo margra. Minning þín mun lifa áfram, bæði í sögunum sem við segjum og í elsku Iðunni Lilju þinni. Elsku Helga, ég bið þig að vaka yfir okkur er við fetum okkur áfram án þín, þau skref verða þung. Ég lofa að mæta lífinu eins og þú gerðir, með yfirvegun, æðruleysi og bros á vör.

Þín systir,

Hanna.

Elsku tengdadóttir okkar, Helga Þráinsdóttir, er farin frá okkur, alltof, alltof snemma.

Hvað er hægt að segja? Okkur skortir orð. Yndisleg, glæsileg, ung móðir og eiginkona er hrifin á braut án nokkurs fyrirvara og eftir standa dóttir, eiginmaður, foreldrar, systir, frænka og aðrir ættingjar og vinir sem steinrunnir af sorg og söknuði.

Guðmundur Magnús, sonur okkar, kynnti Helgu fyrir okkur sem unnustu sína, hógværa og brosmilda. Síðan eru liðin átta ár.

Helga heillaði okkur við fyrstu kynni, eins og flesta ef ekki alla, enda sá Guðmundur Magnús ekki sólina fyrir henni. Fyrir fimm árum giftu þau sig við fallega athöfn og fyrir tveimur árum fæddist dóttir þeirra, Iðunn Lilja.

Þegar við kynntumst Helgu stundaði hún nám í læknisfræði við HÍ. Helga skilaði öllum sínum verkefnum af stakri vandvirkni og þegar henni fannst sig vanta þekkingu í rekstri heimilis tók hún sér frí frá læknastörfunum og settist á skólabekk í Hússtjórnarskólanum til að bæta úr því.

Helga var fróðleiksfús og vildi kynnast lífinu frá mörgum hliðum. Tók að sér verkefni á fjarlægum slóðum. Varð okkur ekki um sel þegar hún sagði okkur að hún væri á leið til Úganda í sjálfboðavinnu. Þó að Helga vildi hafa dýr í ákveðinni fjarlægð lét hún það ekki aftra sér frá því að leggja upp í langa göngu í frumskógum Úganda til að líta górillurnar augum.

Helga var mikil fjölskyldumanneskja og ræktaði frændgarð sinn vel. Helga átti í mjög góðu sambandi við foreldra sína, systur og frænku og við nutum þeirrar ræktarsemi einnig. Helga og Guðmundur Magnús gáfu sér tíma til að borða með okkur og systkinum hans einu sinni í viku. Var þá margt skrafað og skeggrætt. Þegar litla dóttir þeirra, Iðunn Lilja, fæddist fyrir tveimur árum lögðu þau enn meiri áherslu á að hittast, vildu leyfa okkur að kynnast og fylgjast með dótturinni og að hún kynntist okkur. Eru þetta ómetanlegar stundir í minningabankann.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með Helgu sem móður. Helga og Guðmundur Magnús stóðu sem eitt í allri umgengni við dóttur sína. Uppeldið var þeim í blóð borið. Þeim fannst eðlilegt að leita sér upplýsinga um uppeldið, bæði til annarra og eða lásu sér til, enda ber Iðunn Lilja alúð þeirra glöggt vitni.

Helga var ósérhlífin, samviskusöm og ráðagóð. Þegar hún bauð okkur tengdaforeldrunum í mat í fyrsta skipti, lét hún það ekki aftra sér þó hún væri óvön matargerð, sankaði að sér matreiðslubókum og skilaði verkefninu með miklum sóma.

Helga var hógvær, tranaði sér aldrei fram en stóð ávallt með sjálfri sér. Hún var góður hlustandi og vissi upp á hár hvenær hún átti að leggja orð í belg.

Elsku Guðmundur Magnús og Iðunn Lilja, okkar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar. Missir ykkar er mikill. Megi minningar um góða eiginkonu og góða móður verða ykkur styrkur í sorginni.

Foreldrum, systur og frænku sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Helga þú varst geislandi persóna, hógvær, hlý og okkur yndisleg tengdadóttir. Takk fyrir allt.

Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Sigríður Jónsdóttir og

Sigurbjörn Guðmundsson (Dista og Bjössi).

Það er þyngra en tárum taki að rita þessi orð um elsku Helgu frænku. Bros þitt getur dimmu dagsljósi breitt sagði skáldið og það átti svo sannarlega við um hennar fallega bros. Brosið, hlýja og hógværð einkenndu elsku Helgu. Það var alveg sama hvenær maður hitti hana, brosið var alltaf á sínum stað, sólargeisli sem lýsti upp tilveruna. Frændsystkin hennar Kristján og Herdís minnast frænku sinnar með miklum hlýleika því hún var ávallt svo góð við þau. Þegar þau voru yngri hafði hún alltaf allan heimsins tíma til að leika við þau þegar þau hittust. Þegar þau fóru að eldast og leikstundunum fækkaði sýndi hún þeim alltaf svo mikinn áhuga. Spjallaði við þau og vildi fá að vita hvað þau væru að bralla og hvernig lífið og tilveran gengi.

Sigríður móðuramma hennar var svo stolt af henni og nutum við ávallt að hlusta á hana segja sögur af systrunum, Helgu og Hönnu, því þær voru henni allt og hún gat svo sannarlega verið stolt af þeim. Það gaf henni mikið að hafa þær systur í sama húsi og eiga daglegar stundir með þeim.

Allt sem Helga gerði gerði hún vel, en hún var ekkert að hreykja sér af því. Hún er örugglega sú eina sem saumaði þjóðbúning með læknanáminu til að æfa saumaskap sem myndi nýtast henni þegar hún saumaði sjúklinga. Þegar Gummi var kynntur til leiks vissum við að þarna hefði hún líka gert hlutina vel eins og hennar var von og vísa og yndislegri mann sér við hlið gat hún ekki fundið. Þegar litla daman þeirra fæddist, Iðunn Lilja, var svo gaman að horfa á þau sinna henni bæði af alúð og natni. Það sást svo vel hversu samtaka þau voru.

Með ástarþökk ertu kvödd í hinsta

sinni hér

og hlýhug allra vannstu er fengu að

kynnast þér.

Þín blessuð minning vakir og býr

í vinahjörtum

á brautir okkar stráðir þú, yl og

geislum björtum.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Það er stórt skarð höggvið í yndislega Frænkuhvamminn eins og hann er kallaður á okkar heimili. Elsku Gummi, Iðunn Lilja, Þórdís, Þráinn, Hanna, Magga, Sigríður og Sigurbjörn, missir ykkar er mikill. Minning um yndislega frænku lifir um ókomin ár.

Úlfar, Linda Björk,

Kristján Ragnar, Herdís Arna og Bjarki Már.

Í dag kveðjum við okkar kæru mágkonu og svilkonu, Helgu Þráinsdóttur.

Að setjast niður og skrifa minningargrein um hana er erfitt því fráfall hennar er svo ósanngjarnt, ótímabært og óskiljanlegt. Hjörtu okkar eru kramin.

Helga kom inn í líf okkar sem kærasta hans Guðmundar Magnúsar og okkur leið strax eins og hún hefði alltaf verið hluti af fjölskyldunni. Hún var yndisleg manneskja í alla staði sem heillaði mann með hógværð, elju, brosmildi og hjartahlýju. Allt lék í höndunum á henni, hvort sem það var læknisfræði, handavinna eða móðurhlutverkið. Allt var leyst af einstakri natni og nákvæmni.

Helga hafði svo fallegt sjálfstraust, algjörlega dramblaus, hafði aldrei þörf til að berja sér á brjóst eða leiðrétta fólk þó hún vissi oft mun betur. Þegar hún var spurð voru svörin ætíð án alls yfirlætis, yfirveguð og grandhugsuð.

Elsku Helga, takk fyrir að vera hluti af lífi okkar, þín er og verður sárt saknað.

Minning þín mun lifa í hugum okkar og hjörtum um alla tíð.

Elsku bróðir/mágur, frænka og fjölskylda, missir ykkar er mikill og hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Ykkar

Jón Geir og Hafrún.

Það var líkt og tíminn stæði í stað þegar fréttir bárust af því að Helga, vinkona okkar og kollegi, væri skyndilega fallin frá, langt fyrir aldur fram.

Flest kynntumst við Helgu haustið 2009 þegar við hófum nám saman við læknadeildina. Við bekkjarsystkinin eigum það öll sammerkt að eiga einungis góðar minningar um hana, bæði frá skólaárunum og samstarfinu í kjölfarið. Það sem einkenndi Helgu var einstök útgeislun. Hún geislaði af gleði, geislaði af hreysti, geislaði af góðmennsku og gáfum. Þrátt fyrir að bera af í því sem hún tók sér fyrir hendur hafði hún ekki þörf fyrir að hreykja sér af afrekum sínum. Þau töluðu einfaldlega fyrir sig sjálf. Hún hafði gott lag á að láta fólki líða vel í návist sinni með einlægni og hlýju í allri framkomu.

Helga var mikil íþróttakona og endurspeglaðist íþróttamennska hennar í flestu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var heilsteypt manneskja og óhrædd við að fara sínar eigin leiðir. Hún var samviskusöm, ósérhlífin og hjálpsöm. Það var sama hvaða verkefni stóðu henni fyrir dyrum, ávallt mætti hún með sitt breiða bros á vör og tilbúin að leggja hönd á plóg. Liðsheildin var henni mikilvæg og hún gerði sér far um að mæta á viðburði og sýna lífi samferðafólks síns einlægan áhuga.

Helga nýtti alla sína mannkosti og varð að frábærum lækni sem við vitum að snerti tilveru skjólstæðinga sinna og samstarfsfólks á einstakan hátt. Það er sárt að hugsa til þess að eiga ekki von á að mæta fallegri nærveru Helgu á ný en minning hennar mun lifa áfram í hugum okkar og gjörðum.

Það líf var okkur lán, en henni sómi.

Hún leyndist nærri, og var þó stéttar prýði,

og það, sem mörgum sóttist seint í stríði,

það sigraði' hún með brosi og hlýjum rómi.

(Þorsteinn Erlingsson)

Við sendum Gumma, Iðunni Lilju og fjölskyldu Helgu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd útskriftarárgangs 2015, læknadeild Háskóla Íslands

Kristrún Aradóttir.

Þetta er svo óraunverulegt, að skrifa minningargrein um elsku Helgu okkar. Helgu sem var alltaf svo glöð, jákvæð og til í allt. Helga og Soffía systir mín urðu bestu vinkonur þegar Soffía byrjaði að æfa frjálsar íþróttir 9 ára gömul. Strax frá upphafi fékk ég, litla systirin, að hanga með þeim, Soffíu ekki alltaf til mikillar gleði en Helga var alltaf til í að leyfa mér að vera með. Eftir að við urðum eldri því betri vinkonur urðum við og brölluðum við þrjár ýmislegt saman. Bíókvöldin á neðri hæðinni í Fjóluhvamminum þar sem við horfðum á Twilight-myndirnar með stjörnur í augunum, öll matarboðin þar sem Helga sýndi hvað hún var frábær gestgjafi, alltaf dásamlegar kræsingar og nóg af alls konar góðum og skrítnum dósadrykkjum og upp á síðkastið öll spilakvöldin sem við áttum með Harry Potter fólkinu okkar. Það er svo sárt og ósanngjarnt að hugsa til þess að þessar stundir verða aldrei fleiri. Því er nauðsynlegt að halda upp á minningarnar og rifja þær upp. Það mætti segja að Helga hafi verið reddarinn minn eftir að hún hóf læknanámið, ég var mjög dugleg að hlýða henni yfir með ýmsum spurningum, sem tengdust nú yfirleitt mér en alltaf kom hún með góð svör og gat hjálpað. Helga var svo traust og falleg sál og það var hægt að ræða allt við hana. Aldrei þurfti að biðja hana að halda einhverju fyrir sig af því að hún vissi hvenær var verið að ræða erfið mál og var aldrei að tala um neitt við aðra. Það var alltaf hægt að treysta Helgu, hún var góð við alla og talaði aldrei illa um nokkurn mann. Í miðju Covid lenti ég skyndilega í aðgerð. Það mátti enginn koma og vera hjá mér þannig að ég sendi Helgu skilaboð. Hún var stödd á næstu deild að vinna en kom fljótlega og sat hjá mér fyrir aðgerðina og útskýrði allt fyrir mér. Helga var með svo góða nærveru að bara það að hún sat þarna hjá mér og spjallaði hélt mér rólegri. Hún var alltaf tilbúin að hjálpa og aðstoða. Við Helga og Soffía vorum alls ekki djammarar en einn góðan veðurdag fyrir 10 árum ákváðum við að gera okkur glaðan dag, skvísuðum okkur upp og fórum út að borða og það eru til svo skemmtilegar myndir af okkur “skyttunum þremur“ síðan þetta kvöld. Núna í sumar ákváðu við að gera þetta aftur, gerðum okkur fínar, fórum út að borða og endurnýjuðum “skytturnar þrjár“ myndina og það sem ég er þakklát að við höfum átt þetta dásamlega kvöld saman í sumar. Elsku Helga, þú skilur eftir skarð í hjörtum margra og þín verður sárt saknað. Ég er mjög þakklát fyrir vináttuna sem við áttum.

Gleðin sem kom þegar Helga og Gummi sögðu okkur að von væri á barni, ji hvað allir voru spenntir. Helga var svo stolt af dóttur sinni og fannst gaman að segja sögur af henni en núna er það orðið okkar hlutverk að segja Iðunni Lilju endalausar sögur af mömmu sinni.

Ég mun aldrei gleyma hvað þú varst ómetanleg vinkona.

Elsku Gummi, Iðunn Lilja, Þórdís, Þráinn, Hanna og Magga, ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur og styrk til ykkar á þessum erfiðu tímum og við höldum minningunni um Helgu á lífi.

Þín vinkona

María Ósk.