Álfsnesið Hið nýja sanddæluskip Björgunar mun dýpka Grynnslin við Höfn.
Álfsnesið Hið nýja sanddæluskip Björgunar mun dýpka Grynnslin við Höfn. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð dýpkun Grynnslanna fyrir utan Hornafjarðarós sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samið var við Björgun ehf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð dýpkun Grynnslanna fyrir utan Hornafjarðarós sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Samið var við Björgun ehf. að vinna verkið fyrir tæpar 126 milljónir króna. Hið nýja sanddæluskip félagsins, Álfsnes, mun annast dýpkunina.

Fyrirhuguð framkvæmd felst í dýpkun siglingaleiðar um Grynnslin við Hornafjarðarós og hins vegar efnislosun í sjó. Áætlað efnismagn er 300.000 rúmmetrar og verður 130 þúund rúmmetrum dælt af hafsbotni í fyrsta áfanga. Mikilvægt var talið að ljúka verkinu fyrir síldar- og loðnuvertíðir á komandi vetri.

Í greinargerð Sveitarfélagsins Hornafjarðar segir að Grynnslin séu sandrif sem takmarki djúpristu skipa sem sigla yfir þau en meðaldýpt á þeim sé talin 7-7,5 metrar. Skip sem sigla um svæðið risti mest 6,8-7,4 metra.

Núverandi aðstæður við Grynnslin hafi þannig áhrif á skipulagningu veiða og vinnslu á Hornafirði og áhrif á þróunarmöguleika útgerðar á Hornafirði.

Reglulega verði tafir á siglingum um Ósinn og Grynnslin yfir vetrarmánuðina vegna ölduhæðar en uppsjávarskipin, sem rista mest á siglingu sinni yfir Grynnslin, geti ekki siglt ef ölduhæð fer yfir 3-4 metra. Taka skipin oft niður á siglingu sinni yfir Grynnslin og eiga það einnig til að stöðvast í þeim miðjum. Tilgangur framkvæmdarinnar sé því að dýpka siglingarás um Grynnslin niður í 11 metra dýpi svo skip geti siglt í flestum veðrum. Dýpkun á þessu svæði sé ekki ákjósanleg frá nóvember fram í apríl vegna „háöldu“. Efnislosunarsvæðið sé 150x150 metrar að stærð og staðsett 5 km suðaustan af Hvanney.

Botndýralíf fábrotið

Í greinargerð Sveitarfélagsins Hornafjarðar kemur fram að úttekt hafi verið gerð árið 2022 á botndýralífi í grennd við fyrirhugað losunarsvæði á vegum Náttúrustofu Suðausturlands. Niðurstöðurnar hafi sýnt að botnsetið sé fínkornóttur sandur og botndýralíf á sýnatökustaðnum sé tiltölulega fábrotið. Ekki sé þar mikil tegundaauðgi en öldurótið, með tilheyrandi setflutningum á svæðinu, sé talið valda því að botndýr eigi erfitt uppdráttar á svæðinu. Engar fágætar tegundir fundust í sýnum.