Kirkjutónar Fremst eru organistar Grafarvogskirkju, þau Lára Bryndís Eggertsdóttir og Hákon Leifsson. Aftar eru Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur og orgelsmiðurinn Attilla Farago frá Búdapest í Ungverjalandi.
Kirkjutónar Fremst eru organistar Grafarvogskirkju, þau Lára Bryndís Eggertsdóttir og Hákon Leifsson. Aftar eru Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur og orgelsmiðurinn Attilla Farago frá Búdapest í Ungverjalandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Ungverskir hljóðfærasmiðir leggja nú lokahönd á uppsetningu og stillingu á nýju í pípuorgeli í Grafarvogskirkju í Reykjavík sem verður vígt við hátíðarguðþjónustu næstkomandi sunnudag kl. 11.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ungverskir hljóðfærasmiðir leggja nú lokahönd á uppsetningu og stillingu á nýju í pípuorgeli í Grafarvogskirkju í Reykjavík sem verður vígt við hátíðarguðþjónustu næstkomandi sunnudag kl. 11. Kirkjan sjálf var vígð árið 2000 en söfnun til kaupa á orgeli hefur staðið í 29 ár eða allt frá því afkomendur Sigríðar Jónsdóttur organista Grafarvogssóknar gáfu veglega gjöf sem stofnfé orgelsjóðs árið 1993. Nokkuð er síðan afráðið var að kaupa skyldi frá Aeris Orgona í Búdapest í Ungverjalandi orgel sem hefur tækni nútímans en líka þá eiginleika sem slík höfðu fyrr á öldum.

Strengjahljómur áberandi

„Í þessu orgeli er öðruvísi hljómur en í öllum öðrum orgelum á Íslandi. Strengjahljómurinn er áberandi og eins fá mjúku raddirnar að heyrast vel,“ segir Lára Bryndís Eggertsdóttir, annar tveggja organista í Grafarvogskirkju. Hinn er Hákon Leifsson og saman voru þau kirkjunni í gær að fylgjast með Ungverjunum við hljóðprófanir. „Í kirkju er orgelleikur mótvægi við talað mál og skapar þar andaktuga stemningu. Hér voru áður lítið orgel og flygill, vissulega góð hljóðfæri þótt meira þyrfti eins og nú er komið,“ segir Lára Bryndís.

Hákon segir að margt hafi verið haft í huga við orgelkaup og -smíði. Hljóðfærið hafi þurft að hæfa skipan hússins og starfinu í Grafarvogskirkju, þar sem eru bæði trúarlegar athafnir auk margvíslegs tónleikahalds. „Krafturinn er mikill og allar 33 raddir orgelsins spanna vítt tónsvið, alveg frá hinu dýpsta upp á hæsta C-ið. Ég hlakka til að leika á þetta hljóðfæri.“

Verður frábært tónlistarhús

Við messuna næstkomandi sunnudag mun frú Agnes M. Sigurðardóttir helga eða vígja orgelið við upphaf athafnar, þar sem prestar safnaðarins, djákni og fleiri þjóna. Tvö ný orgelverk verða flutt við guðsþjónustuna sem forspil og eftirspil; Nýtt upphaf eftir Hákon Leifsson og Lofsöngur fyrir orgel eftir Gísla Jóhann Grétarsson. Einnig verða sungnir sálmar við lög eftir báða organista Grafarvogskirkju. Þá verður vígslusálmur kirkjunnar, Á vígsludegi eftir feðgana Sigurbjörn Einarsson og Þorkel Sigurbjörnsson frá árinu 2000, sunginn í lokin. Á sunnudagskvöld kl. 19.30 verða svo tónleikar í kirkjunni. Hinn víðkunni organisti Hans-Ola Ericsson prófessor leikur þá á orgelið tónlist eftir Bach, Sibelius, Haydn, Brahms, Mendelssohn og fleiri.

„Þegar orgelið nýja er komið finnum við hvað vantað hefur í kirkjuna, sem nú ómar öll. Að hér sé veglegt pípuorgel mun efla menningarstarf til muna og gera Grafarvogskirkju frábært tónlistarhús jafnframt því að vera kirkja og samkomustaður fólksins hér í hverfinu,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir.