Guðni Einarsson gudni@mbl.is Fyrsti formlegi samningafundur samflots iðnaðarmannafélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna komandi kjarasamninga verður í næstu viku.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Fyrsti formlegi samningafundur samflots iðnaðarmannafélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) vegna komandi kjarasamninga verður í næstu viku. Þar verður farið yfir kröfugerð félaganna sem þá verður birt, að sögn Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ).

Auk RSÍ eru í samflotinu Byggiðn, FIT, MATVÍS og Samiðn. Flest félög iðnaðarmanna eru búin að skrifa undir viðræðuáætlun við SA.

„Uppleggið er að það verði sameiginleg kröfugerð fyrir allan hópinn, þó að mögulega geti hvert félag gert sérkröfur,“ segir Kristján. En hvað verður sett á oddinn?

„Meginstefið er að viðhalda kaupmætti launa. Verkefni okkar er að sækja launahækkanir fyrir okkar félagsmenn til að mæta verðbólgunni,“ segir Kristján. „Það skiptir miklu máli að draga úr henni. Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki gegna lykilhlutverki í að halda aftur af verðbólgu með því að sýna aðhald og lækka gjaldskrár og vöruverð. Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að launabreytingar hafa ekki verið stóri verðbólguhvetjandi þátturinn.“

Hann segir að ýmis jákvæð teikn séu á lofti og telur að svigrúm sé til að lækka verð á ýmsum vörum. Kristján nefnir t.d. verðþróun á ýmissi hrávöru og segir að hún gefi tilefni til að lækka verð á ýmsum aðföngum byggingariðnaðarins. „Verð á eldsneyti hefur verið að lækka á heimsmarkaði en þær lækkanir hafa ekki skilað sér fyllilega hingað. Við biðlum til fyrirtækjanna um að skila þessum lækkunum til neytenda svo verðlag lækki,“ segir Kristján.

En hefur Kristján sem forseti ASÍ tilfinningu fyrir því hvort kjaraviðræðurnar verða erfiðar?

„Við lifum á þannig tímum að viðræðurnar geta orðið snúnar og tekið einhvern tíma. Engu að síður bind ég vonir við að það verði hægt að klára þær tiltölulega hratt, ef það er samningsvilji hinum megin við borðið,“ segir Kristján. Er það raunhæft markmið að nýir kjarasamningar taki við þegar núgildandi samningar renna út 1. nóvember?

„Já, mér finnst það vera raunhæft markmið. Stéttarfélögin leggja áherslu á að ná því,“ segir Kristján.