Sjóför Rekstrarumsvif fiskeldis hafa stóraukist í íslenskum fjörðum. Aukin umferð vegna þess gerir skilgreindar siglingaleiðir nauðsynlegar.
Sjóför Rekstrarumsvif fiskeldis hafa stóraukist í íslenskum fjörðum. Aukin umferð vegna þess gerir skilgreindar siglingaleiðir nauðsynlegar. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Samgöngustofa hefur hafið vinnu við að skilgreina siglingaleiðir á innsævi við Ísland sem til þessa hefur aðeins verið gert við Reykjanes.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Samgöngustofa hefur hafið vinnu við að skilgreina siglingaleiðir á innsævi við Ísland sem til þessa hefur aðeins verið gert við Reykjanes. Vaxandi umsvif fiskeldisfyrirtækja og aukin umferð skemmtiferðaskipa úti fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum skapar þörf fyrir skilgreindar siglingaleiðir, að því er fram kemur í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Morgunblaðsins.

„Siglingar aukast ár frá ári og sérstaklega hefur umferð skemmtiferðaskipa við landið aukist undanfarin ár. Önnur starfsemi, s.s. fiskeldi, hefur einnig vaxið hratt í fjörðum landsins. Viðbúið er að ýmis starfsemi þrengi að siglingum og geti haft áhrif á siglingaöryggi. [...] Skoðuð eru drög að strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Vestfjarða til að leggja mat á hvar helst þurfi að skilgreina siglingaleiðir,“ segir í svarinu.

Með því að skilgreina siglingaleiðir skapast öruggar leiðir til siglinga án hindrana sem dregur úr hættu þegar mikil umferð er á umræddu svæði. Leiðirnar eru merktar á sjókort og verður stýrt með sjómerkjum, eftir þörfum.

Rétt að byrja

Vinnan er í startholunum og segir í svarinu að starfshópurinn, sem hefur með málið að gera, hafi aðeins hist einu sinni. Til stendur að skýra enn betur hlutverk og ábyrgð hans.

„Starfshópurinn vinnur að skilgreiningu út frá þekkingu og reynslu sérfræðinga auk þess sem stuðst verður við gögn erlendis frá. Í vinnunni hafa tekið þátt sérfræðingar Landhelgisgæslu Íslands, Skipstjórnarskólans, Félags skipstjórnarmanna, Skipulagsstofnunar og Samgöngustofu.“