Sjóeldi Gjald er innheimt af hverju kílói af laxi sem slátrað er úr sjókvíum.
Sjóeldi Gjald er innheimt af hverju kílói af laxi sem slátrað er úr sjókvíum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Ríkisstjórnin boðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs ríflega 40% hækkun á gjaldi af laxaframleiðslu sjóeldisfyrirtækja til fiskeldissjóðs. Þá stendur til að breyta viðmiðum við að reikna út gjaldstofninn, þannig að gjaldið hækki enn meira. Þegar gjaldið verður að fullu komið til framkvæmda verða innheimtir 2,6 milljarðar í þennan sjóð í stað 1,8 milljarða að óbreyttum lögum, miðað við 50 þúsund tonna framleiðslu og heimsmarkaðsverð á laxi eins og það hefur þróast í ár.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ríkisstjórnin boðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs ríflega 40% hækkun á gjaldi af laxaframleiðslu sjóeldisfyrirtækja til fiskeldissjóðs. Þá stendur til að breyta viðmiðum við að reikna út gjaldstofninn, þannig að gjaldið hækki enn meira. Þegar gjaldið verður að fullu komið til framkvæmda verða innheimtir 2,6 milljarðar í þennan sjóð í stað 1,8 milljarða að óbreyttum lögum, miðað við 50 þúsund tonna framleiðslu og heimsmarkaðsverð á laxi eins og það hefur þróast í ár.

Skattahækkunin er boðuð í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár en þarfnast lagabreytingar. Ætlunin er að hækka gjaldhlutfall, í því þrepi sem fyrirtækin lenda, úr 3,5 í 5%. Jafnframt verður viðmiðun breytt. Miðað verður við allt almanaksárið í stað þriggja mánaða tímabils að hausti. Heimsmarkaðsverð er að jafnaði fremur lágt á viðmiðunartímanum og þess vegna hækkar gjaldstofninn verulega við þessa breytingu.

Enn er í gildi aðlögun að gjaldtökunni sem tekin var upp á árinu 2019. Fyrirtækin greiða 4/7 hluta af fullu gjaldi á næsta ári og verður heildargjaldið um 1,5 milljarðar. Það er 450 milljónum hærra en samkvæmt núgildandi lögum. Að lokinni aðlögun, á árinu 2026, verður gjaldið 800 milljónum króna hærra en annars hefði orðið, verði þessi áform að veruleika.

Kemur á óvart

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir hækkun gjaldsins nú koma á óvart. Hún rifjar upp að lægri gjaldheimta hér en í Færeyjum hafi verið rökstudd með því að tekjuskattur væri lægri þar í landi og fyrirtæki hér greiddu þegar gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis og aflagjöld til hafna. Þá bendir hún á að fiskeldi sé mun lengra á veg komið í Færeyjum en hér við land. Það skjóti því skökku við að nú eigi að hækka gjaldið til jafns við það færeyska. Heiðrún bendir á að á vegum matvælaráðuneytisins sé verið að marka stefnu fyrir fiskeldi til framtíðar. Sú niðurstaða, að atvinnugrein í uppbyggingu þoli frekari gjaldtöku, komi því á óvart.

Hækkun gjaldsins kemur illa við fyrirtæki sem eru að hefja sjókvíaeldi á laxi. Það á til dæmis við Háafell á Vestfjörðum sem er komið með lax í sjó í Ísafjarðardjúpi eftir langa bið eftir leyfum og verður fyrsta laxinum slátrað næsta haust. „Við erum í kostnaðarsamri uppbyggingu og verðum næstu árin. Við fáum ekki sama aðlögunartíma og hin fyrirtækin. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir okkur, eina íslenska fyrirtækið sem framleiðir lax í sjó,“ segir Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells.

Óskuðu ekki eftir hækkun

Þriðjungur af gjaldinu rennur áfram til sveitarfélaga, ekki beint heldur í gegnum styrki til verkefna. Fiskeldissveitarfélögin á Vestfjörðum og Austfjörðum hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og lagt til að gjaldið renni beint til sveitarfélaganna til að standa straum af uppbyggingu innviða vegna þessarar nýju atvinnugreinar. Fasteignaskattar af mannvirkjum landeldis ganga beint til viðkomandi sveitarfélaga en ekkert er greitt af sjókvíum undan landi. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu tekur fram að sveitarfélögin hafi ekki beðið um hækkun á fiskeldisgjaldinu. Hins vegar telur hún eðlilegt að allt gjaldið renni til sveitarfélaganna, að minnsta kosti tímabundið, á meðan þau eru að byggja sig upp eftir 30 ára niðursveiflu.