Stefnuræða Katrín Jakobsdóttir í ræðustól á Alþingi í gærkvöldi.
Stefnuræða Katrín Jakobsdóttir í ræðustól á Alþingi í gærkvöldi.
Andrés Magnússon andres@mbl.is Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gær.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í gær. Þar var horft bæði til Íslands og umheimsins, en forsætisráðherra gerði þar þjóðaröryggi á viðsjárverðum tímum að umræðuefni, einkum þó orkumál í samhengi við umhverfismál. Eins vék Katrín að efnahagsmálum og lífskjörum á dögum efnahagsóvissu, fjallaði um réttindi viðkvæmra hópa og skautun í þjóðmálaumræðu.

Ráðherra sagði að Íslendingar væru um margt í öfundsverðri stöðu meðal þjóða heims, en á meðan stríð geisaði í Úkraínu, orkukreppa í Evrópu og flóð í Pakistan, þá væri sá vandi Íslendingum ekki óviðkomandi og nefndi loftslagsmál sérstaklega. Þar væri ærinn starfi.

„Við erum á fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu – inn í nýtt grænt hagkerfi,“ sagði ráðherra.

Tækifæri í orkumálum

Katrín sagði tækifæri fylgja slíkum áskorunum og sagði Íslendinga „í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu“. Þar skipti miklu að helsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, ásamt Landsneti, væri í almannaeigu; orkukerfið væri sjálfstætt og undir innlendri stjórn, enda frumskylda stjórnvalda í orkumálum við íslenskan almenning.

Ráðherra drap á orkukreppuna í Evrópu vegna Úkraínustríðsins, ítrekaði pólitískan stuðning við úkraínsku þjóðina og minnti á að í næsta mánuði kæmi formennska í Evrópuráðinu í hlut Íslands, „[...] þar sem málefni Úkraínu koma til okkar kasta og við munum tala skýrt“.

Þá hefði stríðið dregið vel fram að fæðuöryggi væri öryggismál og boðaði ráðherra að landbúnaðarstefna yrði lögð fyrir þetta þing og stefnt að því að landið yrði í auknum mæli sjálfu sér nægt í framleiðslu grænmetis og annarrar landbúnaðarvöru.

Greitt fyrir samningum

Næst vék forsætisráðherra að efnahagsmálum og minnti á að þrátt fyrir að verðbólga herjaði á heimsbyggðina væri atvinnuástand hér gott og hagvaxtarhorfur góðar. „Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að stjórnvöld og Seðlabankinn séu samstillt og ríkisfjármálin og peningamálastefnan vinni í sömu átt.“

Stjórnvöld myndu styðja við þá sem erfiðast ættu, m.a. barnafjölskyldur, en þó ekki síður með því að reisa 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum í samstarfi við sveitarfélögin.

Sömuleiðis stæði ríkisstjórnin vörð um almannaþjónustuna, ekki síst heilbrigðisþjónustuna, en öll þau velferðarmál sneru að lífskjörum þjóðarinnar „[...] og verða vonandi til þess að greiða fyrir farsælum samningum á vinnumarkaði í vetur“.

Vikið var að ýmsum réttindamálum, þar á meðal kynsegin fólks, fatlaðra og innflytjenda.

Gegn skautun í stjórnmálum

Að lokum vék Katrín að stjórnmálaumræðu, meðal annars tali um að samstarf ólíkra stjórnmálaflokka væri slæmt. Því andæfði hún og minnti á að málamiðlanir væru hornsteinn lýðræðisins. Hún varaði við skautun í stjórnmálum, sem ekki leysti ágreining, heldur dýpkaði hann, einmitt þegar mikilvægast væri að fólk með ólíkar lífsskoðanir talaði saman og leitaði sameiginlegra lausna. Á slíkum grunni mætti byggja til framtíðar og það þyrftu þingmenn allir að leitast við að gera.