Jól Emmsjé Gauti verður með sína árlegu jólatónleika í Háskólabíói.
Jól Emmsjé Gauti verður með sína árlegu jólatónleika í Háskólabíói. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Tónlistarfólk hefur mátt þola miklar búsifjar síðustu tvö ár vegna kórónuveirunnar. Hin mikla útgerð sem verið hefur í kringum jólatónleika tók á sig mikið högg og lagðist í sumum tilvikum af.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Tónlistarfólk hefur mátt þola miklar búsifjar síðustu tvö ár vegna kórónuveirunnar. Hin mikla útgerð sem verið hefur í kringum jólatónleika tók á sig mikið högg og lagðist í sumum tilvikum af. Nú blása hins vegar aðrir vindar um héruð, veiran er á bak og burt og ljóst virðist að stór vertíð sé í uppsiglingu.

„Það þarf að selja þessa tónleika með góðum fyrirvara,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix miðasölu, þegar hún er spurð um miðasölu á jólatónleika sem nú er auglýst víða. Enn er sumar í margra augum og því eilítið ankannalegt að horfa til afþreyingar um jólin. Það verður þó ekki umflúið. „Ég held að þessi jólavertíð verði stór, svipuð og fyrir Covid árið 2019,“ segir Hrefna.

Í dag hefst sala á jólatónleika Baggalúts en meðlimir þeirrar sveitar hafa verið einna umsvifamestir á jólatónleikamarkaðnum. Í gær hófst svokölluð for-forsala á Jólagesti Björgvins og Emmsjé Gauti auglýsti forsölu á sína Jülevenner . Auk þess er farið að kynna Las Vegas Christmas Show sem Geir Ólafsson stendur fyrir, jólatónleika Friðriks Ómars, jólatónleika Siggu Beinteins, Þorláksmessutónleika Bubba Morthens og svo mætti áfram telja. Stórsveit Reykjavíkur, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands blanda sér sömuleiðis í slaginn. Þá verða tveir grínarar með sýningar í kringum hátíðarnar, Ari Eldjárn með sitt Áramótaskop og Sólmundur Hólm Sólmundarson með nýja dagskrá undir heitinu Jóli Hólm í Bæjarbíói.