Guðný Kristleifsdóttir fæddist á Landspítalanum 13. október 1972. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 25. ágúst 2022.

Foreldrar hennar eru Bergljót Kristjánsdóttir, f. 19. júní 1938, og Kristleifur Guðni Einarsson, f. 23. maí 1933. Systir Guðnýjar er Þórdís, f. 29. desember 1958.

Börn Guðnýjar eru: Ásdís Lilja, f. 4. febrúar 1993, faðir hennar er Hafþór Sigurðsson, f. 28. nóvember 1973, Árni Gunnar, f. 21. október 1996, og Anna Sólveig, f. 4. ágúst 2001. Faðir þeirra er Guðni Már Þorkelsson, f. 13. janúar 1971.

Guðný giftist Guðna Má Þorkelssyni 13. júlí 1998. Þau skildu.

Guðný ólst upp í vesturbæ Kópavogs en flutti í Garðabæ árið 1993 og bjó þar síðan.

Hún gekk í Kársnesskóla, Þinghólsskóla og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hún útskrifaðist sem matartæknir, sjúkraliði og stúdent. Guðný vann ýmis störf. M.a. var hún matráður á leikskólanum Ósi og sjúkraliði á hjartaskurðlækningadeild Landspítalans.

Útför Guðnýjar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 15. september 2022, og hefst klukkan 15.

Glaðværð og Guðný áttu samleið. Litla systir hennar Dísu tengdadóttur okkar Harðar kom með smitandi glaðværð sína í húsið okkar, en Dísa og Daði, miðsonur okkar, höfðu komið sér fyrir í kjallaranum. Við kynntumst Guðnýju fyrst þegar hún var smástelpa og kom oft með stóru systur í Lindarhvamminn til að heilsa upp á nýfæddan frænda sinn, hann Kristleif litla Daðason, og vildi líka svo gjarnan fá Kela okkar út í fótbolta þó ekki gengi það nú alltaf eftir. Guðný var sannarlega á undan sinni samtíð og var á kafi í fótbolta með strákunum í hverfinu þannig að leiðbeinendur komu fram við hana eins og „hina strákana“. Því hún átti í fullu tré við þá. Alltaf gat hláturmildi Guðnýjar smitað til þeirra sem voru nálægir. Seinna giftist Guðný náfrænda mínum, Guðna Má Þorkelssyni, en þau eignuðust tvö mannvænleg börn en fyrir átti Guðný yndislega litla dóttur.

Með tímanum varð ég langömmusystir allra barna hennar. Á seinni árum mínum leitaði ég til Guðnýjar með verkefni og fékk hana til að slá inn nokkrar ferðadagbækur mínar sem náðu yfir tvo áratugi. Þar kom vandvirkni Guðnýjar berlega í ljós því þar sem handskrift mín var óljós skrifaði hún einfaldlega „skil ekki næstu setningu“. Svo aldrei slæddust inn ágiskanir eða óljóst orðalag. Þetta var eftir að Guðný var orðin einstæð móðir og tók að sér einstaka viðvik fyrir aðra. Þetta varð upphaf að endurnýjaðri vináttu okkar; ég fylgdist með dugnaði hennar og lífi barna í fjarlægð og hversu lífið tók að þrengja að Guðnýju. Veikindi undanfarin ár réðust að líkama hennar, en meðfædd glaðværð sem hún ræktaði ætíð með sér fylgdi henni allt til enda og létti henni erfiða lífsbaráttu. Þó sú barátta hafi tapast að lokum.

Minningin um þessa glaðværu og umhyggjusömu sál situr eftir í minningu okkar sem kynntust henni á ólíkum lífsskeiðum hennar. Við Hörður Rafn sendum börnum Guðnýjar, þeim Ásdísi, Árna Gunnari og Önnu Sólveigu, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Foreldrar, systir, frændfólk og vinir eiga samúð okkar óskipta.

Kristín Þorkelsdóttir.

Hvernig kveður maður sína bestu vinkonu eftir áratugalanga vináttu? Vináttu sem hefur gert líf mitt betra og hefur þroskast með okkur. Minningarnar eru svo margar að erfitt er að gera þeim skil í stuttri grein. Við Guðný kynntumst þegar ég flutti í vesturbæ Kópavogs fimm ára gömul. Hún bjó hinum megin við götuna í litlu húsi sem mér fannst vera ævintýraveröld. Æskuárin einkenndust af því að leika okkur úti og uppgötva heiminn. Unglingsárin voru okkur góð. Við fórum í ferðalög, á skólaböll, fórum á rúntinn á litla Daihatsuinum. Með hverju ári lærðum við meira á okkur sem einstaklinga og vinátta okkar dýpkaði. Okkur fannst við vera að sigra heiminn. Það kom að því að börnin bættust í hópinn. Hún eignaðist gullin sín, þau Ásdísi Lilju, Árna Gunnar og Önnu Sólveigu. Allt einstaklingar sem erft hafa hæfileika móður sinnar, náð markmiðum sínum og gert móður sína stolta. Það sem hún elskaði þau heitt.

Guðný var ein af þeim sem gera allar samkomur skemmtilegar og var oftar en ekki hrókur alls fagnaðar. Hún sagði svo skemmtilega frá og var ein af þeim einstaklingum sem láta öllum líða vel. Það var svo auðvelt að opna sig fyrir henni. Hún studdi og ráðlagði en umfram allt hlustaði. Var glaðvær, hnyttin og brosmild. Hafði þann hæfileika að láta öllum finnast þeir vera sérstakir í augum hennar. Hafði einlægan áhuga á fólki og heiminum öllum.

Guðný var einstaklega listræn sem sýndi sig í ljósmyndum hennar, hekli, prjónavinnu, leirgerð og auga fyrir litum. Hún var samt svo auðmjúk, fannst aldrei neitt sem hún gerði vera nógu gott.

Dýr áttu alltaf sinn sess í lífi Guðnýjar, ekki bara hennar eigin dýr heldur öll dýr sem urðu á vegi hennar. Hún hafði einstakt lag á að fá þau til að hænast að sér og vissi hvers þau þörfnuðust. Sýndi þeim ást og umhyggju.

Svo var hún djúpvitur, vissi ótrúlega mikið um ótrúlegustu hluti. Hún vissi til dæmis allt um stjörnurnar og reyndi í 44 ár að kenna mér hvar hver þeirra er, en það eina sem situr eftir er Karlsvagninn sem ég stolt bendi öðrum á. Þar er ekki við kennsluhæfileika hennar að sakast, frekar tregðu mína. Það verður erfitt að geta ekki lengur hringt í hana eftir svari. Hver á að svara núna þegar mig vantar uppskrift að mat, þarf að vita hvað lagið heitir sem ég er að hugsa um eða hver fyllir inn í minninguna sem ég man bara að hluta? Ég treysti því að hún leiðbeini mér að svarinu.

Nú er þessum kafla í vináttu okkar að ljúka. Næsti kafli er að vera til staðar fyrir börnin hennar, foreldra og systur. Seinna hittumst við aftur. Við Helgi vottum aðstandendum hennar okkar innilegustu samúð.

Guðlaug Edda.