Málamiðlun um orkunýtingu og orkuskipti.

Forsætisráherra flutti stefnuræðu sína í gær og var bæði á þjóðlegu og alþjóðlegu nótunum, þar sem óvissa í hinu alþjóðlega samhengi litar aðstæður mikið og stefna ríkisstjórnarinnar tekur mið af því eins og vera ber.

Ráðherrann vék réttilega að því að staða Íslands er um margt öfundsverð, þegar litið er til aðstæðna í heimsmálum og þá ekki síður hvaða vanda velflestar vestrænar þjóðir aðrar eiga við að etja, að ekki sé minnst á fjarlægari og fátækari lönd.

Í hinu hnattræna samhengi gat forsætisráðherra ekki stillt sig um að minnast á loftslagsmálin, en í þeim efnum hefði hin endurnýjaða ríkisstjórn sett sér ný markmið til þess að minnka útblástur og sagði landið á „fullri ferð út úr kolefnishagkerfinu – inn í nýtt grænt hagkerfi“, en þar voru Katrínu efst í huga orkuskipti í samgöngum og öðrum sviðum raunar einnig, þar sem öld grænna orkugjafa væri hafin.

Forsætisráðherra sagði að Íslendingar væru „í einstakri stöðu til að ná fram orkuskiptum í almannaþágu vegna þess að réttar ákvarðanir hafa verið teknar“. Undir það má taka, þótt Katrín hafi raunar vanrækt að geta þess að hún og hennar fólk lögðust gegn öllum þeim framsýnu ákvörðunum á sínum tíma.

Hún rakti og að það væri mikil gæfa að Landsvirkjun og Landsnet – helsta orkufyrirtæki landsins og mikilvægasta innviðafyrirtæki þess – væru í almenningseigu.

„Eins hljótum við að þakka fyrir að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn. Nú þegar raforkuverð í Evrópu er himinhátt – þegar almenningur í Noregi, Þýskalandi, Bretlandi er jafnvel að borga margfalt verð fyrir hita og rafmagn á við okkur – er augljóst að við erum í öfundsverðri stöðu,“ sagði forsætisráðherra, en lét að vísu alveg vera að ræða um orkupakkann í því samhengi.

Aftur ítrekaði hún að þetta væri vegna þess að góðar og framsýnar ákvarðanir hefðu verið teknar hingað til, þótt Vinstri-græn hafi verið á öndverðum meiði. Það er ekki nefnt forsætisráðherra og flokki hennar til lasts. Þvert á móti ber að fagna aukinni samstöðu um þessi grundvallarmál, því Ísland á líkt og önnur lönd allt sitt undir orkugnægð og enn frekar þegar horft er til framtíðar og bættra lífskjara til frambúðar.

Þessu virðist forsætisráðherra átta sig á og eins hinu, að miklu skipti hvernig fram verður haldið. Katrín sagði að þegar kæmi að orkuskiptum og orkuframleiðslu væri frumskylda stjórnvalda við íslenskan almenning.

Þarna er um afar afdráttarlausa stefnumörkun að ræða og hún sætir nokkrum tíðindum, ekki síst fyrir Vinstri-græn. Þar á bænum hafa menn verið ákaflega tvístígandi í þessum efnum, þar sem á togast ýmis illsamrýmanleg grundvallarmarkmið um loftslag eða landvernd, bætt kjör almennings eða skerta neyslu hans. Nú hefur það skýrst til muna og það er vel.

Katrín sló þó þann varnagla að öll orkunýting – vatnsföll, jarðvarmi, vindur, sólarorka eða hvað annað – yrði að vera ábyrg, í sátt við náttúruna og í þágu almennings. Af því blasir við að Vinstri-græn eru ekki að opna fyrir allsherjar virkjunarsvall, heldur varlega orkunýtingu með þarfir íslensks almennings að leiðarljósi.

Þrátt fyrir að barátta við vindmyllur sé sjaldnast árangursrík virðast Vinstri-græn ætla að leggja til atlögu við þær. Þær munu ekki miklu skipta fyrir orkubúskapinn og geta vissulega verið mikið lýti á landslagi, svo óvíst er að fyrirstaðan verði mikil.

Af fyrrnefndum varnagla má einnig draga ályktanir um að Vinstri-græn geri ekki athugasemdir við orkuöflun fyrir landsmenn, en vilji síður að hún komi útlendingum til góða. Það vekur hins vegar spurningar um hversu mikil alvara fylgir heitstrengingum Vinstri-grænna um loftslagsmálin eða vorkunn vegna orkukreppu í Evrópu. Nú eða hvernig eigi að tryggja bætt lífskjör til frambúðar.

Undir lok stefnuræðunnar sagði forsætisráðherra að á „tímum skautunar og einstefnustjórnmála [skipti] miklu að ná saman um framfaraskref fyrir samfélagið allt“. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin gangi þar á undan með góðu fordæmi málamiðlunar og miklu skiptir hvernig verður fram haldið.