[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Liðlega tvö þúsund Rússar hafa komið til landsins það sem af er ári.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Liðlega tvö þúsund Rússar hafa komið til landsins það sem af er ári. Er það aðeins um 15% af fjölda rússneskra ferðamanna á árinu 2019 þegar hann náði hámarki og er á svipuðu róli og var þegar fyrst var byrjað að flokka sérstaklega rússneska ríkisborgara sem hingað koma.

Rússneskir ferðamenn hafa aldrei verið stór hópur hér ef miðað er við önnur markaðssvæði. Á árinu 2019 komu liðlega 16.500 ferðamenn, samkvæmt skráningu Ferðamálastofu, en heildarfjöldinn var tæpar tvær milljónir.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að fækkun ferðamanna frá Rússlandi hafi ekki mikil áhrif á ferðaþjónustuna hér. Hann bendir þó á að það hafi fremur verið efnameiri Rússar sem hingað lögðu leið sína og hugsanlegt að þróunin hafi haft áhrif á einstaka fyrirtæki.

Samkomulag um aðgerðir

Ekki er lengur flogið á milli Evrópuríkja og Rússlands en Rússar hafa getað ekið til nágrannaríkja og flogið þaðan. Ríki Evrópusambandsins náðu nýlega samkomulagi um að slíta samningi við Rússland um vegabréfsáritanir. Verður því erfiðara fyrir Rússa að fá áritanir til Evrópulanda. Sum ríki bandalagsins hafa tekið fyrir komur rússneskra ferðamanna og hvatt til lokunar landamæranna. Ekki er annað vitað en að Ísland fylgi ákvörðun Evrópusambandsins.

„Við erum almennt ekki fylgjandi lokunum og takmörkunum. Við hljótum þó að sýna því skilning, þegar aðstæður eru eins og nú, að beitt sé einhverjum þvingunum í samstarfi ríkja,“ segir Jóhannes Þór aðspurður um þetta og vísar til samkomulags Evrópusambandsríkjanna. Segir að aðgerðirnar muni draga mjög úr straumi ferðamanna frá Rússlandi til Evrópuríkja.