Vínarborg Listamennirnir Hulda Vilhjálmsdóttir og Hjörtur Matthías Skúlason við uppsetningu sýningar sinnar í galleríi Rutar Marrow í Vín. Sýningaropnunin er liður í myndlistardagskrá sem sendiherra Íslands þar býður til.
Vínarborg Listamennirnir Hulda Vilhjálmsdóttir og Hjörtur Matthías Skúlason við uppsetningu sýningar sinnar í galleríi Rutar Marrow í Vín. Sýningaropnunin er liður í myndlistardagskrá sem sendiherra Íslands þar býður til.
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Um helgina verður mikið um að vera í sendiherrabústað Íslendinga í Vínarborg.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Um helgina verður mikið um að vera í sendiherrabústað Íslendinga í Vínarborg. Þar verður enduropnun sendiráðs þar í borg fagnað með veglegri myndlistardagskrá og mun utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, heimsækja borgina af þessu tilefni.

Utanríkisráðuneytið og Listasafn Íslands hafa gert með sér samkomulag um að standa saman að kynningu á íslenskri myndlist í sendiráðum Íslands erlendis og segir Kristín A. Árnadóttir, sendiherra og fastafulltrúi í Vín, þessa dagskrá í anda þess samkomulags. Dagskráin spretti upp úr góðu samstarfi við Listasafnið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.

Tók á sig stærri mynd

„Þegar ljóst varð að hér yrði enduropnað sendiráð tók þetta á sig aðeins aðra og stærri mynd og við ákváðum að gera þetta með glæsibrag. Þetta er ekki bara ein opnun á sýningu heldur er þetta viðburðahelgi og við breytum bústað sendiherra og fastafulltrúa Íslands í sýningarrými.“

Á morgun, föstudag, verður sýningin formlega opnuð og þá verður ýmislegt á dagskrá, flutt verður tónlist og boðið upp á veitingar.

Sautján listamenn ýmist búsettir í Vín eða heima á Íslandi taka þátt í þessari myndlistarhelgi. Katrín segir að þeir hafi næstum undantekningarlaust tengsl við Austurríki.

Mæðginin Anton Herzl og Thelma Ingvarsdottir Herzl eru búsett í Austurríki og Bergur Nordal er við nám í Vín. Elínborg Ostermann, myndlistarkona og doktor í lífefnafræði, er einnig búsett í Austurríki, sem og Linda Steinþórsdóttir og Ingrid Gaier.

Þar fyrir utan koma eftirfarandi listamenn frá Íslandi: Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Hallgrímur Árnason, Hjörtur Matthías Skúlason, Hulda Vilhjálmsdóttir, Kristín Blöndal, Kristín Gunnlaugsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Sigríður Marrow og Sigtryggur Berg Sigmarsson.

Allir listamennirnir sem taka þátt í sýningunni verða á staðnum. Auk þeirra verður viðstaddur sýningaropnunina mikill fjöldi listunnenda; málverkasafnarar, galleríeigendur, forstöðumenn listasafna, fulltrúar menningarpressunnar og svo framvegis.

Þá taka tveir íslenskir listamenn til viðbótar þátt í dagskránni, þau Rannveig Fríða Bragadóttir óperusöngkona og myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson. Auk þess mun kokkurinn Friðrik Sigurðsson galdra fram veislu fyrir bragðlaukana, með austurrísku sem og íslensku yfirbragði.

Listamenn ræða hlutverk sitt

Daginn eftir, á laugardag, verður minni sýning opnuð í galleríi Rutar Marrow, Rut's Gallery, með verkum eftir Huldu Vilhjálmsdóttur og Hjört Matthías Skúlason. Á sunnudag opnar Jakob Veigar Sigurðsson síðan dyr vinnustofu sinnar.

Seinna sama dag mun myndlistarkvöldverður undir yfirskriftinni The Salon fara fram. „Þetta er austurrísk og frönsk listahefð þar sem listamenn mætast og ræða hlutverk sitt í samtímanum og hvaðeina sem áhugavert kann að vera,“ segir Kristín.

„Í þeim viðburði eru yfir fjörutíu þátttakendur, þar verða fulltrúar safna, gallería og listapressunnar og áhugafólk um myndlist.“

Yfirskrift þessara viðburða er Relations , sem mætti til dæmis þýða sem tengsl, og því má ætla að áhersla sé lögð á að mynda og styrkja tengsl.

„Tilgangurinn er að kynna íslenska myndlist, koma íslenskum myndlistarmönnum á framfæri og efla tengslin. Það má kannski líkja þessu við að við köstum stórum og þungum steini út í lygna tjörnina og vonandi gárast hún lengi og vel,“ segir Kristín að lokum um umfang viðburðarins og áhrifin sem hún vonast til að hann hafi.