Jarðvísindi Eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 var mikið sjónarspil.
Jarðvísindi Eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 var mikið sjónarspil. — AFP
„Rannsóknirnar sýna að undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli var ólíkur undanfara margra gosa í heiminum og efnasamsetning hraunsins breyttist eftir því sem leið á gosið,“ segir í tilkynningu sem Háskóli Íslands gaf frá sér í tilefni þess...

„Rannsóknirnar sýna að undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli var ólíkur undanfara margra gosa í heiminum og efnasamsetning hraunsins breyttist eftir því sem leið á gosið,“ segir í tilkynningu sem Háskóli Íslands gaf frá sér í tilefni þess að tvær greinar eftir jarðvísindafólk á Íslandi birtust í nýjasta hefti tímaritsins Nature. Greinarnar eiga það sameiginlegt að vera báðar um eldgosið í Fagradalsfjalli í fyrra.

Í tilkynningunni er einnig tekið fram að mjög sjaldgæft sé að vísindamenn á Íslandi fái tvær greinar birtar í sama hefti af Nature.

Í annarri greininni er fjallað um hvernig aðdragandi eldgossins var frábrugðinn undanfara flestra annarra eldgosa í heiminum. Þar kemur fram að vikurnar fyrir gosið hafi einkennst af spennulosun í jarðskorpunni en á síðustu dögunum fyrir gosið hafi hins vegar dregið úr jarðskorpuhreyfingum og skjálftavirkni á svæðinu í kringum gosstöðvarnar. Það er ólíkt aðdraganda flestra eldgosa. Í hinni greininni kemur fram að eldgosið í Fagradalsfjalli skeri sig frá öðrum gosum vegna þess hversu djúpt úr jörðinni hraunið kom. Þar kemur fram að kvika komi í langflestum tilfellum úr kvikuhólfi sem liggur á litlu dýpi í jarðskorpunni en kvikan úr gosinu 2021 kom af miklu dýpi.