[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Verslunar- og þjónustufyrirtækið Olís og hleðslufyrirtækið Ísorka hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva sem staðsettar verða á þjónustu- og sjálfsafgreiðslustöðvum Olís um allt land. Stefnt er að uppbyggingu 20 staðsetninga innan tveggja ára þar sem rafbílaeigendur geta hlaðið bifreiðar sínar með fyrsta flokks búnaði.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Verslunar- og þjónustufyrirtækið Olís og hleðslufyrirtækið Ísorka hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva sem staðsettar verða á þjónustu- og sjálfsafgreiðslustöðvum Olís um allt land. Stefnt er að uppbyggingu 20 staðsetninga innan tveggja ára þar sem rafbílaeigendur geta hlaðið bifreiðar sínar með fyrsta flokks búnaði.

Frosti Ólafsson framkvæmdastjóri Olís og Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri Ísorku segja í samtali við Morgunblaðið að hafist verði handa við fyrstu staðsetningarnar á komandi mánuðum. Stefnt sé að því að 6-8 nýjar staðsetningar verði komnar í notkun fyrir áramót.

„Það er kjarnamarkmið hjá okkur að fjölga vinum við veginn – bæði viðskiptavinum og samstarfsaðilum – og þetta er stórt skref í átt að því marki. Sú uppbygging sem er fram undan er því mikið fagnaðarefni fyrir bæði okkur og rafbílaeigendur,“ segir Frosti.

Sækja breiðari þjónustu

Stærstur hluti stöðvanna verður staðsettur við þjónustustöðvar Olís þannig að viðskiptavinum gefist tækifæri til að sækja sér breiðari þjónustu meðan á hleðslu stendur.

Olís hefur þjónustað bifreiðaeigendur í hartnær öld og er með þjónustustöðvar fyrir fólk á ferðinni um land allt. Lausnir Ísorku verða sífellt útbreiddari. Með því að sameina krafta sína vonast þeir Frosti og Sigurður til þess að fyrirtæki þeirra geti veitt vaxandi hópi rafbílaeigenda fjölbreytta þjónustu í hæsta gæðaflokki, eins og þeir orða það.

Aðspurður segir Sigurður að mikil uppsveifla sé hjá fyrirtækinu núna eftir að hafa verið starfandi frá árinu 2014. Starfsmannafjöldinn hafi meira en tvöfaldast á þessu ári. „Við erum sautján núna en vorum sex í janúar sl.“

Hann segir fyrirtækið reka rúmlega tvö þúsund hleðslustöðvar. „Við höfum náð að vaxa með þessari þróun í rafvæðingunni. Það skildi okkur enginn í fyrstu en við erum núna að uppskera eftir allt erfiðið.

Mikilvægt fyrir markaðinn

Verkefni sem þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir rafbílamarkaðinn, sér í lagi til þess að viðurkenna rafmagn sem valkost. Skráningartölur nýrra bifreiða sýna glöggt að sífellt fleiri kjósa að nýta rafmagn. En rafbíll er ekki einungis fyrir einstaklinga. Hann er einnig fyrir fyrirtæki og viðskiptavini hjá bílaleigum, notendur sem alla jafna hafa ekki aðgang að heimahleðslu. Öflugir innviðir með góðu aðgengi eru því mikilvægt framlag fyrir þennan nýja notendahóp sem við sjáum vaxa hratt,“ segir Sigurður.

Frosti segir spurður um valið á Ísorku sem samstarfsaðila að félagið hafi staðið frammi fyrir því að vinna verkefnið allt innanhúss eða fara þá leið að vinna með samstarfsaðila. „Við hefðum þurft að byggja upp talsverða þekkingu innanhúss og fjárfesta í innviðum sem mögulegur samstarfsaðili væri nú þegar búinn að gera. Við höfum átt gott samstarf við Ísorku fram til þessa og nú tökum við stærra skref með þeim inn í framtíðina.“

Þær staðsetningar sem fyrstar verða rafvæddar eru Olís-stöðvarnar á Akranesi, Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal að sögn Frosta.

Þétta net á Suðurlandi

Mikilvægt er að hans sögn að þétta netið á Suðurlandi enda er þar mikil umferð ferðamanna, íslenskra og erlendra.

Sigurður segir að öflug stöð verði sett upp í Borgarnesi sem tengt geti Snæfellsnesið betur.

Spurður um tæknilega hlið uppsetninganna segir Sigurður að allar stöðvar verði að lágmarki 150 Kw að stærð. „Nýjustu rafbílar taka 100-200 Kw hleðslu. Mikið af búnaðinum sem við setjum upp verður svo uppfæranlegt upp í 400 og jafnvel 600 Kw. Það mun nýtast vel þegar bílarnir sjálfir verða færir um að móttaka slíkt afl. Einnig gefur meira afl inn á stöðvarnar möguleika á fleiri og hraðari tenglum á hverja stöð.“

Áfram í samfloti

Í samhengi við framvindu orkuskiptanna segir Frosti að hefðbundið jarðefnaeldsneyti og rafmagn komi til með að vera í samfloti í þónokkurn tíma til viðbótar. „Nýorkubifreiðar eru að ryðja sér hratt til rúms og eru nú meirihluti seldra fólksbifreiða. Það er aftur á móti ljóst að umbreytingin mun taka nokkra áratugi og það er erfitt fyrir ýmsa að skipta yfir í hreina rafmagnsbíla, a.m.k. eins og tæknin stendur í dag. Það er því ljóst að viðskiptavinir okkar munu þurfa aðgengi að bæði jarðefnaeldsneyti og rafmagni næstu árin. Því er ákjósanlegt að bjóða upp á báða kosti á staðsetningum okkar.“

Spurður um krónur og aura í samningnum segir Frosti að fjárfestingin hlaupi á hundruðum milljóna króna.