Sveitamaður Ótækt ef samhengi sögunnar hér hefði rofnað, segir Eyþór Bragi sem ungur einsetti sér að taka við búskap á Bustarfelli. Hér er hann framan við hinn gamla reisulega bæ sem reistur var 1770 og búið í til ársins 1966.
Sveitamaður Ótækt ef samhengi sögunnar hér hefði rofnað, segir Eyþór Bragi sem ungur einsetti sér að taka við búskap á Bustarfelli. Hér er hann framan við hinn gamla reisulega bæ sem reistur var 1770 og búið í til ársins 1966. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Notalegur svali er í lofti á fallegu síðdegi í september. Smalar hóa og hundar gelta þegar sauðfé er rekið úr gerði inn í almenninginn í Teigsrétt í Vopnafirði.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Notalegur svali er í lofti á fallegu síðdegi í september. Smalar hóa og hundar gelta þegar sauðfé er rekið úr gerði inn í almenninginn í Teigsrétt í Vopnafirði. Eftir beit í grösugum sumarhögum inni á heiði þykir fé vera vel fram gengið og fallþungi þess verði með besta móti, eða svo er sagt í réttunum sem alltaf eru skemmtileg mannamót og vinafundur. Hálf sveitin virðist vera mætt og þau sem ekki hafa hér skyldustörfum að gegna eru við kvenfélagstjaldið þar sem hægt er að fá kaffi og heimabakaðar kökur.

Sagan spannar 490 ár

Í skilaréttina við Teig kemur fé frá allmörgum í Hofsárdal, þar sem næstinnsti bær er Bustarfell.

„Ég hafði alltaf hug á að verða bóndi hér. Mér rann líka blóðið til skyldunnar enda ótækt ef samhengi sögunnar hér hefði rofnað,“ segir Eyþór Bragi Bragason bóndi á Bustarfelli. Hann er 15. ættliðurinn sem situr jörðina, í sögu sem spannar alls 490 ár. Morgunblaðið var á ferðinni um Austurland á dögunum og ræddi þá við ýmsa, Bustarfellsbóndann þar á meðal, um lífið, tilveruna og landsins gagn og nauðsynjar.

Árið 1532 settust að á Bustarfelli hjónin Úlfheiður Þorsteinsdóttir og Árni Brandsson og frá þeim má rekja mikla sögu og stóran ættboga. Eftir þeirra dag hafa afkomendur þeirra, hver kynslóðin eftir aðra, setið jörðina, sem nær frá reginfjöllum niður í grösugan dal. Þar rennur Hofsá í gegn; góð og gjöful í laxveiði. Þá er bæjarstæðið einkar fallegt og svipsterkt. Byggingar þar, með gamla torfbæinn frá árinu 1770 í forgrunni, standa undir háu og hömrum gyrtu Bustarfelli, sem er 538 metra hátt. Frá þessu segir í bókinnni Bustarfell – Saga jarðar og ættar sem kom út nú í sumar. Sú byggist m.a. á gömlum handritum og heimildum sem Finnur Ágúst Ingimundarson íslenskufræðingur vann úr og bjó til prentunar.

Loftslagsvænar aðgerðir og betri búskapur

Á Bustarfelli er haldið í hefðir sögunnar um leið og horft er til framtíðar. Eyþór Bragi og Þórdís Þórarinsdóttir kona hans, sem er frá Keldudal í Hegranesi, komu inn í búskapinn árið 2019. Búa þar með foreldrum Eyþórs. Þau eru Björg Einarsdóttir, af hinni þekktu Bustarfellsætt, og Bragi Vagnsson frá Hriflu í Suður-Þingeyjarsýslu.

„Í búskap er mikilvægt að fylgja nýjum viðhorfum og þekkingu,“ segir Eyþór Bragi. Þau Þórdís taka þátt í verkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem heitir Loftslagsvænn landbúnaður . Áherslurnar þar eru að leita leiða til að draga úr losun kolefnis í búskap með til dæmis minni notkun olíu, betri áburðarnýtingu og því að reyna að fá sem mestar afurðir af hverri vetrarfóðraðri kind. Mótvægisaðgerðir þarna eru til dæmis landgræðsla, eins og lengi hefur verið stunduð á Bustarfelli. Nýjast er skjólskógrækt sem hófst nú í vor.

„Loftslagsvænar aðgerðir í búskap eiga að gera jörðina betri og reksturinn hagkvæmari. Þar er til mikils að vinna,“ segir Eyþór Bragi. Á Bustarfelli eru alls um 530 fjár á vetrarfóðrum og eftir sauðburð í maí síðastliðnum voru lömbin um 850. Nú í september hefur svo mikil vinna farið í fjárrag; velja úr ásetningsfé og þau rúmlega 700 lömb sem fara í slátrun. Lagt er inn hjá Sláturfélagi Vopnfirðinga, sem hækkar afurðaverð til bænda umtalsvert milli ára, eða í 748 kr. fyrir hvert kíló af dilkakjöti. Slíkt segir Eyþór að bæti stöðuna umtalsvert, vegi talsvert upp á móti miklum hækkunum sem komið hafi til að undanförnu á verði ýmissa aðfanga til búrekstrar.

Bóndi, safnstjóri, leiðsögumaður og ráðunautur

Þótt greiðslur fyrir sláturafurðir hækki milli ára er þó talsvert í land þannig að afkoma bænda sé viðunandi, segir Eyþór Bragi. Búrekstur einn skili aldrei þeim tekjum að dugað geti alfarið sem viðurværi. Þannig starfar Þórdís á Bustarfelli hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem ráðunautur og Eyþór Bragi hefur lengi verið leiðsögumaður innlendra sem erlendra veiðimanna sem koma til að renna fyrir lax í Hofsá. Þá hafa þau með höndum safnvörslu í gamla bænum á Bustarfelli.

Gamli torfbærinn á Bustarfelli, reistur fyrir 252 árum, hefur frá árinu 1943 verið í opinberri eigu. Er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og tilheyrir húsasafni þess. Búið var í bænum fram til 1966 og innandyra ber margt því heimilislegan svip. Metúsalem Metúsalemssyni bónda á Bustarfelli og Jakobínu S. Grímsdóttur var líka í mun að bærinn varðveittist þannig. Elín dóttir þeirra, amma Eyþórs Braga og systkina hans, var sama sinnis og gaf árið 1982 Vopnafjarðarhreppi alla húsmuni að gjöf sem urðu vísir þess sem nú heitir Minjasafnið á Bustarfelli.

Drukkum í okkur söguna og lærðum fljótt

„Ég var bara lítill strákur, sex eða sjö ára, þegar ég fór fyrst að fara með fólki hér um bæinn og segja frá. Þá var þetta kannski utan auglýsts þjónustutíma og enginn fullorðinn á svæðinu. Þá var bara sjálfsagt mál að við systkinin, sem erum fimm talsins, færum með fólki í gamla bæinn og segðum frá því sem við vissum. Fórum með sögu sem við drukkum í okkur ung og lærðum fljótt. Í seinni tíð er þetta í fastari skorðum og fyrir nokkrum árum var byggð Hjáleigan, kaffihús fyrir gesti, sem mælst hefur vel fyrir. Hér var mikið um ferðamenn bæði sumrin 2020 og 2021, enda Íslendingar mikið á ferðinni um landið þá. Í sumar kom heldur færra fólk enda margir nú eftir faraldur í utanlandsferðum og svo var tíðarfar ekkert sérstakt heldur,“ segir Eyþór Bragi og að síðustu:

„Sjálfur er ég titlaður safnstjóri, sé um að ráða fólk til safnvörslu á sumrin og fleira. Þá erum við Bustarfellsfólk gjarnan að ýta eftir því að viðhaldi á bænum gamla sé sinnt. Segjast verður að allir fjármunir til slíks eru afar naumt skammtaðir svo ekki má tæpara standa. Því hefur oft komið í hlut okkar heimafólks hér að stoppa í götin vegna tilfallandi skemmda, því þessa byggingu þarf að vernda svo einstök sem hún er.“