[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Elvar Gunnarsson. Handrit: Elvar Gunnarsson, Ingimar Sveinsson og Magnús Ómarsson. Aðalleikarar: Vivian Ólafsdóttir, Gunnar Kristinsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Þór Tulinius, Halldór Gylfason, Björn Jörundur Friðbjörnsson og Magnús Ómarsson. Ísland, 2021. 96 mín.

Gamanhrollvekjan It Hatched , sem á íslensku myndi líklega heita Það klaktist , kemur skemmtilega á óvart í kjánaskap sínum og greinilegum vísunum til bandarískra hryllingsmynda frá seinni hluta áttunda áratugarins og fyrri hluta þess níunda eða þar um bil. Veggspjaldið er líka greinilega í þeim anda (sjá mynd til hliðar) og frábærlega hannað sem slíkt. Hefði maður sem unglingur rekist á þetta hulstur á vídeóleigunni, hér forðum daga, hefði það efalítið vakið forvitni og spólan endað í tækinu.

Söguþræði eða efni myndarinnar er lýst svo í stuttu máli á vef Kvikmyndamiðstöðvar: „Pétur og Mira flytja frá erilsamri stórborg í Bandaríkjunum á afskekktan stað á Vestfjörðum í leit að friði og ró. Áform þeirra raskast þó þegar forn vættur gerir vart við sig undir kjallara hússins og Mira verpir eggi.“ Svo mörg voru þau orð og í raun óþarfi að fara nánar út í þessa súrrealísku sögu sem er um leið sígild. Óvættur þessi, sem nefndur er í lýsingunni, birtist nokkrum sinnum í myndinni í líki afskræmds og nakins karls. Þar eru engar brellur notaðar, heldur gamaldags og áhrifaríkt gervi, svo gott að hroll sækir að manni. Óvættinn allsbera leikur Magnús Ómarsson, sem betur er þekktur sem rapparinn Móri.

Þjóðsagnahefð

Í viðtali, sem birtist hér í Morgunblaðinu 30. ágúst, sagði Elvar frá því að myndin hefði í grunninn verið skrifuð út frá íslenskri og skandinavískri þjóðsagnahefð. Óvætturinn, mara, hefði fyrst komið fyrir í Ynglinga sögu og myndin bæði óður til Íslands og erlendra kvikmynda og leið fyrir leikstjórann til að skoða aftur þær myndir sem hann hafði gaman af þegar hann var yngri og einnig hinar óhugnanlegu íslensku þjóðsögur sem heilluðu hann mjög á æskuárum. Þá er sögusvið myndarinnar Strandir, þar sem stundaðar voru galdrabrennur og „ákveðin þemu í myndinni vísa í þann tíma, þegar kristnin og forneskjan mættust á 17. öld“, svo vitnað sé í Elvar.

Allt þetta er augljóst þeim sem til þekkir og myndin ein allsherjar lofgjörð til hryllingsmynda frá fyrrnefndum tíma og það af ódýrari tegundinni. Eða þannig kom hún þeim er hér skrifar a.m.k. fyrir sjónir. Leikstíllinn er í þeim anda, afar sérstakur hjá þeim Vivian Ólafsdóttur og Gunnari Kristinssyni, sem leika hina þýsku Miru og unnusta hennar Pétur. Mætti jafnvel segja að þau leiki viljandi illa eða alla vega mjög ýkt og stirðbusalega og þá væntanlega að beiðni leikstjórans. Strax í fyrsta atriði virðist allt einhvern veginn ekki alveg í lagi, bjagað og skrítið, allt frá hljóðupptöku og sjónarhorni myndavélarinnar yfir í liti og samskipti persóna. Samtal bandarísks læknis við Pétur er í þessu atriði mjög svo B-myndarlegt og fær mann til að brosa út að eyrum. Þetta er spaugileg mynd og á líka að vera það en líka hrollvekjandi á köflum þótt spaugið hafi alltaf vinninginn.

Troðin af möru

Til frekari fróðleiks þá er mara, samkvæmt gamalli þjóðtrú, „óvættur sem ræðst á sofandi fólk“, eins og segir í svari á Vísindavefnum við spurningunni: „Hvað eru mörur?“ Að fá martröð er því dregið af því að vera troðin/-n af möru. Er mara oftar kvenkyns en þó voru mörur sem ásóttu konur gjarnan taldar karlkyns, eins og segir í svarinu og þjóðtrúin útbreidd víða um Norður-Evrópu. Á ensku er enda talað um „nightmare“ eða náttmöru og á sænsku „mardrömm“, svo dæmi séu tekin. „Lærðir menn kölluðu mörur einnig succubus (kvenkyns) eða incubus (karlkyns) og var talað um að slíkar vættir legðust á sofandi fólk og ættu við það kynferðislegt samneyti,“ segir einnig í svarinu. Í kvikmynd Elvars er maran því karlkyns og svokallaður incubus þar sem hann leggst einmitt á Miru í svefni og barnar hana. Mira verpir skömmu síðar stóru eggi í mjög svo kostulegu atriði. Öll hegðun hennar breytist í framhaldinu. Eftir að ósköp venjulegt barn kemur úr egginu skilur hún ekkert í geðshræringu Péturs og ástleysi í garð þessa afkvæmis. Í mjög svo Shining -legu atriði með Birni Jörundi Friðbjörnssyni, sem leikur fyrrum ábúanda á jörðinni og draug, missir Pétur svo endanlega vitið með heldur fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Og þar er kannski kominn helsti galli myndarinnar, hversu fyrirsjáanleg hún verður þegar á líður. Maður veit algjörlega hvernig mál munu þróast og meira að segja hver endirinn verður. Myndin víkur því frá sínu óvænta og furðulega upphafi og einkennilegu persónum yfir í einkar kunnugleg stef.

Nokkrar skemmtilegar persónur, aðrar en Mira og Pétur, koma við sögu en reyndar örfáar. Halldór Gylfason leikur Grím, sem er skrítinn karl sem parið hittir í lítilli kjörbúð, og taugaveiklaða eiginkonu hans, Huldu, leikur Halldóra Geirharðsdóttir. Halldóra er afar lunkin gamanleikkona og fer á kostum í þau fáu skipti sem hún kemur við sögu. Þegar þessi skrítnu hjón, Hulda og Grímur, koma í heimsókn til Péturs og Miru kemur Hulda auga á holuna í kjallaranum sem virðist vera op niður í helvíti og æpir þá af öllum kröftum: „Það þarf að loka þessari holu!!!“ og rýkur því næst á dyr. Þá hló ég innilega. Takk, Halldóra!

Halldór er líka skemmtilegur sem og Þór Tulinius sem leikur vingjarnlegan lækni með fugladellu. Björn Jörundur á líka góðan sprett í hlutverki Gunnars, fyrrum eiganda húss þeirra Péturs og Miru, með ógnvekjandi störu og djöfullegt bros á vörum.

Að öllu samanlögðu er þetta skemmtileg og hressandi fyrsta kvikmynd hjá Elvari og greinilega gerð af ástríðu fyrir hinu kunnuglega efni og nokkru listfengi. Þar spilar skemmtileg og oft óvenjuleg myndataka stórt hlutverk sem og litadýrð og gróf hljóðvinnsla. Afkvæmi þeirra möru og Miru, Nikulás, er líka krúttlegt eða öllu heldur framan af. Hvernig unglingur Nikulás verður er efni í framhaldsmynd. Yfir til þín, Elvar.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson