Þriggja ára sonur minn er byrjaður að mæta á fótboltaæfingar. Hann verður reyndar fjögurra ára í desember en hann er búinn að mæta á fjórar æfingar núna og skora nokkur mörk. Mjög ánægður með sjálfan sig.
Þriggja ára sonur minn er byrjaður að mæta á fótboltaæfingar. Hann verður reyndar fjögurra ára í desember en hann er búinn að mæta á fjórar æfingar núna og skora nokkur mörk. Mjög ánægður með sjálfan sig.

Það eru tvær konur að þjálfa flokkinn hans, þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Hlíf Hauksdóttir. Báðar eiga þær ágætlega marga meistaraflokksleiki á milli sín. Margrét Lára er svo auðvitað markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Alvöruþjálfarar og mér finnst persónulega frábær þróun að sjá tvær konur hjálpa syni mínum að stíga sín fyrstu skref á fótboltavellinum. Þetta mun klárlega móta hann á mjög jákvæðan hátt sem ég er mjög þakklátur fyrir.

Hvort hann verður næsti Lionel Messi eða Cristiano Ronaldo þarf svo bara að koma í ljós en eins og hjá þriggja ára börnum er einbeitingin ekkert alltaf fyrir hendi. Ég hef hins vegar skemmt mér konunglega á þessum fyrstu æfingum hans, bæði yfir afrekum hans inni á vellinum sem og þegar hann er búinn að vefja sig pikkfastan í marknetið.

Að æfa íþróttir í dag kostar mikla peninga og þó að frístundastyrkurinn eigi að hjálpa foreldrum að brúa bilið er hann klárlega ekki nóg, enda hækka íþróttafélögin bara æfingagjöldin í takt við frístundastyrkinn.

Það er sorglegt að hugsa til þess að öll börn fái ekki sömu tækifæri til þess að æfa íþróttir, mögulega vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldranna.

Það er umhugsunarvert því hver veit nema við séum að missa af næsta Messi eða Ronaldo, einfaldlega vegna þess að það hafa ekki allir efni á því að senda börnin sín í þær fjömörgu íþróttir sem standa til boða í dag.