Hildur Með Míu litlu flúraða á sig, „til að minna mig á að finna Míu litlu innra með mér og standa með sjálfri mér“.
Hildur Með Míu litlu flúraða á sig, „til að minna mig á að finna Míu litlu innra með mér og standa með sjálfri mér“. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Múmínhúsið í Múmíndal er opið fyrir öll, þar er alls konar fólk alltaf velkomið og fjölskyldan reynir að vera góð við öll.

„Múmínhúsið í Múmíndal er opið fyrir öll, þar er alls konar fólk alltaf velkomið og fjölskyldan reynir að vera góð við öll. Þetta minnir á fjölskyldur sem fólk velur sér í hinsegin samfélagi þegar fólki hefur jafnvel verið útskúfað af blóðfjölskyldum sínum, þá á það vinafjölskyldur,“ segir Hildur sem hefur velt fyrir sér alls konar túlkunum sem múmínbækur bjóða upp á.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Bækurnar um múmínálfana falla undir það sem í barnabókafræðum er kallað tvíþætt ávarp, en þá er hægt að lesa bækurnar á mörgum plönum og lesendur geta verið með ólíkan skilning á efninu. Þetta er mjög áberandi í bókum Tove Jansson um múmínálfana, þar opnast fleiri túlkunarmöguleikar eftir því sem lesandinn verður eldri og fær meiri skilning á hlutum eins og til dæmis jaðarsetningu,“ segir Hildur Ýr Ísberg, íslenskukennari og múmínsérfræðingur, en hún var með pallborð á nýliðinni hátíð sem tileinkuð var finnsk-sænsku myndlistarkonunni og rithöfundinum Tove Jansson. Hildur og það sem hún hafði fram að færa sló heldur betur í gegn og m.a. tóku finnskir aðilar á vegum fyrirtækisins Moomin Characters langt viðtal við Hildi.

„Mér finnst skemmtilegt að velta fyrir mér alls konar túlkunum sem þessar bækur bjóða upp á. Við ræddum meðal annars í pallborðinu um hinseginleika og kynjahlutverk í múmínbókunum. Múmínpabbi glímir til dæmis við karlmennskuhugmyndir í einni bókinni, þar fer hann með fjölskyldunni út á haf og honum finnst hann ekki tekinn nógu hátíðlega, svo hann reynir að gera alla karlmennskuhlutina; veiða fiska, kveikja eld í vitanum, teikna landakort og sjá fyrir fjölskyldunni, en honum misstekst þetta allt,“ segir Hildur og bætir við að þótt múmínpabbi og múmínmamma virki sem mjög hefðbundið par, þá séu þau það alls ekki.

„Frelsi er þeim ákaflega mikilvægt, og reyndar öllum í múmínfjölskyldunni. Hjá þeim er samkomulag um að hver sem er megi fara hvenær sem er og viðkomandi þarf ekkert að útskýra það. Þau hafa öll frelsi til að gera það sem þau vilja. Þetta finnst mér merkileg hugmynd, því hún stangast á við hvað þau hjónin, múmínmamma og múmínpabbi, virka á margan hátt rígbundin í sínum kynjahlutverkum. Í bókum Tove kemur mjög oft upp ádeila á hina hefðbundnu fjölskyldu, fillífjonkurnar eru til dæmis ein stór ádeila á þá hugmynd að hlutirnir eigi að vera á einhvern ákveðinn hátt og að maður eigi að koma fram við fjölskyldu sína á einhvern ákveðinn hátt. Tove kemur í múmínbókunum oft inn á að fjölskylda eigi að ganga út á ást og frelsi, en ekki hefðir og venjur.“

Minnir á transumræðu núna

Hildur segir að hinseginleikinn sé víða í múmínbókunum, enda var Tove samkynhneigð en það var bannað með lögum í Finnlandi þegar hún var uppi.

„Hún var aldrei opinberlega samkynhneigð en konan hennar og lífsförunautur, Tuulikki Pietilä, var „vinkona“ hennar. Þær bjuggu hvor í sinni íbúð, en innangengt var á milli. Tove gat ekki rætt sína kynhneigð opinberlega, en víða í bókum hennar eru dæmi um að kyn skipti ekki máli. Til dæmis persónurnar Þöngull og Þrasi, en þeir eiga fjársjóð í tösku sem enginn má sjá. Þeir heita Tofslan og Vifslan á sænsku, sem eru kynlaus nöfn og voru reyndar gælunöfn Tove og Viviku, sem var ástkona Tove áður en hún kynntist Tuulikki. Þessar kynlausu persónur tala heldur betur inn í samtíma okkar,“ segir Hildur og bætir við að hún hafi í sumar lesið smásögu eftir Tove þar sem vorlagið hans Snúðs kemur fyrir.

„Það minnti mig mikið á transumræðu nútímans, en til Snúðs kemur kríli og þegar hann spyr hvað það heiti, þá segir það: „Ég heiti ekki neitt, ég er svo ómerkilegt lítið kríli að enginn hefur gefið mér nafn.“ Krílið bætir við að kannski geti Snúður gefið því nafn, en hann vill það ekki. Hann skiptir um skoðun og hálfhendir í það nafni, Tittívú, og krílið verður rosalega ánægt með nafnið sitt. Snúður verður afundinn og hrekur krílið í burtu, en hann sér sig um hönd, snýr til baka og vill finna krílið. Þá ber svo við að krílið hefur fundið sinn stað í samfélaginu eftir að hafa fengið nafn og er rosalega upptekið, það má ekkert vera að því að tala við Snúð. Nafngiftin skiptir svo miklu máli og þetta fékk mig til að hugsa um fólk í dag sem er kynsegin og tekur upp ný nöfn, hversu miklu máli það skiptir fyrir það fólk að vera kallað þeim nöfnum sem það tilheyrir,“ segir Hildur og bætir við að í heimi Tove í múmínbókunum sé pláss fyrir alls konar verur, fjölbreytileikann. „Múmínhúsið í Múmíndal er opið fyrir öll, þar er alls konar fólk alltaf velkomið og fjölskyldan reynir að vera góð við öll. Þetta minnir á fjölskyldur sem fólk velur sér í hinsegin samfélagi þegar fólki hefur jafnvel verið útskúfað af blóðfjölskyldum sínum, þá á það vinafjölskyldur.“

Bísamrottan og meðvirkni

Hildur segir að umburðarlyndi múmínmömmu sé gríðarlegt, hún sé meira að segja umburðarlynd við fólk sem henni líkar alls ekki við.

„Í múmínhúsinu býr til dæmis bísamrottan sem settist að hjá þeim í kjallaranum, hún er heimspekingur og les bók um tilgangsleysi allra hluta. Bísamrottan er mjög leiðinleg og „passíf-aggressíf“, hún er alltaf að segja hluti eins og „ekki hafa neitt fyrir mér, en ég hefði gott af átta rétta máltíð“. Múmínmamma hleypur til og reynir að þóknast henni, en bísamrottan er tákngervingur meðvirkni og hún er góð kennsla í því að ef við setjum fólki ekki mörk í lífinu, þá endum við með bísamrottu í kjallaranum,“ segir Hildur og bætir við að Tove taki fyrir í múmínbókunum ýmislegt annað í fari fólks sem betur mætti fara.

„Til dæmis ósýnilega barnið sem býr hjá frænku sinni en Tikkatú kemur með þetta barn til múmínfjölskyldunnar og þá er það nánast alveg ósýnilegt. Við settum fram kenningu í pallborðinu um að Tikkatú væri eins konar hinseginfræðari, hún kennir múmínsnáðanum hvernig á að koma fram við fólk sem er öðruvísi en maður sjálfur. Tikkatú segir frá því að frænka ósýnilega barnsins hafi verið vond og meinfýsin við það, það mátti aldrei vera það sjálft. Múmínfjölskyldan tekur ósýnilega barnið að sér og reynir að vera eins góð við það og hún getur. Múmínmamma finnur gamla uppskrift í bók ömmu sinnar að seyði sem hægt er að gefa fólki svo það hætti að vera ósýnilegt. En ástæðan fyrir því að barnið kemur smátt og smátt í ljós er sú að múmínfjölskyldan er góð við barnið. Mér finnst mjög áhugvert að andlit og höfuð barnsins birtist ekki til fulls fyrr en það verður reitt. Barnið þarf að standa með sjálfu sér, þá loksins kemur það alveg í ljós.“