Í verðbólgunni sem nú geisar hefur ríkisstjórnin tekið sér stöðu gegn heimilunum í landinu og með fjármálafyrirtækjunum og róið á gamalkunnug mið til að þau afli sem aldrei fyrr.

Í verðbólgunni sem nú geisar hefur ríkisstjórnin tekið sér stöðu gegn heimilunum í landinu og með fjármálafyrirtækjunum og róið á gamalkunnug mið til að þau afli sem aldrei fyrr.

Aftur skal heimilunum fórnað á altari fjármálafyrirtækjanna í nafni þess að verið sé að ná niður verðbólgunni.

Við stefnuræðu forsætisráðherra á síðasta ári sagði ég m.a.:

„Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að verja heimilin. Hún á ekki að standa til baka á meðan stórfelld eignatilfærsla á sér stað frá heimilunum til bankanna, og hún á alls ekki að bæta á byrðar þeirra. Það sama á við um minni og meðalstór fyrirtæki. Þau þarf einnig að verja.“

Ég gæti hreinlega flutt sömu ræðu aftur sem sýnir fram á að þessi vandi hefur verið fyrirsjáanlegur í langan tíma þótt ríkisstjórnin hafi flotið sofandi að feigðarósi.

Það hvernig fer ræðst á allra næstu mánuðum. Ef vextir fara að lækka verður þetta kannski bara slæmt högg fyrir heimilin. En ef ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut gæti þetta endað með hörmungum og minn versti ótti orðið að veruleika fyrir þúsundir heimila, enda eru aðgerðirnar gegn verðbólgunni miklu verri en verðbólgan sjálf.

Það segir sitt að meginvextir seðlabankans hafa hækkað um 340% á einu ári og 633% frá því þeir voru lægstir í maí 2021.

Þótt flest heimili landsins myndu standast verðbólguna munu mörg þeirra kikna undan þeim vaxtahækkunum sem núna er kastað fram af algjöru ábyrgðarleysi og „dásamlegu“ skeytingarleysi þeirra sem hafa tvær milljónir eða meira á mánuði.

Það er augljóst að vaxtahækkanir bitna verst á þeim sem mest skulda og hafa hvað minnst á milli handanna. Þær skila sér einnig beint inn í leiguverð og bitna þannig verst á þeim þjóðfélagshópum sem allra verst standa, þar á meðal öryrkjum og öldruðum.

Það er ekki fólkið sem hefur valdið verðbólgunni eða þenslunni á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki fólkið sem eytt hefur um efni fram því það hefur aldrei lifað í þeim lúxus að geta það.

Öðru máli gegnir um fjárfestana sem hlaupa um fasteignamarkaðinn eða bankana sem græða á tá og fingri eins og enginn sé morgundagurinn því nú streyma fjármunir heimilanna til þeirra í stríðum straumum í boði ríkisstjórnar Íslands.

Ríkisstjórninni og Seðlabankanum ber að verja heimilin en ekki blóðmjólka þau og soga úr þeim lífskraftinn því heimilin eru ekki ótæmandi auðlind fyrir bankana að ganga í. Eigi kjaraviðræður haustsins að ganga greiðlega þýðir ekki fyrir ríkisstjórnina að krefja launþega um skynsemi með vaxtahækkanir upp á 633% í farteskinu.

Það ætti að segja sig sjálft.

Höfundur er þingmaður fyrir Flokk fólksins.