Skarphéðinn Gunnarsson fæddist 1. desember 1964 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 4. september 2022. Foreldrar hans eru Jóhanna Skarphéðinsdóttir, f. 11. febrúar 1941 á Bíldudal, og Gunnar Pálmason, f. 26. júní 1944 á Skagaströnd. Bróðir Skarphéðins er Börkur Gunnarsson, f. 2. janúar 1970. Eftirlifandi eiginkona hans er Arndís Leifsdóttir, f. 2.5. 1961, en þau giftust 17. júní 2006. Móðir hennar var Ingibjörg Ebba Jónsdóttir, f. 14.3. 1941, d. 28.9. 1973, og faðir hennar er Leifur Magnússon, f. 9.10. 1938. Kona hans er Þórunn Edda Sigurjónsdóttir, f. 1941. Barn Skarphéðins af fyrra hjónabandi er Jóhanna María Vignir, f. 21. febrúar 1991. Börn Arndísar af fyrra hjónabandi eru Lilja Huld Ólafsdóttir, f. 1979, Svana Björg Ólafsdóttir, f. 1983, og Íris Telma Ólafsdóttir, f. 1990. Saman eiga þau Emblu Rún Skarphéðinsdóttur, f. 15. ágúst 2001.

Skarphéðinn lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1991. Hann kenndi um tíma hjá Tölvu- og verkfræðiþjónustunni og hjá Heyrnleysingjaskólanum. Hann kenndi við ýmsa grunnskóla í Reykjavík, lengst af við grunnskóla í Grafarvogi.

Útförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 15. september 2022, klukkan 13.

Hvíldu í friði kæri pabbi. Við stelpurnar þínar erum rólegar í þeirri trú að nú sértu loks frjáls ferða þinna, kominn á bak Þrastar með Þyt í taumi á þeysispretti í dalnum sem er okkur úr augsýn.

Margar góðar minningar um alls konar skemmtilegheit með þér ylja okkur áfram og þær gleymast seint. Allir dásamlegu hjólatúrarnir (annaðhvort með Emblu aftan á eða í eftirdragi), hestatúrarnir (með Jóu hest í taumi eða eftirdragi) og allar lestrarstundirnar okkar fyrir svefninn.

Ekki má gleyma þeim lífslexíum sem við lærðum af því að fylgjast með þér kljást við erfiðara verkefni en þú áttir skilið, en seiglan, dugnaðurinn og krafturinn þinn er nokkuð sem við munum reyna að líkja eftir alla ævi.

Þú kenndir okkur margt, þá einna helst að dreyma stóra drauma og láta aldrei deigan síga! Með þér upplifðum við margt og mikið en við munum mest sakna þess að heyra hláturinn þinn og actionary-samtalanna.

Jóhanna María og Embla.

Elsku besti Skarphéðinn, pabbi og afi, það er með sorg í hjarta að við kveðjum þig alltof fljótt, þín verður sárt saknað. Við systurnar munum minnast allra góðu stundanna og samverunnar með þér.

Sumarið sem var að líða var fullt af góðum samverustundum með þér, og þökkum við fyrir þær. Stundirnar á golfvellinum, með mömmu, Lilju og Ómari, voru margar og gafstu ekkert eftir þrátt fyrir að taka sveifluna með annarri hendi. Það er lýsandi fyrir þig; þú hélst ávallt ótrauður áfram og lést ekkert stoppa þig, sama hvað, óteljandi göngutúrar, hjólreiðatúrar og öll ævintýrin sem urðu á vegi þínum.

Ævintýri Tinna lýsa þér vel, það er ekkert sem stoppar Tinna af í hinum og þessum aðstæðum og tókst þér það svo sannarlega líka. Á síðustu 10 árum tókst þér að gera ótrúlegustu hluti enda hafðir þú sérstakt dálæti á Tinnabókunum og varst með þær allar uppi á Brúsó. Í síðustu heimsókn upp í sumarbústað, þegar Svana, Ísabella og Gabríella komu til þín og við eyddum deginum saman, þá varstu mjög hissa á að stelpurnar þekktu ekki Tinnabækurnar og því þyrfti nú að kippa í lag. Þetta var yndislegur dagur sem við áttum, við skoðuðum gamlar myndir frá því að Embla var lítil og þið voruð að byggja Brúsó. Við fórum í göngutúr um lóðina þar sem þú sýndir okkur öll trén sem þú varst búinn að gróðursetja og öll litlu jólatrén sem þú áttir eftir að færa og setja niður á nýja staði, trébekkinn sem er úti á miðri lóð til að staldra við og njóta sveitaloftsins, gleði þín skein úr augunum, þarna undir þú þér best.

Alltaf varstu til í að eyða tíma með afabörnunum þínum, hvort sem það var að tefla skák, mála steina, púsla, horfa á teiknimyndir eða láta skreyta þig með blómum. Þú varst svo stoltur af Emblu sem var nýfarin að stunda nám í háskólanum og flutt að heiman. Þá voruð þið hjónakornin bara ein eftir í kotinu, en alltaf nóg að gera og ekki leið sú stund að þú hefðir ekki eitthvað fyrir stafni.

Þau voru ófá skiptin sem þú komst við hjólandi í Tröllateignum á leiðinni heim, í kaffibolla og hundaknús. Þú varst í miklu uppáhaldi hjá öllum hundunum sem Svana og Íris eiga og hafa átt í gegnum tíðina, þeir tóku þér ávallt fagnandi, í öllum boðum, afmælum eða hittingum fórstu í göngutúr með þá, sama hvernig viðraði.

Við minnumst með hlýhug allra þeirra ævintýra og ferða sem við systur, makar og börn höfum farið í með þér og mömmu undanfarin ár. Mallorcaferðin þar sem var mikið hlegið og leikið á ströndinni, Akureyrarferðin sem við fórum í rétt eftir að Embla útskrifaðist úr menntaskóla. Bíltúrinn á Hjalteyri þar sem þú veifaðir og veifaðir til okkar á bryggjunni og bentir út á sjó til að sýna okkur hvalina sem höfðu látið sjá sig gleymist seint.

Óteljandi minningar munu sitja eftir í minningabankanum hjá okkur og erum við þakklátar fyrir það.

Þínar stelpur,

Embla, Íris, Svana og Lilja.

Mig langar að minnast góðs vinar með fáum orðum. Ég kynntist Skarphéðni í þjónustumiðstöð Sjálfsbjargar í Hátúni fyrir þó nokkrum árum, en við höfum verið þar í ýmiskonar endurhæfingu og líkamsþjálfun. Þarna tókst með okkur vinskapur sem varð bara meiri og betri með árunum. Við vorum þar í gönguhóp, en þar sem við komumst hraðar yfir en flestir gengum við oft langar leiðir tveir saman. Þar fyrir utan mæltum við okkur oft mót og hittumst til að ganga. Höfðum við af þessu ómælda ánægju. Við löbbuðum einu sinni sem oftar í gegnum Klambratúnið í átt að Snorrabraut og þar fylgdi Skarphéðinn mér að húsi einu sem stóð á götuhorni, en þar stóð á öðru horninu Skarphéðinsgata og á hinu horninu Gunnarsbraut. Hann benti mér hróðugur á þetta og brosti út að eyrum.

Skarphéðinn átti ásamt Arndísi konu sinni sumarbústað þar sem ég skynjaði að honum fannst gott að dvelja og rækta þar blóm og runna. Hann sýndi mér eitt sinn plöntur sem hann var með í uppeldi við hús foreldra sinna. Svo var allt flutt upp í bústað þegar það var tilbúið og gróðursett þar.

Fyrir allmörgum árum hafði Skarphéðinn fengið hjartaáfall og skemmdust þá stöðvar í heilanum sem sjá um lestur og talað mál. Hann var duglegur að þjálfa sig upp aftur í tali, m.a. með þátttöku í viðeigandi námskeiðum. Ég var orðinn nokkuð góður í að giska á hvað hann ætlaði og vildi segja. Þannig gátum við talað saman og gekk það býsna vel hjá okkur.

Við fórum einu sinni á útskurðarnámskeið, en þar stóð Skarphéðinn sig ekki síður en þeir sem höfðu mátt í báðum höndum. Eljan var mikil hjá honum, en hann hafði ekki mátt í hægri hendi.

Ég mun sakna hans mikið og allra gönguferðanna með honum.

Ég votta konu hans, henni Arndísi, börnum, foreldrum og öðrum ættingjum mína dýpstu samúð.

Hvíldu í friði.

Lárus Björnsson.

Hljótt er inni, úti kyrrð og friður,

aðeins regnið drýpur niður,

yfir þurran, þyrstan svörð.

Nóttin heyrir bænir alls, sem biður

við brjóst þín, móðir jörð.

Allir hlutu einn og sama dóminn.

Alla þyrstir, líkt og blómin,

hverja skepnu, hverja sál.

Um allar byggðir blikar daggarljóminn,

bláma slær á sund og ál.

Öllum sorgum sínum hjartað gleymir.

Svalinn ljúfi um það streymir,

eins og regn um sviðinn svörð.

Blómin sofna, börnin litlu dreymir

við brjóst þín, móðir jörð.

(Davíð Stefánsson)

Ég kveð Skarphéðinn með söknuði og votta Arndísi og öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Hjördís Bjartmars.