Ármann Þorgrímsson yrkir á Boðnarmiði af því tilefni að sýslumaður Íslands verður á Húsavík: Eins og flestir eflaust sjá er sá staður réttur þar sem mesta þörf var á þar var karlinn settur.

Ármann Þorgrímsson yrkir á Boðnarmiði af því tilefni að sýslumaður Íslands verður á Húsavík:

Eins og flestir eflaust sjá

er sá staður réttur

þar sem mesta þörf var á

þar var karlinn settur.

Tryggvi Jónsson segir: „Ef það á að vera bara einn sýslumaður yfir öllu Íslandi þá er að sjálfsögðu best að hafa hann þar sem mest gagn verður að honum“:

Niður skal nú negla hann

og nota í Þingeyjarsveit.

Best er að brúka sýslumann

við brugg og landaleit.

Ágústa Ósk Jónsdóttir gerði þessa athugasemd:

Miðju landsins mætti sá

meta í réttu bili.

Sýslumaður sæti þá

sjálfur uppi á Kili.

Ólafur Stefánsson skrifar: „Bók Birgis heitins Sigurðssonar, Svartur sjór af síld, er að mörgu leyti grundvallarrit um síldveiðar frá upphafi en er líka bráðskemmtileg og upphafin á köflum.

Þar má sjá mismerkilegan skáldskap, eins og tíðkast hefur á Íslandi alla tíð“:

Síldin er silfur hafsins

sumarið okkar von.

Þegar Gottfreðsen grætur,

gleðst Óskar Halldórsson.

Önnur um Íslands-Bersa.

Glímdi oft um fremd og fé

fann og missti gróðann.

Fjórum sinnum féll á hné

en fimmtu lotu stóð hann.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir sléttubönd hringhend og heitir „Góði hirðirinn“:

Messar tíðum séra Sveinn,

sárum kvíða hrindir.

Blessar lýðinn hjartahreinn,

harmar víða syndir.

Öfugt:

Syndir víða harmar hreinn

hjarta, lýðinn blessar.

Hrindir kvíða sárum Sveinn

séra tíðum messar.

Maðurinn með hattinn yrkir:

Ár um kring með eld í sál

yrkja menn og skrifa.

Ferskeytlunnar meitlað mál

megi um aldir lífa.

Kristján Eldjárn orti:

Allt það sem hafa menn hátt um

hugsa og tala ég fátt um.

En ég hugsa um hitt

– slíkt er háttalag mitt –

sem talað er lítið og lágt um.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is