[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu segir röskun á aðfangakeðjum í kórónuveirufaraldrinum og stríðið í Úkraínu eiga þátt í að afhendingartími nýrra bifreiða hafi lengst.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu segir röskun á aðfangakeðjum í kórónuveirufaraldrinum og stríðið í Úkraínu eiga þátt í að afhendingartími nýrra bifreiða hafi lengst. Sá tími fari eftir búnaði og útgáfum en biðin eftir einstaka tegundum geti verið allt að átta mánuðum, þar með talið rafbílum.

Fram kom í Morgunblaðinu í fyrradag að niðurfelling á virðisaukaskatti á rafbíla, allt að 1.320 þúsund, falli niður þegar skráðir hafa verið 20 þúsund nýir rafbílar.

Alls 5.100 bílar voru óseldir innan þessara marka í byrjun mánaðar en nýjar tölur verða birtar í október.

Friðbert segir þetta lítinn fyrirvara, enda verði innflutningskvótinn að óbreyttu fullnýttur vorið 2023.

„Margir viðskiptavina okkar þurfa orðið að bíða lengur eftir bílnum sínum. Framboð nýrra bíla, sérstaklega rafbíla, er takmarkað og biðlistinn langur. Það er því ólíklegt að bílaumboðin muni geta afhent alla þá bíla sem eru í pöntun áður en þessi hækkun kemur til framkvæmda.

Með þessum tillögum fjármálaráðuneytisins mun því skapast samkeppni milli þessara kaupenda um hver fær bílinn afhentan fyrir tilsettan tíma og hver ekki. Þá getur hann verið orðinn 2-3 milljónum dýrari með mögulegum hækkunum frá framleiðendum,“ segir Friðbert.

Beinir fólki aftur í olíuna

„Það hefur lengi verið þung undiralda á móti fjölskyldubílnum. Það skýtur því skökku við að það eigi að fara að tolla rafbíla með þessum hætti og þannig stýra fólki í bensín- og díselbíla aftur. Jafnframt hafa stjórnvöld undirritað alls kyns skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Maður hefði haldið að góð leið til þess væri að fá fólk til að nota rafbíla. Það væri kannski sanngjarnara að haga skattheimtunni eftir notkun.“

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir lítinn fyrirvara á fyrirhugaðri niðurfellingu á virðisaukaskatt rafbíla munu hafa mikil áhrif á eftirspurnina. Það rifji upp sögur frá fyrri tíð af mönnum sem keyptu sér nýja bíla þegar spurðist af fyrirhugaðri gengisfellingu og seldu þá svo í kjölfarið með hagnaði.

„Þegar svona breytingum er slengt fram með litlum fyrirvara skapast einhvers konar gullgrafaratilfinning hjá mörgum. Það er gríðarleg eftirspurn eftir rafbílum í augnablikinu og endursölumarkaðurinn hefur tekið kipp. Það er lítið framboð og verðskrið og ekki ólíklegt að innflutningsþakinu [20.000 rafbílar] verði náð fyrr en seinna.

Fjármálaráðherra segir á döfinni að koma með eitthvað annað á móti en það liggur ekki fyrir. Að óbreyttu erum við því að horfa fram á gríðarlega verðhækkun á rafbílum. Það er þvert á stefnumörkun stjórnvalda um árangur í loftslagsmálum,“ segir Runólfur og víkur að skattlagningu á bensín- og díselbíla.

Varð að varanlegum skatti

Sögulega hátt verð á eldsneyti hafi skilað ríkissjóði auknum skatttekjum en bensínlítrinn kosti nú um 100 krónum meira en fyrir ári.

Við þessar aðstæður standi til að hækka bifreiðagjaldið en það hafi upphaflega verið lögfest árið 1987 til þess að stoppa upp í fjárlagagat.

„Þá var tekið fram að um væri að ræða tímabundinn skatt til eins árs. Nú, 35 árum seinna, lifir skatturinn góðu lífi. Bifreiðagjaldið skilaði ríkissjóði 4,7 milljörðum króna árið 2008, 7,4 milljörðum 2018 og samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi á það að skila tæpum 10,6 milljörðum 2023.“

Tuga prósenta hækkun

Runólfur bendir á að eftir að gjaldið var miðað við losun koldíoxíðs hafi það farið lækkandi, eftir því sem bílar urðu sparneytnari.

„Um áramótin 2021/2022 var lágmark bifreiðagjalds hækkað um þúsund krónur sem stjórnvöld sögðu gert til að draga úr þeirri skerðingu tekna sem skýrist af umhverfisvænni bílum. Í fjárlagafrumvarpinu er áformað að hækka tekjur ríkisins af bifreiðagjaldi um ríflega 36% miðað við ríkjandi fjárlög... Út frá fyrirliggjandi gögnum og ummælum ráðamanna má áætla að algeng hækkun bifreiðagjalds á milli ára geti verið um 30%,“ segir Runólfur og bendir á aðrar fyrirhugaðar skattahækkanir á bifreiðaeigendur.

Áformað sé að hækka eldsneytisgjöld, vörugjöld á bensín, olíugjald og kolefnisgjald um 7,5%. Bein skattahækkun um komandi áramót vegna þessara breytinga sé 8,55 krónur á bensínlítra og 7,6 kr. á díselolíulítra. Miðað við bíl sem eyðir sjö lítrum af bensíni á 100 km og er ekið 18.000 km yfir árið muni skattgreiðslur vegna bensínnotkunar hækka um 11.000 kr. eftir áramót.

Miðað við að bifreiðagjald á dæmigerðan fjölskyldubíl hækki um átta þúsund krónur verði bein skattahækkun vegna eldsneytis og bifreiðagjalds því um 19 þúsund.

Loks sé áformað að afla fjár til borgarlínu með aukinni skattheimtu en útfærslan á því liggi ekki fyrir.

„Það eru því í farvatninu gríðarlega auknar álögur á umferðina og fjölskyldubílinn en margt er á huldu um hvernig það verður útfært,“ segir Runólfur Ólafsson að lokum.